16.12.1983
Neðri deild: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1933 í B-deild Alþingistíðinda. (1656)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil láta það koma hér strax fram að ég get ekki samþykkt 1. gr. í frv. hæstv. sjútvrh. Ég mun greiða atkv. á móti þeirri grein. Það er vegna þess að í henni er gert ráð fyrir víðtækara valdaafsali löggjafarvaldsins til framkvæmdavaldsins en ég get staðið að.

Ég er að sjálfsögðu reiðubúinn að stuðla að því að settar verði lagareglur sem auðvelda stjórn fiskveiða í landinu, en ég samþykki ekki lög um menntað einveldi. Þess vegna mun ég greiða atkv. á móti 1. gr. þess frv. sem hér er á dagskrá. Ég tel að það sé ekki sæmandi, miðað við þær lýðræðislegu kröfur sem gera verður í okkar þjóðfélagi, að Alþingi veiti einum manni slíkt vald. Ég er ekki í þessum efnum að tala um hæstv. núv. sjútvrh. Það kemur þessu máli í mínum huga ekki við. Ég er hér að tala um pólitískt grundvallaratriði sem ekki verður litið fram hjá. Ég er þeirrar skoðunar, að Alþingi væri að leggja inn á hættulega braut með því að fela einum manni á hendur slíkt ofurvald.

Það var á þessum grundvelli sem miðstjórn Alþýðusambands Íslands mótmælti því frv. sem hér liggur fyrir. Í mótmætum Alþýðusambands Íslands segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í frv. til laga um breytingu á lögum nr. 81 31. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, er ráðh. gefið einræðisvald til að ákveða fiskveiðistefnu og stjórn veiða á ákveðnu tímabili. Sambandsstjórn ASÍ“ — takið eftir því, en í þeirri stofnun eru menn úr öllum stjórnmálaflokkum og það er fjölmenn stofnun, æðsta stjórn verkalýðssamtakanna í landinu fyrir utan þing Alþýðusambands Íslands — „er ljóst að nauðsynlegt er að einhver hafi úrskurðarvald um þessi mál svo fært sé að skipuleggja veiðar og vinnslu með þeim hætti sem aðstæður krefjast hverju sinni.

Hins vegar bendir sambandsstjórn ASÍ á að raunhæf fiskveiðistefna verður ekki mótuð nema í samráði við hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Því beinir sambandsstjórn Alþýðusambands Íslands því til hv. Alþingis, að það beiti sér fyrir að skýrt komi fram í lögunum að ráðh. sé skylt að hafa samráð við hagsmunaaðila í sjávarútvegi um framkvæmd laganna. Hér er átt við samtök sjómanna, útgerðarmanna, verkafólks í fiskvinnslu og eigenda fiskvinnslufyrirtækja. Sambandsstjórn Alþýðusambands Íslands telur að víðtækt samráð og samstaða allra hlutaðeigandi aðila sé forsenda raunhæfs skipulags veiða og vinnslu og að slíkt samstarf geti ef vel til tekst dregið úr hættu á atvinnuleysi.“

Þetta birtist í bréfi sem var afhent formanni sjútvn. Nd. Alþingis. Stefáni Guðmundssyni. Bréfið er dagsett 13. des. 1983 og undirritað af forseta Alþýðusambands Íslands, Ásmundi Stefánssyni.

Hér er kveðið mjög skýrt að orði um vilja þess fólks og þeirrar stjórnar sem fer með æðstu stjórn alþýðusamtakanna um þessar mundir og það er útilokað fyrir sjútvrh. og ríkisstj. að láta sem þetta plagg sé ekki til. Og ég undrast það, herra forseti, að þegar gerð var grein fyrir nái. meiri hl. áðan varð ég ekki var við að þetta plagg væri lesið upp. Ég harma að svo skuli vera. Ég er viss um að það er ekki viljandi gert hjá framsögumanni meiri hl. að stinga þessu plaggi undir stól, en ég hanna að ekki skuli vera gerð grein fyrir því hvað alþýðusamtökin hafa til málanna að leggja í þessu máli því hér er um að ræða úrslitamál um lífskjör hvers einasta manns í þessu landi og þá sérstaklega þess fólks sem er innan verkalýðssamtakanna.

