24.10.1983
Efri deild: 8. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í B-deild Alþingistíðinda. (161)

8. mál, ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

Skúli Alexandersson:

Hæstv. forseti. Það eru þó nokkuð mörg orð og ár liðin síðan setning eins og hæstv. fjmrh. sagði áðan hefur verið sögð hér á þinginu, þ.e. að leysa megi íslensk fjárhagsmál með enn einu pennastriki, en þessi setning var nokkuð mikið á vörum manna og sögð af einum foringja Sjálfstfl. hér fyrir 35 eða 40 árum eða svo. (Gripið fram í: Um verðbólguna.) Ja, það var beint í sambandi við efnahagsmál, að það væri hægt að leysa vandann með einu pennastriki, eins og hæstv. fjmrh. segir nú.

Mér finnst um það sem fjmrh. hefur sagt hér nú, að hann rísi ansi langt upp úr meðalmennskunni. Og hann nefnir þarna atriði sem eru staðreynd í íslensku þjóðarbúi, þ.e. að fiskvinnsla og útgerð séu látin bera og hafi borið á undanförnum árum og áratugum allt of stóra yfirbyggingu og þessi yfirbygging sé komin með þá fjárhagsstöðu hjá útgerðinni eins og raun ber vitni. Nú heyrir maður að í bankakerfinu íslenska þurfi þrjú störf fyrir hvert eitt hliðstætt starf sem unnið er á Norðurlöndunum. Hvað er sóunin mikil ef það þarf þrefaldan mannskap til að sinna bankaþjónustu á Íslandi miðað við nágrannaþjóðir, hvað er sóunin mikil í sambandi við laun, hvað er sóunin mikil í sambandi við byggingar sem við sjáum nú allir og tæki og búnað fyrir allt þetta fólk? Ef við aftur á móti lítum til sjávarútvegsins, þá er því öfugt farið. Íslenskir sjómenn skila þreföldum afköstum á við kollega sína umhverfis okkur. Hver er munurinn? Og er nokkurt vit í því þjóðfélagi sem lætur sjávarútveg og útgerð tapa á meðan það lætur banka stórgræða, að reksturinn skuli vera á þann veg. Ég geri ráð fyrir því að svipaður samanburður sé í versluninni íslensku, þar séu þrír Íslendingar á móti hverjum einum á hinum Norðurlöndunum, og örugglega er það í olíubransanum.

Þessir tveir stóraðilar, bankarnir og olíufélögin, eru aðalviðskiptamenn íslenskrar útgerðar. Báðir eru ríkistryggðir í bak og fyrir, þar getur aldrei orðið tap og það má raða fjárfestingu ofan á fjárfestingu og fjölga fólki sí og æ í þessum stofnunum. Á meðan er útgerðin á Íslandi látin tapa. Það er þetta sem er að ske á Íslandi í dag og hefur verið að ske á Íslandi á undanförnum árum. Yfirbygging hefur verið búin til af kerfisflokkunum okkar, af Framsfl. og Sjálfstfl., til þess að halda uppi valdakerfinu á Íslandi og íslensk útgerð hefur verið mergsogin út á það. Framsfl. mundi sjálfsagt ekki lengi lifa ef þetta kerfi væri dautt. (EG: Er ekki Alþb. búið að vera í stjórn í fimm ár?) (Gripið fram í: Hverjir fóru með bankamál s.l. fimm ár?) Ætli það hafi ekki verið hv. þm. Tómas Árnason. Hann mun hafa verið stuttan tíma viðskrh. En við höfum verið í ríkisstjórnum Alþb., ég ætla ekki að skorast undan því, og við höfum gert þar stóra hluti. (Gripið fram í: Hvað?) Okkar flokkur beitti sér fyrir því að byggja upp íslenskan sjávarútveg með Sjálfstfl. í nýsköpunarstjórninni, Framsókn og Alþfl. í vinstri stjórninni 1956 til 1958 og síðan í ríkisstjórn með Framsókn og Samtökum vinstri manna 1971 til 1973. Þá voru gerðir stórir hlutir. Og einn ágætur sjálfstæðismaður, mikill iðnaðarmaður, Þorgeir Jósefsson frá Akranesi, lét hafa það eftir sér og hefur margoft sagt það, að í hvert skipti sem gert hefur verið stórt átak í uppbyggingu íslenskrar togaraútgerðar, einmitt þegar Alþb. hefur staðið að stjórn, hefur orðið góðæri á Íslandi, ekki aðeins til sjávar heldur líka um land allt.

Sú stefna sem hæstv. fjmrh. var að benda á áðan er alveg rétt. Það þarf að snúa hlutunum við. Það þarf að taka fjármagn úr yfirbyggingunni og færa það til grunnatvinnuveganna, hvort sem það heitir sjávarútvegur, iðnaður eða landbúnaður. Allir þessir atvinnuvegir eru meira og minna skattlagðir til stofnana sem flokkarnir sem nú stjórna og eru í ríkisstj. lifa á og stjórna landinu eftir. (Fjmrh.: Ég er í Sjálfstfl.)