15.12.1983
Neðri deild: 26. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1877 í B-deild Alþingistíðinda. (1589)

128. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hér er kominn til okkar gamall kunningi árviss þar sem er þetta frv. um breytingu á lögum nr. 83 frá 1974, um verðjöfnunargjald af raforku.

Ég þarf ekki að tala hér langt mál. Ég er fylgjandi þessu frv., enda hef ég mælt fyrir sams konar frv. á árum fyrr og þekki vel þau rök sem að því hníga að þennan gjaldstofn er ekki rétt að skerða við núverandi aðstæður. Oft hefur verið á það litið og verið oft til umr. hvort unnt væri að lækka þetta verðjöfnunargjald, en enn sem komið er eru ekki aðstæður þær að það sé kleift nema þá að menn missi þá verðjöfnunarstefnu sem reynt hefur verið að fylgja til baka og sem skilað hefur verulegum árangri á undanförnum árum. Hér var verðmunur á þeim töxtum sem þetta gjald er notað til að jafna og halda sem lægstum orðinn hátt í 90% 1978, en verðmunurinn nú á töxtum þeirra sem njóta þessa verðjöfnunargjalds og Rafmagnsveitu Reykjavíkur er rétt um 25% og hefur verið það um skeið. Það er vissulega umtalsverður munur, en á ýmsum öðrum töxtum þar sem ekki er um hliðstætt gjald að ræða er munurinn allur annar og meiri, svo sem í húshitunarmálum, og mundu margir glaðir una við það ef ekki munaði þar meira en 25%.

Hitt er annað mál að önnur leið til að tryggja þessum fyrirtækjum tekjur hefur oft verið til umr., þ.e. eigendaframlög, og á það sérstaklega við um Rafmagnsveitur ríkisins sem hreint ríkisfyrirtæki. Í tíð fráfarandi ríkisstj. og reyndar þegar í tíð ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar 1978–79 var tekinn upp sá háttur að leggja Rafmagnsveitum ríkisins til eigendaframlög, bein framlög á fjárlögum til að yfirtaka lán og létta fjármagnskostnaði af fyrirtækinu. Þetta nam hátt í 30 millj. kr. samtals þegar upp var gert árið 1982 og mun hafa verið 13–14 millj. ef ég man rétt, á yfirstandandi ári þó að ég hafi ekki þá tölu hér hjá mér. En nú er ekkert slíkt að finna í fjárlagafrv. og engar tillögur hafa komið fram um slíkt framlag. Þetta ber að harma því að þó að hæstv. iðnrh. hafi greint frá því í framsögu — eða var það kannske þegar við ræddum hér við 2. umr. fjárl., það hefur líklega verið þá sem hæstv. ráðh. svaraði fsp. um þetta efni frá mér með þeim hætti að ekki væri í rauninni þörf fyrir slík eigendaframlög lengur, búið væri að sjá þannig fyrir málum fyrirtækisins og búið að létta af því verkefnum. Vissulega hefði þar ýmislegt gerst þannig að ekki væri lengur jafn brýn þörf fyrir slíkt.

Ég leyfi mér að draga í efa að svo sé. Ég veit ekki betur en að á Rafmagnsveitur ríkisins og auðvitað Orkubú Vestfjarða líka sé lagt að standa fyrir framkvæmdum sem eru félagslegs eðlis, óarðbærar eftir mælistiku markaðslögmálanna, og því nauðsynlegt að bæta fyrirtækjunum þann kostnað sem ekki fæst með tekjum og þar skipti verulegu máli meðan lögð voru framlög frá eiganda til fyrirtækisins. Ég geri ráð fyrir að við hæstv. ráðh. séum sammála um að ekki megi undir neinum kringumstæðum hverfa frá þeim árangri sem þó hefur náðst í verðjöfnunarátt á heimilistaxta sem snertir þetta frv. Þá er að sjá til þess að hægt sé að reka þetta ríkisfyrirtæki, Rafmagnsveitur ríkisins, og hitt fyrirtækið, Orkubú Vestfjarða, sem ríkið á 40% hlut í, með þeim hætti að þetta gangi upp.

