24.10.1983
Neðri deild: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í B-deild Alþingistíðinda. (165)

11. mál, launamál

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég held að varla geti nokkur ágreiningur um það verið að innihald þess máls sem hér er nú til umr., sem eru brbl. frá því í maí, sé einhver harkalegasta árás á launafólk í landinu og samtök þess. Þá á ég fyrst og fremst við það ákvæði brbl. sem felur í sér að afnema samningsrétt launafólks og kippa þannig undan einu grundvallaratriði í lýðræðisþjóðfélagi, mannréttindamáli. Ég held að hvar sem menn eru í pólitískum flokki, hvaða skoðun sem menn hafa á stjórnmálum hljóti menn að geta verið sammála um það að í lýðfrjálsu landi sé aðgerð af þessum toga skoðuð sem algjör aðför að almenningi í landinu og þá fyrst og fremst samtökum launafólks, verkalýðshreyfingunni.

Menn segja hér að aðeins sé um að ræða ákvæði sem gildi stuttan tíma, þ.e. 8 mánuði. Og rétt er það að í þessu tilfelli er um að ræða 8 mánaða aðgerð. En sú aðgerð veitir eftirkomandi ríkisstjórnum, hvaða flokkar sem þar koma til með að eiga hlut að máli, slíkt fordæmi að vandséð er hvaða afleiðingar það kann að hafa í framtíðinni gagnvart launafólki í landinu.

Aðrir þættir þessa máls, þ.e. kjaraskerðingin sjálf, eru ekkert nýnæmi í augum almennings hér á landi. Það er ekkert nýtt að stjórnvöld grípi inn í með lagaboði og ógildi löglega gerða kjarasamninga launafólks og vinnuveitenda. Það hafa líklega flestar ef ekki allar ríkisstjórnir, hvaða flokkar sem að þeim hafa staðið, gert á undangengnum árum og áratugum. Rétt er að minna á í því sambandi að fyrrv. ríkisstj., sem svokallaðir vinir alþýðunnar voru viðriðnir að vissu leyti og höfðu þar forustu á mörgum sviðum, hún gerði slíkt 14 sinnum. 14 sinnum var gripið inn í gerða kjarasamninga og þeim breytt, að vísu með mismunandi miklum kjaraskerðingum. Hér er því ekkert nýtt á seyði.

Ég held að nauðsynlegt sé, í ljósi þeirra harkalegu aðgerða sem hér um ræðir, að hverfa aðeins til baka, til kosninganna í apríl og hugleiða hvernig ástandið var þá og hvaða afstöðu stjórnmálaflokkarnir í landinu og frambjóðendur þeirra höfðu þá til mála. Ég held að á því leiki enginn vafi að allir stjórnmálaflokkar voru sammála um að gripa þyrfti til róttækra aðgerða í efnahagsmálum að kosningum loknum. Menn voru orðnir sammála um það að óráðsía og óstjórn efnahagsmála undanfarin ár hafi verið slík að ekki yrði undan því vikist að grípa til aðgerða, og þá nokkuð harkalegra aðgerða, þó að enginn hafi líklega látið sig dreyma um að gripið yrði til aðgerð af þessu tagi, að banna launafólki í landinu að semja um kaup sitt og kjör.

Það er líka rétt að minna á í þessu sambandi að einum af fráfarandi stjórnarflokkum þótti ástandið vera með þeim hætti að ástæða væri til að semja fjögurra ára neyðaráætlun til að komast út úr vandanum. Ég hygg því að allir, hvar í flokki sem þeir voru, hafi verið sammála um að grípa þyrfti til nokkuð harkalegra aðgerða ef menn á annað borð vildu gera tilraun til að komast út úr vandanum.