Kann það ekki líka að vera svo, herra forseti, að áhyggjur verkalýðssamtakanna af þessu einræðisvaldi stafi af því, að verkalýðssamtökin hafi orðið nokkuð bitra reynslu af einræðisvaldi og framkomu ríkisstj. varðandi lífskjör fólksins í þessu landi? Það skyldi þó aldrei vera að verkalýðsstéttin í þessu landi telji sig vera búna að fá nóg af íhlutun ríkisstj. í lífskjör launafólks á þessu ári, þar sem kjörin hafa verið rústuð niður með þeim hætti að kaupmáttur tímakaups verkamanna er núna svipaður og hann var fyrir 30 árum. Það er ekki að undra þó að verkalýðssamtökin hiki við að fela slíkri ríkisstj. alræðisvald um þennan grundvöll lífskjaranna. Það er ekki að undra þó að verkalýðssamtökin hiki við að færa slíkri stjórn vald sem er einsdæmi í sögu okkar stjórnkerfis að einn maður hafi haft. Ég er satt að segja meira en lítið undrandi á því að þeir menn sem telja sig skyldasta verkalýðssamtökunum skuli ekki átta sig á þeim háska sem í þessari grein og í þessu alræðisvaldi og valdaframsali getur verið fólgið. Það hefur ekki verið fyrir að fara slíkri tillitssemi þessarar ríkisstj. við lífskjörin að það sé ástæða til að afhenda henni vald yfir þeim lífskjaragrundvelli sem fiskveiðarnar eru. Ríkisstj. sem ætlar að leggja spítalaskatt á veika fólkið í landinu á það ekki skilið að menn hneigi sig fyrir henni og bukti úr þessum virðulega ræðustól.

Herra forseti. Hér er komið að grundvallaratriði varðandi afstöðu manna til stjórnkerfis okkar í heild og ég tel þess vegna að eðlilegt sé að hér hafi komið fram áhyggjur þm. úr öllum flokkum gagnvart hugmyndum sem hér eru uppi.

Í 1. umr. um málið voru bornar fram fjölmargar fyrirspurnir til hæstv. ráðh. um þetta mál og það var eins og fyrri daginn í núv. ríkisstj., sem hefur tekið upp nýja siði í skiptum við þm., að ekki er svarað þeim spurningum sem bornar eru fram. Hæstv. félmrh. hafði þennan hátt á í sambandi við húsnæðismál hér á dögunum. Hæstv. fjmrh. hefur fyrir reglu að svara ekki. Hæstv. sjútvrh. fylgir nú í kjölfarið og heldur uppi þessum háttum.

Um hvað voru menn að spyrja sem ráðh. hefur ekki svarað enn? Ég ætla að nefna eitt dæmi. Það var spurt um rekstrargrundvöll útgerðarinnar í landinu, hvernig hann horfir við á árinu 1984 hjá togurum og bátum, og skyldi það ekki vera partur af fiskveiðistefnunni hver er rekstrarafkoma og rekstrargrundvöllur útgerðarinnar í landinu? Ætlast menn til þess nú, þegar aðeins eru tvær vikur til áramóta, að þm. afgreiði þetta mál án þess að hæstv. ráðh. geri grein fyrir því hvernig rekstrargrundvöllur útgerðarinnar er í dag og hvernig ráðh. sýnist að rekstrargrundvöllur útgerðarinnar muni þróast á fyrstu mánuðum ársins 1984 og hvort og hvernig ríkisstj. ætlar að standa að breytingum fiskverðs núna um áramótin? Dettur þessari virðulegu ríkisstj. í hug, sem hér situr, að þingheimur sé búinn að gleyma því að fiskverð er venjulega afgreitt um áramótin í þessu landi, að það er enn til stofnun sem heitir Verðlagsráð sjávarútvegsins, sem um þau mál fjallar? Þó að henni hafi í rauninni verið bannað að starfa eins og ýmsum öðrum aðilum varðandi kaup og kjör á þessu ári með gerræðislögum ríkisstj. í vor, þá er þó þessi stofnun enn til og á væntanlega að ákveða fiskverð núna um áramótin. Hvaða fiskverð er það sem hæstv. ríkisstj. núna stefnir á? Hvaða rekstrargrundvöllur útgerðarinnar í landinu er það sem hæstv. ríkisstj. stefnir á? Og hvernig er háttað þessum rekstrargrundvelli núna? Telja menn, eins og t.d. hv. framsögumaður sjútvn. sem þekkir til í þessum málum, ástæðulaust að blanda rekstrarvanda sjávarútvegsins inn í þessa umr.? Hér er verið að ákveða hvernig skipin verða gerð út á næsta ári. Ætla menn að stinga höfðinu í sandinn og þora ekki einu sinni að endurtaka spurningar sem ráðh. hafa ekki döngun í sér til að svara? Hvernig er ætlun ríkisstj. að reka fiskiskipin á næsta ári, sem þóttist og segist sjálf vera mynduð til að bjarga stöðu atvinnuveganna? Aftur og aftur hefur hæstv. núv. sjútvrh. lýst því yfir að ríkisstj. hafi verið mynduð til að bjarga stöðu atvinnuveganna, treysta og efla atvinnulífið í landinu. Hvernig ætli sé staða atvinnuveganna um þessar mundir? Hvað hefur núv. hæstv. sjútvrh. fram að leggja varðandi útgerð togaranna og bátanna hér á næsta ári? Hvernig er rekstrarstaða fiskvinnslunnar og horfur í þeim efnum? Ætlast sjútvrh. virkilega til að hv. Alþingi ræði þetta ekki neitt, heldur húrri hér í gegn þessu frv. rétt eins og ekkert sé sjálfsagðara án þess að spyrja þessara grundvallarspurninga — eða er rekstrarstaða útgerðarinnar ekki hluti af fiskveiðistefnunni í landinu? Síðan hvenær var unnt að slíta það tvennt í sundur? Hvaða hættir eru það sem teknir hafa verið upp á ríkisstjórnarbænum sem gera mögulegt að rífa í sundur annars vegar rekstur útgerðarinnar og hins vegar fiskveiðistefnuna eins og hún er á hverri tíð? Þetta er grundvallarspurning sem hæstv. sjútvrh. verður auðvitað að svara hér og það rækilega. Hvaða hugmyndir hefur hann uppi um að tryggja stöðu útgerðarinnar á næsta ári? Það er alveg lágmark að ráðh. sem myndaði ríkisstj. með Íhaldinu til að bjarga stöðu atvinnuveganna í landinu svari spurningum af þessu tagi.

