15.12.1983
Neðri deild: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1887 í B-deild Alþingistíðinda. (1608)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það hefur verið staðfest hér aftur að Hótel Saga var ekki einn af þeim stöðum sem kannað var hvort innflutt kjöt væri geymt hjá. Vekur það satt að segja allmikla undrun. Rétt er að beina þeim spurningum til tollgæslustjóra hvers vegna einu af þremur stærstu hótelunum og því sem grunsemdirnar og sögusagnirnar einkum hafa beinst að er sleppt þegar embættið gerir sitt eina úthlaup. Það eru satt að segja mjög sérkennileg vinnubrögð af hálfu embættisins. (Landbrh.: Eina úthlaup?) Það hefur ekki annað komið fram hjá hæstv. ráðh. Þetta var eina úthlaupið sem hann gat um og greindi hér frá hverjar niðurstöður hefðu af orðið. Þá hefði ekkert fundist. Ef hæstv. ráðh. er með upplýsingar um önnur úthlaup, sem gerð hafa verið, væri æskilegt að hann kæmi með þær hér og nú, fyrst hann hnýtur um orðatag mitt. Ég nota það orðalag vegna þess að þegar ráðh. er beðinn um greinargerð um hvað gert hafi verið í málinu á undanförnu einu og hálfu ári nefnir hann þetta úthlaup eitt, rekur mjög nákvæmlega á hvaða staði hafi verið farið og tilkynnir þau ánægjulegu tíðindi að ekkert hafi fundist. Ef um önnur úthlaup hefur verið að ræða, hæstv. ráðh., er æskilegt að það verði upplýst.

Hver var niðurstaðan af þeim úthlaupum? Á hvaða staði var farið? Væntanlega greinir ráðh. frá því hér á eftir, fyrst hann hefur upplýsingar um það.

Í öðru lagi finnst ráðh. ekki maklegt að menn tali um lin vinnubrögð í þessum efnum. Því er ekki að leyna að tónn og áherslur í svörum og aðgerðum ráðh. gefa tilefni til slíkra ályktana. Einkum og sér í lagi þegar horft er til þess hve alvarlegir hlutir hér eru á ferðinni — svo alvarlegir hlutir að eitt sýkt kjötstykki erlendis frá gæti orðið meira áfall fyrir íslenskan landbúnað vegna þeirra sjúkdóma sem fylgdu í kjölfarið en landbúnaðurinn hefði orðið fyrir af náttúruvöldum í áraraðir. Skemmst er að minnast að í Bretlandi olli smyglað kjöt frá öðrum heimsálfum því að breskur landbúnaður hlaut eitt hið mesta áfall sem hann hefur orðið fyrir.

Hæstv. ráðh. upplýsti að fyrirrennari sinn, hv. þm. Pálmi Jónsson, hefði í apríl 1982 skrifað Rannsóknarlögreglu ríkisins og óskað eftir rannsókn á málinu. Og nú vil ég spyrja hæstv. ráðh.: Hefur hann spurst fyrir bréflega um það hver niðurstaðan hafi orðið af þessari rannsókn, hvernig henni miði, hvaða mannafli hafi verið við hana og hvaða ályktanir megi af henni draga? Eða hefur hæstv. ráðh. kallað fyrir sig rannsóknarlögreglustjóra ríkisins síðan ráðh. kom í embætti og spurt að því hver sé niðurstaða þeirrar rannsóknar sem óskað var eftir í apríl 1982? Það kom ekki fram í svari hæstv. ráðh. að hann hefði gert neitt slíkt. Það er alveg óhjákvæmilegt, til þess að við séum ekki að ósekju að telja að ráðh. hefði mátt sýna þessu máli meiri athygli, að hann upplýsi hér hvort hann hefur skrifað ítrekunarbréf eða fyrirspurnarbréf til Rannsóknarlögreglu ríkisins og óskað eftir skýrslu um hvernig sú rannsókn gangi sem fyrirrennari hans óskaði að færi fram. Það er alveg nýtt í málinu að hv. þm. Pálmi Jónsson, þegar hann var landbrh., hafi óskað eftir því að Rannsóknarlögregla ríkisins framkvæmdi slíka rannsókn. Það er alveg óhjákvæmilegt að upplýst verði hvernig rannsóknarlögreglan hafi að henni staðið og hvernig landbrn. fylgdist með og fylgdi eftir því að sú rannsókn væri framkvæmd.

Hæstv. ráðh. sagði það hér að lögfræðingur Framleiðsluráðs landbúnaðarins hefði sent frá sér kæru. Ég tel það vera rétt. Hins vegar er mér kunnugt um að vararannsóknarlögreglustjóri ríkisins telur þetta ekki vera kæru og hefur svarað því til að málið sé í almennri athugun og telji hann ekki að send hafi verið slík formleg kæra til embættisins. Þess vegna beri embættinu ekki að framkvæma neina rannsókn í málinu. Það væri út af fyrir sig æskilegt ef hæstv, landbrh., sem einnig er dómsmrh., vildi beita sér fyrir því að það kæmist á hreint hvort Rannsóknarlögregla ríkisins telur að erindi frá Framleiðsluráði landbúnaðarins sé kæra eða ekki kæra svo að það þurfi ekki að vera neinn misskilningur á ferðinni þar. Það er satt að segja dálítið undarlegt hvað ýmsir aðilar, sem að þessu máli hafa komið, eru feimnir við að ganga í málið af fullum krafti, að fá fullgilda lögreglurannsókn í málinu gagnvart öllum þeim aðilum sem hér eiga hlut að máli, heldur er skrifað bréf í apríl 1982 og svo virðist sem því bréfi sé ekki fylgt eftir. Síðan sendir Framleiðsluráð landbúnaðarins bréf sem höfundur telur að hafi verið kæra. Forsvarsmenn Rannsóknarlögreglu ríkisins, vararannsóknarlögreglustjóri, segja að það sé ekki kæra, heldur beiðni um almenna athugun. síðan hefur hæstv. ráðh. óskað eftir að tollgæslustjóri kannaði málið. Eftir því sem ráðh. hefur upplýst hingað til hefur tollgæslustjóraembættið aðeins gert eitt úthlaup. Og merkilegt nokk þá var því úthlaupi ekki beint þangað sem helst var ástæða til að fara og kanna málið.

Þess vegna vildi ég óska eftir því hæstv. ráðh., af því að hér er mjög alvarlegt mál á ferðinni og alveg ástæðulaust að jafnvammlaus maður og hæstv. ráðh. sé að gefa mönnum tilefni til þess að hugleiða hvernig eiginlega standi á hvernig á málunum er tekið, upplýsi frekar hér í umr.: Í fyrsta lagi: Hefur tollgæslustjóraembættið gert önnur úthlaup? Í öðru lagi: Hvernig leið rannsókninni sem fyrirrennari hans óskaði eftir hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins? Hefur landbrn. skrifað einhver fleiri bréf út af því? Hefur landbrn. fengið skýrslur um þá rannsókn? Er hæstv. landbrh. reiðubúinn að beita sér fyrir því að það verði tekin af öll tvímæli um að erindið frá Framleiðsluráði landbúnaðarins fyrir tveim vikum sé skilið af hálfu Rannsóknarlögreglu ríkisins sem formleg kæra?