24.10.1983
Efri deild: 8. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í B-deild Alþingistíðinda. (163)

8. mál, ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegi forseti. Ég get nú ekki svarað öllum þeim fsp., sem til mín hefur verið beint, á þeim stutta tíma sem nú er eftir. Ég vil þó aðeins segja það varðandi afkomumál sjávarútvegsins almennt, að það verður aldrei hægt að strika út skuldir í sjávarútvegi öðruvísi en gera sér um leið grein fyrir því hvernig þær skuli greiddar, því þessar skuldir eru því miður að allverulegu leyti erlendar skuldir og einnlg skuldir í bönkum sem eru með innistæðufé á móti. Hitt er svo annað mál, að menn geta tekið þá ákvörðun að velta hluta af skuldum sjávarútvegsins yfir á ríkissjóð og yfir á hinn atmenna skattborgara, en þá verða menn jafnframt að gera sér grein fyrir því hvernig tekna skuli aflað til að greiða þær skuldir eða hvað skuli víkja í stað skuldaskila í sjávarútvegi.

Ég er alveg sammála því að það er mjög mikilvægt að draga úr opinbera kerfinu, reyna að minnka það sem við höfum verið að byggja upp á undanförnum árum, en hef hins vegar ekki heyrt það hér á Alþingi, t.d. frá stjórnarandstöðunni, að menn telji að nauðsynlegt sé vegna slæmrar stöðu út á við að draga úr opinberum útgjöldum. Það væri vissulega sársaukafullt að gera það. En eins og hér hefur komið fram þolir undirstaðan ekki þau opinberu útgjöld sem við höfum verið að byggja upp og því er nauðsynlegt að menn taki tillit til þess.

Menn benda gjarnan á banka í þessu sambandi, og ég skal gjarnan taka undir að það er orðin allt of mikil uppbygging í bankakerfinu, en það er ekki nóg að lýsa alltaf yfir á Atþingi að svo sé. Ég var í bankamálanefnd á síðasta ári og árinu þar á undan. Við skrifuðum bréf þar sem við báðum um að ekki yrði opnað nýtt bankaútibú þar til nefndin hefði skilað af sér. Það stóð ekki á hæstv. fyrrv. iðnrh., jafnvel þótt þetta bréf hefði komið. Hann opnaði eitt nýtt bankaútibú fyrir Iðnaðarbankann. Landbrh. opnaði annað fyrir Búnaðarbankann. sjálfsagt hafa einhverjir fleiri opnað nýtt útibú.

Við heyrum hér á Alþingi menn lýsa því yfir að þetta gangi ekki lengur. Svo koma aðrir menn og framkvæma hlutina annars staðar. Það hefur heldur ekkert upp á sig að standa hér upp og kalla þennan og hinn flokkinn kerfisflokk og reikna með að málin verði leyst á þann einfalda hátt að þetta séu allt saman kerfisflokkarnir sem séu þarna að verki. Mér finnst það vera lítilmannlegt orðtæki að taka sér það orð í munn. Ég ætla ekki að fara að ræða þannig um andstæðinga mína í stjórnmálum. Við höfum mismunandi skoðanir og mismunandi afstöðu til þjóðmálanna, en að vera að koma hér í ræðustól hvað eftir annað og kalla þennan manninn kerfiskarl og hinn flokkinn kerfisflokk er lágkúra, finnst mér, og menn ættu að temja sér að ræða um stjórnmál með öðrum hætti.

Virðulegi forseti. Ég hef nú lokið þeim tíma sem ég fékk til umráða hér og mun ekki hafa þessi orð fleiri, en mun svara þeim fsp., sem til mín hafa borist, við framhald þessarar umr.