Hæstv. forsrh., sem mig minnir að hafi haft með sjávarútvegsmálin að gera þegar núv. sjútvrh. tók við, mætti gjarnan svara líka og gera grein fyrir því hvernig hann hugsar þessi mál, vegna þess að það er útilokað fyrir hæstv. ráðh. að komast fram hjá þessari umr. án þess að slíkra spurninga sé spurt. Það er alveg sama hvað menn eru traustir stuðningsmenn stjórnarinnar eða hvort þeir eru stjórnarandstæðingar í þessu efni. Mönnum er skylt að spyrja þessara spurninga og krefjast svara. Til þess eru ráðh. að svara þeim spurningum sem bornar eru fram — eða hefur hæstv. sjútvrh. kannske ekki undir höndum eða forsrh. upplýsingar um afkomu útgerðarinnar? Hafa þeir ekki undir höndum upplýsingar um afkomu vinnslunnar í landinu í dag?

Á fundi fjh.- og viðskn. Nd. í gærkvöld, mjög ítarlegum fundi sem stóð í eina þrjá klukkutíma, mætti fulltrúi Þjóðhagsstofnunar og gerði grein fyrir stöðu útvegsins. Það var ekkert allt of falleg mynd sem þar var upp dregin. Björgunarstarfsemi hæstv. sjútvrh. við atvinnuvegina virðist ekki hafa borið mikinn árangur. Mér sýnist að það hafi í rauninni ekkert lagast hjá þessum atvinnugreinum, sem ráðh. þóttist þó bera fyrir brjósti þegar hann var að mynda ríkisstj. með Íhaldinu í vor.

Herra forseti. Frá þessari umr. er ekki hægt að ganga öðruvísi en að hæstv. sjútvrh. svari þessum spurningum — og ég vil bæta því við — leggi fram gögn í málinu, þannig að þingheimur sjái svart á hvítu hvernig rekstrarstaða útgerðarinnar er í dag. Ég óska hér með eftir því að hæstv. sjútvrh. sjái til þess að upplýsingum Þjóðhagsstofnunar um rekstrarafkomu útgerðarinnar, togara og báta verði dreift hér á borð þm., þannig að menn megi sjá hvernig þessum hlutum er nú háttað. Þetta eru óaðskiljanleg mál með öllu. Hér er ekki aðeins verið að fjalla um grundvallaratriði fyrir framtíðina, heldur er hér fyrst og fremst verið að fjalla um þessi mál fyrir árið 1984. Þess vegna er eðlilegt að spurt sé um rekstrargrundvöllinn sérstaklega á því ári. Mér er kunnugt um að margir þm. í stjórnarliðinu, sem eru afar þungir til stuðnings við þetta frv., verja sig með því, sem er auðvitað ræfilslegt af þeim, en þeir gera það nú samt, að þetta sé eins konar tilraunafyrirkomulag, eins og einn þeirra orðaði það við mig áðan, tilraunafyrirkomulag sem standi bara á árinu 1984 og þeir þurfi þá ekki í rauninni að hafa svo miklar áhyggjur og þeir ætli þess vegna að greiða þessu atkv. eins og í tilraunaskyni. Það er sérkennilegt satt að segja að menn skuli ætla sér að gera slíka tilraun án þess að spyrja um rekstrargrundvöllinn.