Hæstv. forsrh. hefur flutt þann boðskap um landið að fyrrv. ríkisstj. hafi haldið atvinnuvegum landsmanna gangandi á erlendum lánum allan tímann sem hún var við völd. Svo er komið að skuldir erlendis eru um eða yfir 60% af þjóðarframleiðslu. Auðvitað sjá allir heitvita menn að við slíkt má ekki búa. En í þessu sambandi er ástæða til að rifja það upp hvort ekki hafi verið varað við slíkri þróun í stjórn efnahagsmála á undanförnum árum. Ég minni á að Alþfl. hefur varað margítrekað við að halda áfram á þeirri braut sem fyrrv. ríkisstj. hélt. Mér sýnast samt litlar sem engar breytingar sjáanlegar enn sem komið er í stjórnarfari núv. hæstv. ríkisstj. að því er þetta varðar. Svo trúr var Alþfl. þeirri stefnu sinni að benda á til hvers það leiddi ef haldið yrði áfram á sömu braut að hann taldi sig nauðbeygðan til að fara úr ríkisstj. 1979 til að leggja áherslu á það að stjórnmálamenn ættu ekki að halda svo á málum að þeir sætu í ríkisstj. og ráðherrastólum áfram þrátt fyrir það að þeir kæmu engu fram af því sem þeir teldu nauðsynlegt að gera.

Talið er að það sem af er þessu ári hafi kaupmáttarrýrnun orðið a.m.k. 25–30%, mismunandi mikil eftir því hvaðan dæmi er tekið. Lágmarkslaun munu hafa skerst um ca. 33% á þessum tíma. Í þessu sambandi er rétt að minna á að það liggur fyrir samkvæmt upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun að af þessari kjaraskerðingu voru 11% komin til framkvæmda þegar núv. ríkisstj. tók við völdum. Kjaraskerðing hefur því átt sér stað áður en núv. ríkisstj. tók við stjórnartaumunum hér á landi. En enginn vafi er á því að eins og núv. hæstv. ríkisstj. keyrir í þeim málum mun hún setja landsmet áður en langt um líður, ef hún er ekki þegar búin að því, í að þrýsta niður kjörum launafólks í landinu.

Þegar maður virðir fyrir sér ákvæði þessara brbl. um afnám samningsréttar í landinu fer ekki hjá því að manni verði hugsað til Póllands þar sem svipað hefur gerst. Allir Íslendingar hygg ég hafi verið sammála um að mótmæla því og fordæma. En í því ástandi lifum við Íslendingar nú í okkar lýðfrjálsa landi að líkja má við það ástand sem ríkir í Póllandi að því er varðar framkomu stjórnvalda við samtök launafólks í þessum löndum.

Hæstv. forsrh. — og raunar ráðh. allir upp til hópa undir mismunandi yfirskriftum halda því nú fram að verðbólga hafi minnkað verulega það sem af er þeirra stjórnartíð. Það er líka rétt, undir það skal tekið, verðbólgan hefur minnkað. En hvaða verði er sú verðbólgulækkun keypt og hvers vegna hefur sú lækkun orðið á verðbólgunni? Hún er einvörðungu til orðin vegna þess að skorið hefur verið niður kaup launafólks í landinu. Engar ráðstafanir eru enn sjáanlegar, sem leiða til þess að verðbólgulækkun eigi sér stað, aðrar en sú að kaupið hefur verið keyrt niður. Hér er því um að ræða svo til sömu stefnu í efnahags- og launamálum og boðuð var í leiftursóknaráformum Sjálfstfl. fyrir kosningarnar 1979, sem núv. formaður Framsfl., hæstv. forsrh. lýsti margítrekað yfir í umr. þá að mundi leiða til algjörs hruns, ekki bara alþýðuheimilanna í landinu heldur og þjóðarbúsins alls. Það hefur fallið í skaut þess manns, sem fyrst og fremst varaði við þessu, að vera nú verkstjóri í samskonar ráðstöfunum — og ekki skárri. Hæstv. forsrh., formaður Framsfl. er nú verkstjóri í þeim aðgerðum sem hann taldi að leiddu til hruns alls þjóðarbúsins á haustmánuðum 1979. Slík eru örlög hæstv. forsrh., formanns Framsfl. á þessum tímum.

