16.12.1983
Efri deild: 32. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1897 í B-deild Alþingistíðinda. (1622)

147. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Frsm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Virðulegi forseti. Ég taldi óeðlilegt að ég færi að ræða brtt. þá, sem hér hefur verið flutt, efnislega áður en flm. sjálfir hefðu gert fyrir henni grein, en bjóst við að kannske mundi ég segja nokkur orð á eftir og ætla nú að gera það því að fullt tilefni er til.

Hér er því haldið fram að verið sé að lækka þennan skatt frá því sem verið hefur, en það er skýrt tekið fram í aths. við frv. að svo er ekki. Það segir þar, með leyfi forseta:

„Þó er lagt til að skatthlutfallið lækki úr 1.4% í 1.1%, en vegna minnkandi verðbólgu er það gert til að koma í veg fyrir að skattbyrði aukist milli ára. Er þetta hliðstæð lækkun skatthlutfalls og tillaga er gerð um varðandi eignarskatt í því frv. til breyt. á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem nú liggur fyrir Alþingi“ o.s.frv.

Það vita auðvitað allir hv. þm., allir þeir sem hér hafa talað, að ekki er verið að lækka þennan skatt sérstaklega. Ég vona að það reynist svo, að þær breytingar sem verið er að gera á skattstigum nú varðandi einstaklinga og fyrirtæki líka reynist verða veruleg skattalækkun. Við skulum vona það og því hefur verið haldið fram að svo sé. Ef það reynist rétt væri það auðvitað skatthækkun að fara í 1.4%, það er alveg ljóst mál. Um þetta þurfum við ekkert að deila, en mér er svo sem alveg sama þó að menn haldi þessu hér fram úr þessum stól gegn betri vitund. Ef verðbólgan næst svo langt niður sem menn treysta og vona, og hún er svo sannarlega og hefur verið á niðurleið, þá sér það hvert einasta mannsbarn að skattbyrðin mundi þyngjast með sömu skattstigum og áður voru.

En að gefnu tilefni frá hv. þm. Helga Seljan langar mig að fara örfáum orðum um frv. það sem ég hygg að hann hafi vitnað til, sem nú hefur verið lagt á okkar borð og er 160. mál og heitir: Frumvarp til laga um frádrátt frá skattskyldum tekjum manna vegna fjárfestingar í atvinnurekstri. Hann taldi það sérstaklega gert til að auðvelda eignamönnum og hátekjumönnum að auka sinn gróða eða eitthvað á þá leiðina féllu hans orð. En ekki þarf að lesa langt til að sjá að svo er ekki. Í upphafi 2. gr. segir, með leyfi forseta:

„Frádráttur samkv. lögum þessum skal nema aukningu á fjárfestingu í atvinnurekstri eins og nánar er kveðið á um í þessari grein. Frádráttur skal þó aldrei vera hærri en 20 þús. kr. á ári hjá hverjum manni eða 40 þús. kr. hjá hjónum.“

Nú er rétt að þetta er fylgifrv. með öðru frv. um breytingar á tekjuskatts- og eignarskattslögunum. Þess vegna segir þetta frv. ekki alla söguna og kannske ekki hægt að átta sig á því nema í tengslum við hitt frv. og löggjöfina í heild. En þessi eina setning segir það sem hugsunin er. Og hún er sú einmitt að gera fólki með miðlungstekjur og miðlungseignir — vonandi líka þeim, þegar fram í sækir, sem eru með lágar tekjur — unnt að vera þátttakandi í atvinnurekstri. Við þekkjum það mjög vel báðir, hv. þm. Helgi seljan og ég, að t.d. út um hinar dreifðu byggðir í sjávarþorpunum hefur fólkið verið að leggja fé í atvinnurekstur til að styrkja fjárhag sinn og sinna byggðarlaga. Þótt það væri jafnvel lágtekjufólk og eignalítið fólk hefur það gert þetta. Það á að stuðla að því að þetta fólk geti það og geti fengið einhverja greiðslu sem samsvari vöxtum af þessu fjármagni.

Þetta frv., sem hér hefur verið lagt fram, tel ég vera með hinu merkasta sem sést hefur á borðum þm. jafnvel árum saman. Ég efast ekkert um að það verður reynt að rangtúlka það sem hér er hugsunin. En hugsunin er einmitt sú að gera sem flesta Íslendinga þátttakendur í atvinnulífinu og efnalega sjálfstæða, gera þá sjálfbjarga. Það er alls ekki hægt með nokkrum sanni að túlka þetta mál þannig, að það sé verið að hygla hátekjumönnum og eignamönnum. Ég er ekki á móti því að menn græði þegar vel gengur, og atorkumenn eiga það sannarlega skitið, jafnvel einstaklingar, og lítil félög. En það er ekki verið að ívilna hér fjölskyldufélögum eða félögum fárra manna. Það er verið að reyna að koma á fót almenningshlutafélögum, það er verið að reyna að stofna starfsmannasjóði, þar sem verkamennirnir og starfsmenn fyrirtækjanna geta eignast beina aðild að fyrirtækjunum og ríkisvaldið kemur á móti þeim með því að gefa þeim nokkra ívilnun frá sköttum til að hvetja þá til að taka þátt í atvinnurekstrinum. Þetta er það sem kallað hefur verið auðstjórn almennings eða fjárstjórn fjöldans, sem ég held að við Íslendingar ættum nú að hugleiða að er það eina stjórnarform sem getur gengið á okkar fámenna landi. Þá verður það aldrei svo að fáir auðmenn geti stjórnað fjármagninu. Svo er enn bölvaðra ef ríkið gleypir allt fjármagnið og sósíalismi hefur innreið sína. Kominn er hann nógu langt þegar ríkisvaldið fer með svo til alla fjármuni þjóðfélagsins, á alla bankana, alla sjóðina og skattleggur í bak og fyrir, tekur jafnvel 200% skatta af brýnustu nauðsynjum o.s.frv. Komið er það nú nógu langt. Það þarf að koma fénu aftur til fólksins. Þetta frv. miðar að því og er langbesta frv. sem liggur fyrir þessu þingi.