Mjög víða hafa komið fram þungar áhyggjur yfir þessu frv., m.a. í útgerðarráði Bæjarútgerðar Reykjavíkur. Á fundi sem var haldinn í útgerðarráði Bæjarútgerðar Reykjavíkur miðvikudaginn 14. des. 1983 var fjallað um þessi mál sérstaklega. Þm. Reykv. hefur verið sent bréf um þetta efni þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hér með sendum vér yður till. sem samþykkt var með 7 shlj. atkv. á fundi útgerðarráðs Bæjarútgerðar Reykjavíkur miðvikudaginn 14. des. 1983. Tillagan hljóðar svo:

„Flest bendir til þess, að Alþingi muni nú á næstu dögum samþykkja frv. til laga, sem nú hefur verið lagt fram, um breytingu á lögum nr. 81 31. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, sbr. lög nr. 38 8. maí 1981.

Útgerðarráð telur að nauðsynlegt sé að draga úr hættunni á ofveiði á Íslandsmiðum og þá sérstaklega með hliðsjón af ástandi þorskstofnsins um þessar mundir, en telur jafnframt orka tvímælis að sjútvrh. skuli fengnar jafnvíðtækar heimildir til skiptingar afla eftir tegundum á einstök fiskiskip og gert er ráð fyrir í frv. Útgerðarráð beinir þeim eindregnu áskorunum til þm. Reykjavíkur að þeir gæti þess að ekki verði gengið á hagsmuni þessarar stærstu verstöðvar landsins við útfærslu málsins.“

Virðingarfyllst.

F. h. Bæjarútgerðar Reykjavíkur.

Björgvin Guðmundsson.“

Ég held að það sé alveg nauðsynlegt, herra forseti, að þessi sjónarmið, sem hér eru sett fram í bréfi Bæjarútgerðar Reykjavíkur, séu dregin hér fram vegna þess að þau eru samþykkt með 7 shlj. atkv. af fulltrúum allra flokka í útgerðarráði. Þar er það enginn sem skilur sig frá. Það er sem sagt greinilegt að það er sama hvort um er að ræða stofnun sem kosin er af borgarstjórn Reykjavíkur eða stofnun eins og sambandsstjórn Alþýðusambands Íslands. Í báðum tilvikum er það svo, að menn hafa mjög þungar áhyggjur af því valdaframsali sem í frv. þessu felst. Allir þessir aðilar heita á alþm. að taka nú skynsamlega á þessum málum. Menn viðurkenna að það er þörf stýringar, en menn óttast hvernig að þessum hlutum er staðið af núv. hæstv. ríkisstj.

Ég vil þess vegna, herra forseti, leyfa mér að undirstrika sérstaklega að það er ríkur vilji og skilningur í landinu fyrir því að það verði settar reglur um stjórn fiskveiða og það verði skapaðir möguleikar sem tryggja að nýtingin á þessum sameiginlegu auðlindum landsmanna verði sem best. Á því er ríkur skilningur í öllum stjórnmálaflokkum, hjá öllum þeim sem hér hafa talað á hv. Alþingi.

En í stað þess að reyna að virkja þennan ríka vilja er hér skellt inn í þingið með örstuttum fyrirvara frv. sem er svo illa útbúið að það vekur fjölmargar spurningar og í grg. frv. eru í rauninni sárafáar skýringar á hinum efnislegu forsendum málsins, sem allir þm. eiga þó rétt á að fá. Ég vil átelja ríkisstj. fyrir að standa svona að verki. Ég vil átelja ríkisstj. fyrir að hún skuli ekki gera ríkari tilraun til þess með lengri fyrirvara að virkja þann skilning sem hér er í þinginu á samstöðu um þessi mál. Og ég ætla að fullyrða það, herra forseti, að ef málið hefði verið betur undirbúið með lengri fyrirvara er viljinn til samstarfs svo ríkur hér að það hefði átt að vera unnt að ná mjög víðtækri samstöðu þvert á stjórnmálaflokka um þetta mál, yfirgnæfandi meiri hl. þingsins, hvort sem menn eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Og þegar kemur að jafnörlagaríku máli og þessu, sem margir hafa talið stærsta mál þingsins, er það auðvitað höfuðskylda ríkisstj. að halda þannig á málum að hún laði fram samkomulagsviljann, samningaviljann og viljann til samstöðu með þjóðinni. Ríkisstj. á ekki með vinnubrögðum sínum að standa þannig að málum að það verði til að sundra í jafnerfiðu máli og þessu. Það er algjört grundvallaratriði frá mínum bæjardyrum séð, því hér erum við að taka á vanda sem er einhver sá stærsti sem þessi þjóð hefur að sumu leyti staðið frammi fyrir. Undanfarna áratugi höfum við búið við það að menn hafa gengið fastar og fastar að auðlindunum, sótt síaukin verðmæti í auðlindir þjóðarinnar. Nú er hins vegar ekki eins miklu að skipta og verið hefur. Við stöndum því frammi fyrir grundvallarvanda og við slíkar aðstæður á að reyna að laða menn til samstarfs, en ekki að espa til sundrungar.