Ég held að engum dyljist að almenningur í landinu, launafólk hefur verið og er reiðubúið að taka á sig tímabundnar byrðar til að komast út úr þeirri óstjórn efnahagsmálanna sem við höfum verið í ef það sér fram á tvennt: að byrðunum verði réttlátlega skipt og aðrir séu látnir bera byrðar en aðeins launafólkið og að eygja megi einhvern árangur af þeim aðgerðum sem verið er að gera hverju sinni. Þetta hygg ég að öllum sé ljóst, enda hefur það sannast að launafólkið hefur ekki skorast undan því að taka á sig byrðar til að komast út úr þessum vanda. En því þykir hart að það eitt skuli vera látið bera byrðarnar án þess að minnsta tilraun sé gerð til að dreifa þeim á aðra aðila í þjóðfélaginu.

Það er ástæða til að spyrja í þessu sambandi: Hafa aðrir aðilar í okkar þjóðfélagi tekið á sig byrðar eins og launafólk? Ég hygg að þeirri spurningu verði ekki svarað á annan hátt en neitandi. Ef við lítum á þær staðreyndir t.d. að frá 1. febr. til 1. sept. í ár hefur verðtag hækkað að meðaltali um eða yfir 50% þá hygg ég að enginn geti sagt að í þessu tilfelli hafi verslunaraðilinn tekið á sig byrðar á við það sem launafólk hefur gert. Á sama tíma og kaupmáttur er keyrður niður um 25 – 30% hækkar vöruverð í landinu almennt um eða yfir 50%.

Matarreikningur vísitölufjölskyldunnar hefur á þessu tímabili hækkað um 47–50%. Og enginn eftirbátur virðist ríkið vera í þessum efnum. Opinber þjónusta hefur hækkað um 47% á sama tíma. Ríkið ætlar því ekki að draga saman seglin á sama tíma og það skipar svo fyrir að launafólkið herði sultarólina. Það er ekki að sjá á fjárlagafrv., sem hæstv. fjmrh. hefur nú lagt fram, að þar ætli ríkið að draga í land. Það ætlar vinsamlegast að láta launafólki í landinu í té 14 – 16% launahækkun milli áranna 1983 og 1984 en hækkar eigin rekstur — þá á ég við yfirstjórn ráðuneytanna – frá 50% og upp í 114% á sama tíma og heimilin eiga að fá 14 – 16% til að standa undir sínum þörfum.

Ég held að hæstv. ríkisstj. og ráðh. ættu að gera sér ljóst að ýmsir hópar launafólks hafa þegar tekið á sig miklu meiri byrðar en þeir geta borið hver sem viljinn væri til þess að gera það. Það er ljóst að ef fram heldur sem horfir verða hundruð alþýðuheimila í landinu komin á vonarvöl áður en margar vikur líða. Ég sé ekki annað en að hæstv. forsrh. ætli sér, og að honum takist það verði ekki með öðrum hætti í veg fyrir það komið, að koma þjóðarbúinu og þar með heimilum í landinu í rúst á sama hátt og hann var að vara við undir leiftursókninni 1979.

Það er líka rétt að minna á það hér að á sama tíma og þetta gerist hefur lánskjaravísitalan hækkað um 46%. Gera menn sér virkilega ekki grein fyrir hvað slíkt þýðir fyrir það fólk t.d. sem ber þungar byrðar vegna lána sem það hefur tekið til að byggja hús yfir höfuðið á sér. sem það hefur tekið til að byggja hús yfir höfuðið á sér.

Þegar ætlast er til að launafólk herði svo sultarólina að við liggur að það sé þegar komið á vonarvöl er líka ástæða til að spyrja fleiri spurninga í sambandi við ríkið sjálft, hvernig það hagar sínum málum á þessum tímum. Það liggur nú fyrir t.d., og þar mætti ábyggilega koma við sparnaði af hálfu ríkisins, að það voru 26–28 manns í útlöndum upp á hvern einasta dag allt árið 1982. Telja menn að það sé brýnasta nauðsynin núna á þessum þrengingartímum, sem hæstv. ráðherrar eru að útmála, að hafa 25– 28 manns á vegum ríkisins í útlöndum upp á hvern einasta dag ársins? Ætli það mætti ekki spara þarna? Ég held að hæstv. ríkisstj. ætti að fara að líta í eigin barm á þeim tímum sem hún skikkar almenning í landinu, og þá fyrst og fremst kannske láglaunafólk, til að herða sultarólina, það fólk sem er bókstaflega útilokað að geti á nokkurn hátt tekið þessar byrðar á sig.

