15.12.1983
Neðri deild: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1889 í B-deild Alþingistíðinda. (1609)

Umræður utan dagskrár

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Örstutt. Það þarf vonandi ekki að ræða það á sjálfu Alþingi að það er enginn sekur fyrr en sannast. Það er nauðsynlegt, m.a. vegna þeirra sem á einn eða annan hátt tengjast þessu máli, að hlutirnir komist á hreint, að málið sé rannsakað og það nú þegar og það sé settur í það sá mannafli og sá kraftur sem til þarf. Það er það sem verið er að fara fram á hér ósköp einfaldlega.

Ég vil svo, herra forseti, hafna þeirri túlkun hæstv. ráðh. á orðum mínum að ég sé að gera honum einhverja samsekt eða ásaka hann um að hylma yfir eitthvað í þessu máli. Það lá ekki í orðum mínum. En ég brýndi hins vegar hæstv. ráðh. og ég brýni hann á því að beita sér í málinu. Það er annað að gera það. Þetta er, herra forseti, ekki ásökun heldur eggjan.