Þessi ríkisstj. hefur að vísu haft þann hátt á að reyna yfirleitt í öllum málum að espa til sundrungar, segja í sundur friðinn í þessu landi. Það er alveg sama hvort þar hefur verið um að ræða kaupið og kjörin eða þá málið sem hér er uppi. Það er engin tilraun gerð til þess með ítarlegum viðræðum hér á Alþingi að reyna að ná samkomulagi um þetta mál. (Gripið fram í: Það er ólíku saman að jafna.) Það er ólíku saman að jafna eða þeim tíma þegar jafnan var lögð mikil áhersla á að ná samstöðu um mál af þessu tagi, eins og þegar hæstv. fyrrv. sjútvrh. Matthías Bjarnason fór með málefni fiskveiðilandhelginnar, þegar lögin voru sett 1976, eða þegar hæstv. fyrrv. sjútvrh. Lúðvík Jósepsson fór með sömu mál. Þá var lögð áhersla á samstöðu, að laða menn saman um þetta grundvallaratriði, vegna þess að hérna stendur þjóðin frammi fyrir miklum vanda og það á að vera skylda þeirra sem í forustu eru að laða menn saman í þeim efnum, en ekki að efna til sundrungar. Ég vil því mjög harðlega, herra forseti, átelja ríkisstj. fyrir seinagang í þessu máli og ég tel að þar hefði mátt standa miklu betur að málum.

Hér hafa í dag verið lagðar fram nokkrar brtt. við frv. hæstv. ríkisstj. Ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að fara um þær brtt. nokkrum orðum. (Forseti: Ég vil spyrja hv. þm. hvort það taki langan tíma.) Nei, en það væri betra, herra forseti, vegna þess að ég er viðbundinn fljótlega upp úr kl. fimm, að ég fengi að halda áfram máli mínu um kl. níu, þegar fundi verður fram haldið. (Forseti: Fundinum verður fram haldið kl. hálfníu.) Kl. hálfníu, já. (Forseti: Ef hv. þm. vill þá ljúka ræðu sinni nú á þessari stundu.) Ég kysi heldur að ég fengi tækifæri til þess að halda ræðunni áfram á eftir, vegna þess að ég hafði lofað ákveðnum hlutum núna um kl. fimm sem ekki geta beðið, ef hæstv. forseti fellst á það. — (Fundarhlé].

Herra forseti. Það er e.t.v. ástæða til að inna hæstv. forseta eftir því á þessu stigi málsins hvort það er staðfastur ásetningur ríkisstj. og hæstv. forseta að það frv. sem hér liggur fyrir ásamt brtt. fari ekki til n. aftur. (Forseti: Það hefur verið tillaga forseta að n. ræði till. sem fram eru komnar og ég á von á að svo verði.) Nú er mér tjáð, herra forseti, að kl. korter yfir sex í kvöld hafi verið boðaður fundur í sjútvn., en honum hafi síðan verið aflýst. Ég vil spyrja hæstv. forseta að því, en ég get auðvitað kvatt mér hljóðs um þingsköp. (Forseti: Ég skal líka svara því. Það er rétt að það var boðaður fundur kl. korter gengin í sjö í dag, en af þeim fundi varð ekki. Forseti á sæti í þessari ágætu n. og mér er ókunnugt um að fundurinn hafi beinlínis verið afboðaður. Ég mun halda áfram að ræða hvort ekki megi taka þetta mál fyrir í n.) Mætti ég biðja forseta um að kanna núna hjá formanni sjútvn. og formönnum þingflokka stjórnarliðsins hvort ekki er eðlilegt að gefa fundarhlé síðar í kvöld meðan sjútvn. er að störfum, gera a.m.k. hlé á þessu máli við 2. umr., þó að það yrði þá kannske settur nýr fundur og tekin fyrir önnur mál sem mér sýnist vera á dagskrá eða hugsanlega eru væntanleg ofan úr Ed. síðar í kvöld. Mér þætti vænt um ef forseti vildi kanna það mál.

Ég held þá áfram máli mínu og var þar kominn að ég hugðist fara yfir þær brtt. sem liggja fyrir við frv. um fiskveiðimál. Ég ætla hins vegar áður en að því kemur að víkja nokkuð að þeirri fiskveiðistefnu sem hæstv. sjútvrh. kynnti hér í dag og hafði áður kynnt á fundi með fréttamönnum kl. eitt, þ.e. klukkutíma áður en þingfundur kom saman, og var svo greint frá í fréttum núna áðan.

