15.12.1983
Neðri deild: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1881 í B-deild Alþingistíðinda. (1599)

133. mál, gjaldeyris- og viðskiptamál

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því að leiti sparisjóðir eftir heimild og meðmæli Seðlabanka Íslands eru fyrir hendi þá muni ekki standa á viðskrn. að veita heimild til gjaldeyrisverslunar, fyrst um sinn takmarkaðrar gjaldeyrisverslunar að mínum dómi eins og hér er rætt um.

Síðari spurningin fjallaði um það, hvort slík heimild verði veitt fyrir áramót. Þær starfsreglur sem voru settar hjá þeim þremur bönkum sem ég gat hér um áðan, þegar þeir fengu leyfi nú fyrir skömmu, munu væntanlega gilda með svipuðum hætti varðandi sparisjóðina.

Ég er þeirrar skoðunar að hefði slík heimild verið í lögum fyrir löngu síðan hefði e.t.v. hluti af þeim bankaútibúum sem menn hafa nú gagnrýnt ekki verið stofnsett og mér sýnist að það sé eðlileg þjónusta við fólkið í landinu að það geti lagt þann gjaldeyri sem það á inn í hvort heldur er banka eða sparisjóði og það geti fengið keyptan þann ferðagjaldeyri sem það óskar eftir hvort heldur er hjá bönkum eða sparisjóðum og hvar sem er á landinu.