16.12.1983
Efri deild: 33. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1907 í B-deild Alþingistíðinda. (1634)

149. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Virðulegi forseti. Félmn. hefur haft til umfjöllunar það frv. sem mælt var fyrir á dögunum, frv. til l. um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Ég ætla mér ekki að hafa langt mál um þetta frv., ekki síst vegna þess að þm. fengu óvenjulangan tíma til þess að búa sig undir 1. umr., eins og ég veit að hv. þdm. muna vel.

En eins og menn rekur jafnframt minni til þá fjallar þetta frv. raunar eingöngu um breytingu á gömlum krónum í nýjar. Að vísu er hér um að ræða u. þ. b. 54% hækkun á þeim frádráttarliðum sem getið er um í frv. frá álagningu þessa árs. Þó skal þess getið, eins og raunar kemur fram í aths. með frv., að þær tölur sem gert er ráð fyrir að gildi skv. frv. eru eilítið hækkaðar frá því sem nákvæm prósentuhækkun gaf til kynna, nákvæm 54% hækkun. Það er raunar gert aðeins til þess að tölur séu meðfærilegri. Ég vil í þessu sambandi geta þess svona til fróðleiks að þessir frádráttarliðir samanlagðir eru að hámarki 340 millj. kr. skv. lauslegri áætlun.

Félmn. fjallaði um frv. og fékk á sinn fund ríkisskattstjóra, Sigurbjörn Þorbjörnsson og jafnframt fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga, Magnús E. Guðjónsson. Veittu þeir n. fúslega upplýsingar. Það rita allir nm. undir nál. Nefndin leggur sem sagt einróma til að frv. verði samþykkt óbreytt.