Það er greinilega niðurstaðan eftir nokkrar umræður og vafalaust miklar í ráðgjafarnefndinni sem hæstv. ráðh. hefur sett sér til ráðuneytis að reyna að draga nokkuð og það verulega, vil ég segja, úr því áfalli sem þjóðarbúið verður fyrir við samdráttinn í þorskaflanum. Hafrannsóknastofnun hafði verið með töluna 200 þús. tonn og menn töldu að vonum að það væri nokkuð uggvænlegt að eiga að búa við það í þjóðarbúskapnum á næsta ári að þorskurinn drægist saman um 100 þús. tonn. Menn hafa sett hér á af eðlilegum ástæðum langar og ítarlegar umræður um þetta mál, þ.e. hvaða afleiðingar það hefði fyrir þjóðina ef þorskveiðin dregst saman um 100 þús. tonn án þess að neitt annað gerist. Af þeim ástæðum var það sem óskað var eftir því af ríkisstj. og stjórnarandstöðunni að Þjóðhagsstofnun legði mat á hver áhrif þessi samdráttur í þorskveiði á árinu 1983–1984 mundi hafa. Þjóðhagsstofnun sendi ríkisstj. og formönnum stjórnmálaflokkanna minnisgrein um þetta atriði sem var dagsett 22/11 s.l. Ég tel að það sé hluti af þessu máli, vegna þess að hér erum við að fara yfir árið 1984 sé það hluti af málinu að gera sér grein fyrir þessu atriði hér, því að í tölum og athugunum Þjóðhagsstofnunar er það hennar skoðun að þjóðarframleiðslan muni vegna þessa samdráttar í þorskafla dragast saman um 4%, þ.e. að hún fari úr ca. 64 milljörðum kr., eins og þetta er í þjóðhagsáætlun fyrir 1984, niður um ca. 2.6 milljarða eða svo. Þegar ég ræddi við forstjóra Þjóðhagsstofnunar um þessa spá símleiðis fljótlega eftir að hún kom fram taldi hann að hér væri kannske frekar um að ræða samdrátt upp á ca. 2.1 milljarð kr. en 2.6 milljarða kr., en allt um það hlaut þar að vera um mjög tilfinnanlegt högg að ræða fyrir þjóðarbúið.

Í framhaldi af þessum spám Þjóðhagsstofnunar gerist það síðan að ríkisstj. lætur endurskoða allar forsendur fjárlaganna fyrir árið 1984 svo sem eðlilegt er. Það eru líka endurskoðaðar launaforsendur fjárlaganna fyrir árið 1984. Í þessum efnum segja menn sem svo, að vegna þess samdráttar sem þarna er bent á af Þjóðhagsstofnun sé t.d. nauðsynlegt að hafa skattstigann nokkru hagkvæmari launafólki á næsta ári en gert hafði verið ráð fyrir í upphaflegu frv. ríkisstj. um tekju- og eignarskatt. Af þeim ástæðum var það að ríkisstj. lagði einnig fram breyttan skattstiga og hann var til meðferðar í hv. fjh.- og viðskn. Nd. í gær á mjög ítarlegum fundi. Þessi skattstigi hefur í för með sér skv. útreikningi Þjóðhagsstofnunar og skv. því sem ríkisstj. upplýsir okkur um, að skattar lækki frá því sem áformað hafði verið um 60–80 millj. kr. á árinu 1984.

Nú þegar þessir endurútreikningar hafa allir verið framkvæmdir, þ.e. á fjárlagafrv. og sköttunum líka og launaforsendum fjárlagafrv. svo sem eðlilegt er að gera, kemur það daginn þar á eftir að ríkisstj. endurskoðar og gefur út sína fiskveiðistefnu fyrir árið 1984. Þá er strekkt nokkuð á því sem Þjóðhagsstofnun hefur talið að mest gæti orðið þanþol fiskistofnanna. Það er bersýnilegt að þar er um að ræða mjög verulega fjármuni upp í ca. 4% í þjóðarframleiðslu sem um var talað að fall þorskaflans gæti þýtt. Ég skal ekkert um það segja hvaða tala það er sem þarna hefur tekist að öngla saman í, ef sá afli næst sem ríkisstj. er að tala um og hæstv. sjútvrh., en ég gæti ímyndað mér að það væri hátt í helmingurinn af þeim samdrætti sem giskað var á að yrði með 100 þús. tonna minnkun þorskaflans.

Í sjónvarpsfréttum áðan tók ég eftir því að Þjóðhagsstofnun vildi ekkert láta hafa nákvæmlega eftir sér um þetta og talaði um að samdrátturinn í þjóðarframleiðslu yrði 1–2% frá þjóðhagsáætlun. En ef ágiskun mín er rétt mundi þetta þýða að samdrátturinn yrði á næsta ári í þjóðarframleiðslu ekki 4% heldur 2% og hann yrði þá ekki 2.5–2.6 milljarðar heldur væntanlega 1.2–1.3 milljarðar. Víst er það nokkuð umhendis að átta sig á þessu í fljótheitum og mér þætti vænt um ef hæstv. sjútvrh. hefði um þetta einhverjar nýjar upplýsingar eða kannske einhverjar betri — eða eigum við kannske frekar að segja skárri — ágiskanir en þær sem ég hef í þessu efni.

