15.12.1983
Neðri deild: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1881 í B-deild Alþingistíðinda. (1598)

133. mál, gjaldeyris- og viðskiptamál

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. viðskrh. í tilefni af þessu frv., sem hann hefur mælt hér fyrir, hvort hann geri ráð fyrir því að veita þeim bönkum og sparisjóðum sem kunna að sækja um takmarkað gjaldeyrisleyfi þessi leyfi svo að segja jafnóðum og slíkt berst, þannig að segja megi að með þessu frv. sé í raun og veru verið að leita staðfestingar Alþingis á því að allar bankastofnanir og sparisjóðir hafi gjaldeyrisleyfi.

Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. viðskrh. að því hvort honum er kunnugt um að einstakir sparisjóðir eða bankar muni hefja gjaldeyrisafgreiðslu strax um næstu áramót verði þetta frv. að lögum fyrir hátíðar.