15.12.1983
Neðri deild: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1883 í B-deild Alþingistíðinda. (1604)

Umræður utan dagskrár

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég held ég þurfi ekki að taka fram að ég vil að lög séu haldin á þessu sviði eins og öðrum hér í landi. En vegna þess sem til mín er beint tel ég rétt að geta þess sem m.a. landbrn. hefur gert á þessu sviði.

Fyrir hálfu öðru ári var Rannsóknarlögreglu ríkisins skrifað eftirfarandi bréf, það er dags. 29. apríl 1982: „Orðrómur heyrist um að til landsins berist ýmsar landbúnaðarafurðir, einkum kjöt og kjötvörur, sem ólögmætt er að flytja til landsins m.a. vegna varna gegn gin- og klaufaveiki. Sögð eru dæmi þess að slíkur varningur fáist í verslunum og á veitingastöðum. Rn. fer þess hér með á leit við yður, herra rannsóknarlögreglustjóri, að mál þetta verði rannsakað af embætti yðar og leitast við að upplýsa það sem best þannig að unnt verði, ef orðrómurinn hefur við rök að styðjast, að gera fyrirbyggjandi aðgerðir og láta þá sem sekir reynast sæta ábyrgð.“

Þarna er málinu vísað til þess aðila sem falið er lögum skv. að rannsaka svona mál og þess óskað að það verði gert eins og frekast er kostur. Rn. hefur síðan nokkrum sinnum ítrekað þetta, en út úr málinu hefur ekkert komið enn þá á þessum vettvangi.

Á s.l. sumri, þegar ég kom til starfa í rn. sem ég fer nú með, óskaði ég eftir viðræðum við bæði tollgæslustjóra og tollstjóra, sem þessi mál heyra undir í sambandi við gæslu á innflutningi til landsins, og lýsti áhuga mínum á því að það yrði gert allt sem unnt væri til að koma í veg fyrir að svona lagað gerðist, sem hefur sannast í nokkrum tilfellum eins og hér kom fram hjá fyrirspyrjanda. Ég lýsti því að ég væri reiðubúinn að gera það sem í mínu valdi stæði til samstarfs og til að auðvelda þeim þetta starf fyrir hönd dómsmrn. Síðan hef ég átt viðræður við þá nokkrum sinnum.

Mér er kunnugt um að tollgæslustjóri hefur mjög haft þetta mál til meðferðar. Til þess að sýna hvernig þar er að málum staðið vil ég lesa hér skýrslu sem ég fékk frá 25. nóv. s.l., með leyfi forseta:

„Í dag fóru sex starfsmenn rannsóknar- og leitardeildar Tollgæslunnar í Reykjavík á eftirtalda staði til að athuga hvort erlendar kjötvörur væri þar að finna: Hótel Loftleiðir, Hótel Esja, Askur við Suðurlandsbraut, Askur við Laugaveg, Naust, Rán, Árberg, Trillan, Júmbósamlokur, Brauðbær, Rosenbergkjallarinn, Kokkhúsið, Hlíðagrill, Sælkerinn, Víðir Austurstræti og Kjötbúð Suðurvers“ — staðir sem vafalaust hafa verið valdir af handahófi.

„Staðið var þannig að athugun þessari að farið var í tveimur þriggja manna hópum og farið samtímis á þá staði sem hugsanleg tengsl væru á milli. T.d. var farið samtímis á Hótel Loftleiðir og Hótel Esju, Naustið og veitingahúsið Rán, Ask við Laugaveg og Ask við suðurlandsbraut. Farið var í allar frysti- og kæligeymslur ofangreindra staða svo og í allar aðrar geymslur sem til staðar voru. Áður en lagt var af stað í leiðangur þennan var haft samband við Andrés Jóhannesson kjötmatsformann og hann spurður hvort hann vildi ekki koma með okkur til trausts og halds. Kvaðst hann ekki geta komið með, en bað okkur að hringja í sig ef upp kæmi mál sem þyrfti nánari athugunar við og sagðist mundu koma strax á staðinn ef til þess kæmi. Ekkert af smygluðu kjötmeti fannst við skoðun þessa.

Þetta tilkynnist yður hér með, herra tollgæslustjóri.

Sævin Bjarnason,

deildarstjóri.“

Þetta sýnir hvernig að þessum málum er staðið af hendi tollgæslunnar, sem ég er sannfærður um að öll er af vilja gerð að reyna að gæta þess starfs sem henni er falið á þessu sviði eins og öðrum.

Í sambandi við þær fréttir sem nú hafa verið í blöðum, þá hefur það komið fram að mér er ekki kunnugt um á hvaða rökum þær eru reistar. Ég var spurður um þetta í gær af blaðamanni Þjóðviljans og óskaði þá vitanlega eftir því að hann segði frá því sem hann teldi sig vera fullvissan um, enda held ég að það sé skylda hvers og eins að skýra frá ef hann veit um lögbrot. Ég veit ekki frekar um það, en vil aðeins ítreka að eins og hér kemur fram hafa bæði landb.- og dómsmrn. vitanlega fullan vilja á að reyna að koma í veg fyrir að brotin verði lög á þessu sviði eins og öðrum.