Auðvitað hefur þetta mikil áhrif á alla stöðuna, sérstaklega þegar þess er gætt að búið er að umreikna hér alla hluti á allt öðrum forsendum. Mér finnst þetta sýna betur en annað hvað þessir hlutir eru í raun og veru á mikilli hreyfingu og hvað vantar mikið á að menn geti staðnæmst við ákveðnar stærðir í þessum efnum vegna þess hvernig að hlutum er staðið og að menn eru að tala um mörg mál sama sólarhringinn og reyna að þræla þeim í gegnum þingið. En ég tel að það sé a.m.k. greinilegt að sú fiskveiðistefna sem sett var fram hugmynd um í dag af ríkisstj. skilar nokkru og kannske verulegu upp í þann samdrátt þjóðarframleiðslunnar sem Þjóðhagsstofnun hafði gert ráð fyrir.

Því er ekki að neita að mér fannst stundum að það væri hamrað á þessum samdrætti þorskframleiðslunnar nokkuð mikið. Ég er ekki að saka menn um að þeir hafi viljað draga kjarkinn úr launafólki í þessu landi. Ég tel að það geti ekki verið. En stundum datt manni í hug að þessar miklu fjallræður um hina kolsvörtu skýrslu sem menn kölluðu nú svo þegar þeir komust í skáldlegan ham, hafi haft þau áhrif á launamenn að þeir hafi vafalaust verið varkárari í sinni afstöðu, þrátt fyrir þá miklu kjaraskerðingu sem orðið hefur, en ella hefði átt sér stað. Mér var ekki grunlaust um að stundum væri engu líkara en menn teldu að þarna væru komnar upplýsingar sem væri ágætt að halda grimmt að launafólki einmitt um þessar mundir, þannig að menn væru ekki að gera allt of miklar kröfur þessa dagana. Sérstaklega fannst mér að þetta væri athyglisvert þegar það kom fram um svipað leyti og gefinn var eftir samningsrétturinn. Þegar ríkisstj. gafst upp á að keyra bann við kjarasamningum í gegnum þingið, af því hún hafði ekki lengur meiri hluta fyrir þessu banni við kjarasamningum, var söngurinn um áfallið sunginn næsta þindarlaust í þingsölum. Auðvitað er það skoðun okkar allra, sem hér erum, að nauðsynlegt sé að fara með gát þegar samdráttur verður í tekjum og afrakstri af auðlindum okkar, en það verður að horfa á það eins og annað með fullu raunsæi. Það er ekki við hæfi að nota sér slíkt til að gera myndina svartari en raunverulegt er.

Ég held reyndar að það svartsýnistal sem núv. ríkisstj. hefur byggt alla sína pólitík á, að allt væri hér að snúast til hins versta vegar, sé ákaflega óheppilegt til lengdar; það sé til þess fallið að draga kjarkinn úr þjóðinni, að valda henni erfiðleikum og draga úr trú manna á getu þjóðarinnar til að lifa sjálfstæðu lífi í þessu landi. Og ekki er manni grunlaust um að stundum telji ýmsir að það sé ágætt að fá tækifæri til að minna þjóðina á að það er svikull sjávarafli og það sé kannske eins gott fyrir menn að halla sér að hinni miklu stóriðju, ekki síður erlendri en innlendri, þegar kemur að spurningunni um að byggja upp atvinnuvegina í þessu landi. Og það var nokkuð sláandi, að í þeim töluðum orðum sem menn höfðu uppi um samdráttinn og hugsanlega möguleika á því að leggja togurum var einnig farið að tala allt í einu um álverksmiðjur og að leysa ætti vanda manna með þeim. Þó vil ég ekki bera á sjútvrh. að hann hafi haft þau orð uppi að hann vildi gagngert skipta á því að leggja togurum og reka menn í álverksmiðjur, ég skildi hann aldrei þannig. En það var athyglisvert að þetta skyldi bera upp um mjög svipað leyti, vegna þess að auðvitað er hér komið að sjálfri kvikunni, þ.e. því hvernig háttar til í okkar þjóðarbúskap. Er hann þannig, að þjóðin hafi trú á því að við getum lifað hér mannsæmandi lífi af þeim auðlindum sem hér er um að ræða eða er hér um að ræða látlausar svartsýnisprédikanir varðandi íslenskan þjóðarbúskap, sem eru til þess fallnar að draga úr mönnum kjark og ýta undir að menn kalli hér inn í landið erlenda stóriðju í stórauknum mæli?

