15.12.1983
Neðri deild: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1884 í B-deild Alþingistíðinda. (1605)

Umræður utan dagskrár

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. að því leyti sem hann svaraði eða lýsti sínum viðhorfum til þessara mála áðan, en ég verð að segja að í ljósi þessara alvarlegu frétta, sem fram hafa komið í fjölmiðlum í gær og í dag, finnast mér svörin heldur léttvæg og ekki mikill kraftur í þessum ráðh., sem fer með þau tvö rn. sem þetta mál snertir nú fyrst og fremst.

Ég vil fyrst benda á það, að hvað sem líður viðtali hæstv. ráðh. við blaðamann Þjóðviljans hefur það komið fram opinberlega að bæði Framleiðsluráð landbúnaðarins og Stéttarsamband bænda hafa af þessum málum miklar áhyggjur. Væntanlega væri þetta mál ekki tekið upp á þeim vettvangi til umr. ef menn hefðu ekki einhverja ástæðu til að ætla að hér væri á ferðinni alvarlegt mál, en við vitum að bæði Stéttarsamband bænda og einnig Framleiðsluráð landbúnaðarins hafa fjallað um þetta og sent frá sér samþykktir að þessu lútandi.

Skv. heimildum í Dagblaðinu í dag hefur lögfræðingur bændasamtakanna, eins og það heitir víst, sent frá sér kæru til Rannsóknarlögreglu ríkisins og þar segir að grunur leiki á um stórfellt kjötsmygl og um langvarandi misferli. Þetta finnast mér vera stór orð. M.a. í ljósi þessa fór ég fram á það við hæstv. ráðh. að hann hlutaðist til um opinbera rannsókn í þessu máli og það án tafar.

Þegar útbreiddur fjölmiðill setur á forsíðu sína orð eins og „stórfellt smygl“ og „grunur um langvarandi misferli“ og lögmaður heilla fagsamtaka, eins og hér gerist, sendir frá sér það sem kallað er kæra á forsíðu Dagblaðsins er málið orðið alvarlegt. Og er þá sama hvort þar er á ferðinni eiginleg kæra eða beiðni um rannsókn. Á því er að mínum dómi stigsmunur en ekki eðlis. Þegar svo er komið lít ég svo til að málið sé það alvarlegs eðlis að það sé skylt og nauðsynlegt að hefja opinbera rannsókn til þess, eins og ég sagði áðan, að ekki megi bara fá úr því skorið hvort hér er um misferli að ræða, heldur og að þeir menn sem liggja undir grun og hafa verið nafngreindir fái þá hreinsað sig af því, ef svo vel er, sem við skulum vona, að hér sé ekki á ferðinni misferli. Ef það hins vegar er, þá er nauðsynlegt að það komi fram. Í þriðja lagi er auðvitað nauðsynlegt að það sé farið ofan í þessi mál þannig að unnt sé að fyrirbyggja í framtíðinni að slíkt geti hent sig.

Ég vék að því áðan að hér væri hugsanlega um að ræða brot á lögum um sóttvarnir. Það er að mínum dómi einn alvarlegasti þáttur þessa máls, þ.e. möguleikinn á því að sjúkdómar berist til landsins með þessu móti með varningi sem ekki fær þá meðferð sem tilskilið er ef hann kæmi inn í landið á löglegan hátt.

Þær tölur sem ég nefndi áðan um kjötvörur sem þegar eru gerðar upptækar á þessu ári sýna mönnum að svona lagað á sér stað. Það vita held ég flestir sem til þekkja, t.d. við sjávarsíðuna þar sem skip sem eru í förum milli landa eða fiskiskip sem sigla með afla sinn koma að landi, það er almannarómur, að með þeim slæðist meira en ein og ein bjórdós og ein og ein flík úr útlöndunum. Og þó að það sé í litlum mæli og hér sé ekki um að ræða nema einhver hundruð kg er það út af fyrir sig alveg nóg því þar er auðvitað um unna kjötvöru að ræða. Skv. þeirri líffræði sem ég lærði svarar hún til tvisvar til þrisvar sinnum meira magns af óunnu kjöti, þannig að hér er á ferðinni býsna mikið magn. Þess vegna finnst mér í sannleika sagt, herra forseti, ekki alveg nógu mikil reisn yfir því ef hæstv. landbrh. og hæstv. dómsmrh., einn og sami maðurinn, sjá ekki ástæðu til að fara um þetta alvarlegum orðum og hafa beinlínis forgöngu um að þetta mál verði skoðað nú þegar. Það var í raun og veru tilgangur minn með því að taka þetta mál upp hér utan dagskrár að gefa hæstv. landbrh. og hæstv. dómsmrh. tækifæri til að lýsa því hér yfir á Alþingi Íslendinga að hann mundi þegar beita sér af öllum mætti í þessu máli. Ég vona að hann geti enn gert það hér á eftir, en ef svo verður ekki mun ég harma það eins og fleiri gera hér á þessu háa Alþingi.

Herra forseti. Ég þakka þér svo fyrir þá velvild að hleypa mér að með þetta mál.