Vonir sem verið er að vekja með orðum sem féllu hjá hæstv. ráðh. í umr. í gær voru víst að unnt ætti að vera að ná niður verðjöfnunargjaldi á raforku í áföngum og e.t.v. að fella það alveg niður; þau ummæli held ég að séu ekki verulega ígrunduð. A.m.k. er tvísýnt að gefa yfirlýsingar um það efni fyrr en menn sjá hvað þeir hafa á hendi og hvernig rekstur fyrirtækjanna þróast. Ég á eftir að sjá það ef fylgja á þeirri stefnu að leggja ekki neitt eiginfjárframlag til Rafmagnsveitna ríkisins á næsta ári og næstu árum, ef það er stefna núv. ríkisstj., að kleift verði að lækka þetta verðjöfnunargjald og fella það niður og vernda þá verðjöfnun sem þó hefur náðst og vissulega þyrfti þar að takast enn betur í þeim efnum. Ég vildi benda hæstv. ráðh. á þetta. Það er mitt viðhorf að það sé, og reyndar reynslan, því að vissulega hefði ég áhuga á því, ef það væri unnt, að koma nokkuð til móts við óskir um að draga úr þessu verðjöfnunargjaldi. Um það hafa verið árvissar óskir frá rafveitum sveitarfélaga sem Samband ísl. rafveitna hefur verið talsmaður fyrir, meira en fyrir Rafmagnsveitur ríkisins þó að þær eigi aðild að því sambandi. En þá kom í ljós á síðustu árum þrátt fyrir eigendaframlag að enginn grundvöllur var til að lækka þetta verðjöfnunargjald og hefur rekstur rafmagnsveitna verið nógu þungur samt.

Hér talaði hv. 3. þm. Reykn. í umr. í gær og benti á að gjaldskrár nokkurra rafveitna sveitarfélaga væru hærri á heimilistaxta en hjá Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúi Vestfjarða og því væru rök fyrir því að krefja þær ekki um þetta verðjöfnunargjald eða endurgreiða þessum rafveitum þetta verðjöfnunargjald. Vísaði hann til þess heimildarákvæðis sem er að finna varðandi Rafveitu Siglufjarðar.

Nú vil ég öllum þessum fyrirtækjum vei. En ég get ekki tekið undir rök um að þarna verði breyting á. Ég vil ekkert liggja á þeirri afstöðu minni. Ég tel að sá munur sem ekki er verulegur á þessum gjaldskrám sé fyrst og fremst tilkominn vegna þess að menn hafa haldið fast við það að ekki ykist verðbil á töxtum Rafmagnsveitu Reykjavíkur og hjá Rafmagnsveitum ríkisins. Hins vegar hafa verið heimilaðar heldur meiri gjaldskrárhækkanir hjá öðrum veitum og þannig hafa gjaldskrártaxtar þeirra farið aðeins upp fyrir taxta Rafmagnsveitna ríkisins nú líklega á síðasta ári. Þetta er sjálfsagt að líta á og reyna að samræma en að þessar rafveitur og rafveitur sveitarfélaga almennt geti farið að óska eftir hluta í þessu gjaldi eða undanþágum frá því af þessum ástæðum tel ég ekki vera rök fyrir.

Starfsemi Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða og verkefni eru öll önnur en þessara þéttbýlisrafveitna. Það er öllum ljóst sem til þekkja. Þessi fyrirtæki standa fyrir verkefnum sem ekki skila tekjum nema takmarkað og engan veginn saman að jafna. Heimildarákvæðið varðandi Rafveitu Siglufjarðar er tilkomið vegna þess að viss rök voru fyrir því að veita þar undanþágu vegna erfiðrar orkuöflunar þess fyrirtækis og flutningslínu sem Rafveita Siglufjarðar stendur undir. Slíkum rökum er ekki til að dreifa svo að mér sé kunnugt hjá öðrum aðilum með sama hætti.

Herra forseti. Ég vildi að þetta kæmi hér fram þó að ég eigi sæti í þeirri nefnd sem fær þetta mál til meðferðar. Ég mun stuðla að framgangi þessa máts án breytinga og ég veit ekki til þess að afstaða í mínum flokki sé neitt breytt frá því sem verið hefur. Þar hafa menn flestir a.m.k. stutt að framgangi þessa máls á liðnum árum og svo mun hafa verið í Ed. þaðan sem mál þetta er komið. Ég vænti að þar verði ekki breyting á.