Nei, hér er eina ferðina enn farið út á nákvæmlega sömu braut og gert hefur verið af undanförnum ríkisstjórnum, að ætla sér að lagfæra efnahagsástandið og minnka verðbólgu eingöngu með því að skerða og skera niður laun launafólks. Þessa leið er margoft búið að reyna og það hefur sýnt sig að það er hægt um tiltölulega stuttan tíma að lækka verðbólgu í landinu með því að keyra niður laun en það er ekki hægt til lengdar. Ætti menn að komast út úr þessum vanda verður að taka á öðrum þáttum í fjármálastjórninni og efnahagsstjórninni heldur en einvörðungu alltaf að höggva í þennan sama knérunn, þ.e. laun fólks í landinu.Á þetta hefur Alþfl. margoft bent en ekki verið á hlustað. Að þessu vill hann áfram vinna og bendir enn á að ef á að ná árangri í þessum efnum verður að snúa sér að því nú þegar að líta til annarra átta í niðurskurði og sparnaði en að keyra niður launin. En ef stefna hæstv. ríkisstj. hefur framgang á næsta ári er ekki annað að sjá, samkv. t.d. fjárlagafrv. hæstv. fjmrh., en það eigi að halda áfram á þeirri braut að skerða launin.

Nú væri ástæða til að spyrja hæstv. ráðh., t.d. hæstv. forsrh. sem ég hygg að sé sæmilega launaður miðað við ýmsa aðra, hvort hann treysti sér til að hafa af þeim lágmarkslaunum sem nú tíðkast í landinu, þ.e. í kringum 11 þús. kr. á mánuði. Treystir hæstv. forsrh. sér, nú eða hæstv. fjmrh., treysta þeir sér til að hafa af slíkum launum? Ég hygg að svo sé ekki. Það er raunar vansæmd að ætla launafólki í landinu að lifa af 11 þús. kr. á mánuði við þær kringumstæður sem við nú búum við. Ég hygg að hvorki hæstv. forsrh. né fjmrh. — og raunar enginn ráðh. mundi treysta sér til að lifa af þessari upphæð. Þó að við þrefölduðum hana mundu þeir ekki treysta sér til að lifa af henni. Það er engin röksemdafærsla, hverjir sem þar eiga hlut að máli, hvaða einstaklingar sem það eru eða flokkar, að ætla öðrum að gera það sem menn ekki treysta sér til sjálfir. Allra síst á það við í þessu tilfelli.

Þó að ég beri enga sérstaka umhyggju fyrir hæstv. ríkisstj. en óski henni eigi að síður alls velfarnaðar þjóðarinnar vegna, hygg ég að það væri affærasælast fyrir hana og þann meiri hluta sem nú ræður hér á Alþingi að leita samstarfs við verkalýðshreyfinguna í landinu og launþega og leita sameiginlega að leiðum til þess að komast út úr þeim vanda sem vissulega er fyrir hendi og skal ekki neitað eða lítið gert úr á nokkurn hátt. Ég held að það sé búið að sannreyna sig að hvaða ríkisstj. sem ætlar sér að koma efnahagslífinu í lag, í viðunandi horf skulum við segja, í stríði við verkalýðshreyfinguna, henni verður ekki mikið ágengt í þeim efnum. Stríð við fjölmennustu samtök í landinu, samtök launafólks, er ekki heppileg leið til að komast út úr þeirri efnahagskreppu sem við erum nú í. Fyrsta skrefið til þess að leita samráðs og samstarfs við verkalýðshreyfinguna á að vera það að afnema strax bannið, sem þessi brbl. innifela, við því að fólk megi semja um gjald fyrir sína vinnu.

