24.10.1983
Efri deild: 8. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í B-deild Alþingistíðinda. (160)

8. mál, ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem hv. 8. þm. Reykv. sagði, sem er að sjálfsögðu bakgrunnur alls sem ég sagði í Vestmannaeyjum og eins vandamála þjóðarinnar. Hann sagði að of margir hefðu viljað vera þátttakendur í auðspili sjávarútvegsins, sjóðir og peningastofnanir hafi hleypt þessum allt of mörgu aðilum af stað — og hver borgar skuldir Fiskveiðasjóðs?

Þetta er mergur málsins. Við skulum gera okkur grein fyrir því að sjávarútvegurinn stendur ekki undir þeim kvöðum sem á honum hvíla. Fjárfestingar hafa verið mjög miklar og á þessar skuldir hlaðast vextir og afborganir. Það kemur aldrei peningur inn í stofnanir til baka, hefur ekki gert í langan tíma. Það er verið að skuldbreyta frá einum tíma til annars, þannig að höfuðstóllinn stækkar og stækkar. Þetta getur ekki endað með öðru en því að sparifé landsmanna er komið í skuldabyrði sjávarútvegsins. Og það segir sig sjálft að einhvern tíma tæmast sjóðirnir. Og þegar komið er á það stig verður að fara að bjóða upp, fyrst hjá einum og einum aðila, og eftir sitja þeir framkvæmdaaðilar, sem hafa staðið að undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar og öll okkar velmegun byggist á, atvinnulausir og auralausir.

En ég var að tala um þann möguleika að gera einhverjar aðrar og djarfari ráðstafanir til að bjarga sjávarútveginum en að láta hvert fyrirtæki fara yfir um smátt og smátt, eitt og eitt í einu, sem leysir engan vanda á annan hátt en þann sem ég hef verið að halda fram. Þessir sjóðir, hvort sem þeir heita fiskveiðasjóðir, bankarnir eða ríkisábyrgðarsjóðir, taka á sig tap. Þetta var nú talað um sem mögulega lausn á vandamáli sjávarútvegsins á einu bretti í staðinn fyrir að steypa sjávarútveginum í þann vanda sem hann verður í þegar að því kemur að ríkisstj. eða þjóðin getur ekki lengur staðið undir þeim fjárfestingum sem þegar hafa átt sér stað þar.

Ég vil biðja hv. 5. landsk. þm. að snúa ekki út úr orðum mínum. Ég var að reyna að fá menn til að horfa til sjávar og hafa þá fiskiðjuverin í landi fyrir framan sig í þeirri ímynduðu ferð og snúa sér svo við og horfa til lands og sjá hvað í upplandinu býr, hvað afkoma þjóðarinnar og þjóðfélagið hafa breyst frá þeim tíma sem ég gat um og til dagsins í dag. Öll þessi velmegun byggist á undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar, sem situr eftir með stærsta og mesta vandann. Hvenær sem þetta sjávarútvegsdæmi verður gert upp verður það ekki gert upp með því að greiða peninga til baka í fjárfestingarsjóði þá sem hafa látið peninga í té, heldur verður þetta gert upp með uppboðum og miklu fjárhagslegu tjóni fyrir þá sjóði sem hafa þá hleypt of mörgum inn í þennan atvinnuveg. Og kannske að þar sé um offjárfestingu að ræða. Þetta sem ég minntist á er ein af tveimur leiðum og ég tel ekki nokkra ástæðu til að reyna að gera þá leið tortryggilega með því að fara að taka aðra inn í þessa mynd, sem hafa kannske byggt í kringum sig á þeim undirstöðuauðæfum sem sjávarútvegurinn hefur flutt frá sjávarsíðunni inn í landið. Það hefði kannske átt að hafa hemil á því fyrr, þannig að allur sá auður hefði ekki farið í uppbygginguna inni í landinu, heldur hefði hún orðið hægari inni í landinu meðan var verið að greiða niður uppbygginguna við sjávarsíðuna.

Ég tel að þessi málflutningur sé vel boðlegur, en hvort einstakir þm. eru reiðubúnir að hugsa á þeirri línu, sem er öðruvísi en hingað til hefur verið gert, og lyfta sér upp úr meðalmennskunni þegar um fjármál er að ræða, það veit ég ekki. En það er alveg augljóst að sjávarútvegurinn hleður á sig skuldum í dag, sem enda með því að hvíla það þungt á þjóðarbúinu að til stórtækra aðgerða verður að grípa.