16.12.1983
Neðri deild: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1922 í B-deild Alþingistíðinda. (1649)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Ólafur Ragnar Grímsson:

. Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. hefur nú eignast nýjan aðstoðarmann og er sjálfsagt að fagna því. Sá aðstoðarmaður sem fyrir er í rn. er formaður Sambands ungra framsóknarmanna. Það er greinilegt að Möðruvallahreyfingunni hefur bæst nýr liðsmaður hér á Alþingi.

Það er rétt hjá hv. þm. Garðari Sigurðssyni að ég hef engan rétt til þess að tala í nafni allra hv. alþm. enda gerði ég það ekki hér áðan ef þm. hlustaði grannt. (Gripið fram í.) Ég rakti það hins vegar að hér hefðu verið bornar fram spurningar. Það var að vísu alveg rétt að hv. þm. Garðar Sigurðsson reyndi að hjálpa ráðh. til að svara hér, en sú hjálp dugði ekki. (GSig: Af hverju ekki?) Það var einfaldlega vegna þess að hv. þm. veitti ráðh. ekki nægilegt lið. Þeir sem eru hér að reyna að knýja þetta frv. fram á þann hátt að þm. fái ekki að ræða málið eru í ákveðnu bandalagi um það, hvar í flokki sem þeir standa, að koma í veg fyrir það að þingheimur fái að ræða þetta mál. Það er alveg greinilegt að það er látið nægja, þótt sjútvn.-menn hafi rætt þetta mál hér klukkutímum saman og hafi mætt hér dag eftir dag á fundum klukkan átta á morgnana og fram eftir öllum degi til að ræða þetta mál, að sá tími sem við hinir höfum fengið til að ræða þetta mál er innan við 10% af þeim tíma sem sjútvn.-menn hafa fengið til að ræða málið. Það er lágmarkskrafa, þegar málið er lagt fyrir á þeim grundvelli að það sé ekki flokksmál, það sé varla einu sinni ríkisstjórnarmál heldur sé það hafið yfir alla flokka, að allir þm. fái jafnan rétt til að fjalla um þetta mál. Hv. þm. Garðar Sigurðsson, í hvað nánu bandalagi sem hann er við hæstv. sjútvrh. í þessu máli, bindur hvorki mínar hendur né neinna annarra í þeim efnum, hvað langt sem hann vill ganga í aðstoð sinni við sjútvrh. að reyna að koma í veg fyrir það að þingið fái að fjalla eðlilega um þetta mál. Hann má út af fyrir sig halda áfram að ausa svívirðingum yfir mig hér í ræðustólnum. Honum er það guðvelkomið. En ég get sagt honum það, að það hjálpar ekki honum og hans félaga, sjútvrh., að koma þessu máli hér í gegn.

Ég gæti rakið hér fjölmargar spurningar sem ekki hefur verið svarað af hæstv. ráðh. Ég vil t.d. taka spurningu númer eitt sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson bar hér fram. Henni hefur ekki verið svarað. (Forseti: Ég óska eftir því að þetta sé fyrst og fremst stutt athugasemd.) Já, ég skal gera það, herra forseti, en ég veit hins vegar að aðrir þm. hafa gaman af þessum umr. svo að það getur vel verið að það geti verið nauðsynlegt að halda þeim eitthvað áfram, enda heyri ég að skrifari hæstv. forseta er greinilega að reyna að hafa áhrif á forsetann í þeim efnum. Hægt væri að fara hér í gegnum fjölmargar spurningar, en ég sagði áðan að ég ætlaði ekki að gera það hér. Ráðh. og öðrum er jafnljóst og mér að hann tók nokkrar af þessum spurningum og veitti við þeim mjög almenn svör. Á öðrum spurningum snerti hann ekki. En til þess að menn geti áttað sig á því með hvaða hætti umræðunni eigi að halda áfram þá ítreka ég ósk mína um það að við hér ýmsir, eins og ég sagði áðan alls ekki þm. allir, heldur við hér ýmsir, sem teljum okkur nauðsynlegt að bera saman bækur okkar um þessi efni og hvaða afstöðu við eigum að taka, fáum til þess tækifæri. Við biðum eftir því að heyra ýmis þau svör sem ráðh. kynni að gefa en hann gaf ekki. Það er óhjákvæmilegt að við fáum til þess tíma. Ef bandalag forseta hér í Nd., ráðh. og einstakra aðstoðarmanna ráðh. hér verður til þess að þeirri beiðni verður neitað, þá hefur það bara sínar afleiðingar. Ég er ekkert viss um að það sé endilega gott fyrir framgang málsins eða eðlileg vinnubrögð hér í þinginu.