Ég vil ekki trúa öðru fyrr en ég sé það en að launþegahreyfingin í landinu vilji leita leiða til að komast með skikkanlegum hætti út úr þeim vanda sem nú er við að etja. En það er til of mikils mælst af hæstv. ríkisstj. og meiri hl. hér á Alþingi að verkalýðshreyfingin gangi til slíks samstarfs bundin á höndum og fótum. Slíku samstarfi eða samráði verður ekki komið á nema því aðeins að böndin séu leyst af verkalýðshreyfingunni og vinnuveitendum svo að þeir geti á eðlilegan og ábyrgan hátt gengið til samstarfs við stjórnvöld um að komast út úr þessum vanda. Gerist það ekki — og innan ekki of langs tíma er hæstv. ríkisstj. að ganga svo hart fram í löggjöf í landinu að egna beinlínis til styrjaldarástands á vinnumarkaðnum ef hún ætlar að halda sig við þá stefnu og það ákvæði þessara laga sem bannar samningsréttinn. Það getur enginn ætlast til þess að verkalýðshreyfingin sitji lengi undir því að vera bannað að starfa á þeim grundvelli sem hún fékk þó samþykktan fyrir áratugum síðan, þ.e. að vera frjáls að því að semja við sína viðsemjendur um kaup og kjör.

En það verður líka að segjast að á sama hátt og það er blettur á löggjafarsamkomunni að ætlast til að launafólk lifi nú af 11 þús. kr. á mánuði ber verkalýðshreyfingin líka ábyrgð á því. Henni hefur því miður ekki tekist að hrinda í framkvæmd margyfirlýstum áformum sínum um að fyrst og fremst skuli rétta hlut þeirra sem verst eru settir. Þar hafa ýmsir þrándar verið í götu og eru enn. En eigi að síður, hreyfingin sem slík á líka sök á að ekki hefur betur til tekist.

Ég skora á hæstv. ríkisstj. að nýta nú þann vilja sem áþreifanlega hefur komið fram af hendi launafólks í landinu í ábyrgri afstöðu til vandamálanna, nýta þann vilja á skynsamlegan hátt en ekki ofbjóða þessu fólki enn frekar með offorsi og átroðslu. Það er full ástæða til að ítreka þetta nú. Enginn getur haldið því fram, a.m.k. ekki með neinum rétti, að launafólk í landinu hafi verið kröfuhart undangengin ár. Það var ekki í tíð fyrrv. hæstv. ríkisstj. og það hefur enn síður verið það í tíð núv. hæstv. ríkisstj. Launafólk hefur umborið það sem að því hefur verið rétt og því skammtað. En það fer að styttast í þann tíma að það segi: Hingað og ekki lengra, ef ekkert annað á að gera en að skerða launin. Ef það eitt á að vera bjargráðið til að bjarga íslensku efnahagslífi þá fara menn villir vegar, þeir sem það halda.

Ég held að stjórnvöld í landinu, hæstv. ríkisstj. ætti að fagna því að aðilar vinnumarkaðarins, og þar á ég bæði við verkalýðshreyfingu og vinnuveitendur, hafa marglýst því yfir að þeir telji það óráð af hálfu stjórnvalda að grípa svo freklega inn í með skerðingu á mannréttindum eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, með því að afnema samningsrétt. Þessir aðilar hafa báðir tveir óskað eftir því að fá málið í sínar hendur. Og því ekki að lofa þeim að glíma við það og gera þá ábyrga? Því ekki að lofa þeim að sýna fram á hversu mikill hugur fylgir máli með það að leita sameiginlegra leiða út úr vandanum? Vill hæstv. ríkisstj. endilega halda áfram að egna launafólk í landinu upp á móti sér, beinlínis segja því stríð á hendur, þrátt fyrir þann vilja sem það hefur sýnt til að rétta fram hönd til þess að leysa málin?

Ég skora á hæstv. ríkisstj. og meiri hl. hér á Alþingi að fara að vilja þeirra tugþúsunda aðila í þessu landi sem óska eftir því að ríkisstj. aflétti samningsbanninu og veiti launafólki og vinnuveitendum þau sjálfsögðu mannréttindi að geta samið sín í milli um þá hluti sem þeim ber að semja um. Það yrði síðan að koma í ljós hvort þessir aðilar eru þess megnugir að leysa þau mál á skikkanlegan hátt. Yrði sú raunin á að þeir væru ekki til þess færir kæmi að sjálfsögðu til kasta stjórnvalda, ef þeim sýndist svo, að skerast í málið. En fyrr er þar um tómt mál að tala að mínu viti, að löggjafinn blandi sér svo freklega inn í þessi mál sem hér hefur verið gert.

Ég vænti þess því að hæstv. forsrh. taki tillit til þessara óska og beiðna sem ekki er hægt að segja að séu á nokkurn hátt með offorsi fram settar. Hæstv. ríkisstj. og meiri hlutinn hér yrðu menn að meiri ef þeir hyrfu af þeirri röngu braut sem þeir hafa verið á og virðast enn vera á, því miður.

Menn segja að vísu sem rétt er: 1. febr. geta þessir aðilar sest niður og samið um málið. Nú sýnist mér það liggja fyrir að strax hinn 1. febr., þ.e. þegar þessi lög falla úr gildi, fái hluti af launafólki í landinu líklega kringum 20% sjálfkrafa hækkun. Ég skal taka fram að ég þori ekki alveg að fullyrða um prósentutöluna en þar er um að ræða ýmsa hópa innan ASÍ, sem mér sýnist að fái sjálfkrafa allverulega hækkun um leið og lögin falla úr gildi þ.e. áfangahækkun sem þeir höfðu samið um áður. Ég heyrði hæstv. forsrh. tala um það hér, síðast þegar þetta mál var til umr., að hann teldi að engin slík hækkun kæmi til framkvæmda. En ég veit að þeir aðilar sem þarna eiga hlut að máli eru allt annarrar skoðunar. Þeir telja sig fá umsamdar áfangahækkanir um leið og lögin falla úr gildi. Þar er um að ræða aðila innan ASI sem eru miklu betur settir en láglaunafólkið. Og þá er eðlilegt að menn spyrji: Hvað ætlar hæstv. ríkisstj. þá að gera ef það liggur fyrir strax 1. febr. að betur settir aðilar innan ASÍ fá verulega launahækkun á sama tíma og láglaunafólkið á að sitja eftir? Hvað skal þá gera? Er þá meiningin að framlengja lögin um bann við samningsgerð eða hvað ætlar hæstv. ríkisstj. að gera?

Ég tek undir með hv. þm. Svavari Gestssyni, sem spurði hæstv. forsrh., síðast þegar málið var til umr., hvort það væri ekki á hreinu, muni ég þetta rétt, að þessir aðilar fengju sína hækkun um leið og lögin féllu úr gildi. Ég óska sérstaklega eftir að hæstv. forsrh. svari því hér hreinskilnislega af eða á: Er það skilningur hæstv. ríkisstj. að þessar áfangahækkanir komi ekki til framkvæmda þrátt fyrir það að lögin falla úr gildi?

Það er einnig ástæða til að spyrja í framhaldi af því: Fari nú svo að slík áfangahækkun til þessara aðila komi sjálfkrafa til framkvæmda, hvað vill hæstv. ríkisstj. þá gera fyrir þá sem verst eru settir og minnst bera úr býtum og lægst hafa launin? Við því þarf líka að fá svar. Ég spyr hæstv. forsrh., og vænti þess að hann svari því hér skýrt og skorinort, hvað hæstv. ríkisstj. ætli til bragðs að taka ef mál þróast með þeim hætti.

Ég skal ekki, herra forseti, að þessu sinni a.m.k., hafa um þetta öllu fleiri orð. En ég ítreka enn og aftur: Það væri ekki bara til hagsældar hæstv. ríkisstj., það væri fyrst og fremst til hægsældar þjóðfélaginu sem heild ef hún féllist á að aflétta þessum þrælalögum, a.m.k. þeim þætti þeirra sem bannar launafólki í landinu að semja um kaup sitt og kjör. Haldi hún fast við slíkt ákvæði er hún að kalla yfir sig meiri erfiðleika og meira stríð en hún er megnug að standast.