Þetta eru atriði, herra forseti, sem ég tel vera hluta af þessu dæmi. Ég held að við eigum af fullu raunsæi að skoða auðlindagrundvöll okkar og hvernig við getum best nýtt þessar auðlindir. Í þessum efnum eru lögmál markaðshyggjunnar fjarstæðukenndari en nokkurs staðar annars staðar í rauninni. Hvergi er vitlausara að láta sér detta í hug að markaðshyggjan leysi vandann en þegar komið er að hinum takmörkuðu auðlindum.

Allir sjá hvað það væri fráleitt að siga hundrað togurum í frjálsri samkeppni á þá þorska sem eftir eru í sjónum í kringum landið. Allir sjá hvílík endemis vitleysa það er, nema kannske hv. 5. þm. Reykv., ég veit ekki hvort það er. Hann er kannske hér á mælendaskrá. Hann hefur e.t.v. annan skilning á þorskinum en aðrir menn í salnum. Ég skal ekkert um það segja, en hitt er alveg ljóst, að þegar kemur að því að nýta hinar takmörkuðu auðlindir verður að beita einhvers konar félagslegum úrræðum. Það er óhugsandi annað. Það verður að horfa yfir hagsmuni heildarinnar. Og þá kemur að því, sem hæstv. núv. sjútvrh. segir, að þetta sé í rauninni það sem hann sé að gera, hann sé að stýra því hvernig vandinn kemur niður á þjóðinni, svo ég leggi honum nú orð í munn. Ég gæti trúað að það væri þetta sem hann er stundum að hugleiða í þessu efni, að taka þetta félagslegum tökum sem kalla má. Ég er sammála því sjónarmiði í grundvallaratriðum, en ég er ekki sammála þeirri aðferð sem hann hefur hér uppi. Ég vil ekki að þetta gerist í gegnum sjútvrh. einan eða sjútvrn. Ég vil að hérna sé reynt eins og kostur er að kalla fleiri til ábyrgðar. Ég vil ekki afhenda þeim samtökum sem menn eru stundum að tala um stjórn landsins. En ég vil gera þau ábyrg við ákvarðanatekt í sjávárútvegsmálum líka.

Það er grundvallaratriði í þessu efni hvernig við nálgumst hina félagslegu stýringu. Gerum við það með því að einn maður miðstýri svo að segja öllu þessu kerfi eins og það leggur sig og ráði því svo að segja í smáatriðum eða gerum við þetta með þeim hætti að við reynum að draga fleiri inn í ákvarðanatökuna þannig að hún kalli fleiri og fleiri til að bera ábyrgð á því sem menn eru að gera? Af þeim grundvallarástæðum, herra forseti eru þær till. fluttar sem hér eru fluttar af þremur þm. Alþb. Ég ætla að leyfa mér að fara aðeins yfir þær till. á þskj. 242.

1. till. er um að fiskveiðilandhelgi Íslands og auðlindirnar innan hennar séu þjóðareign, þ.e. sameign allra Íslendinga. Hérna held ég að sé um að ræða till. sem við ættum öll að geta verið sammála um. Mér finnst mjög undarlegt ef við gætum ekki náð nokkuð góðri samstöðu um að lýsa því yfir að auðlindirnar innan fiskveiðilandhelginnar séu sameign allra Íslendinga. Ég held að það væri í rauninni ástæða til að velta því fyrir sér hvort ákvæði af þessum toga ætti ekki heima í stjórnarskrá lýðveldisins, þetta ákvæði eða svipað varðandi hverjir eiga auðlindirnar. Ég held að það sé a.m.k. mál sem á að hugleiða mjög vandlega. Ég skora á hv. sjútvn., sem forseti mun beita sér fyrir að kölluð verði saman, að líta alveg sérstaklega á þessa till. Ég trúi ekki öðru en menn geti tekið undir hana, vegna þess að ég sé ekki með hvaða hætti menn ættu að fara að vera á móti till. af þeim toga sem þessi till. er.

2. till. á þskj. 242 hljóðar svo:

„Ráðh. getur, að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunar, ákveðið hámark þess afla, sem veiða má úr einstökum fiskstofnum og sjávardýrum. Ákvörðun sína um þetta efni skal ráðh. kynna Alþingi fyrir lok hvers árs. Skal Alþingi síðan fjalla um mótun fiskveiðistefnu og ákveða stefnuna með þál.

Þál. um fiskveiðistefnu fjallar um forsendur fiskveiðistefnu komandi árs.“ — Hún fjallar sem sagt ekki um einstaka framkvæmdaþætti í fiskveiðistefnunni, heldur um forsendur hennar. — „Við ákvörðun sína skal Alþingi taka tillit til þess að atvinna verði sem samfelldust, að sem mest hagkvæmni fáist við nýtingu fiskstofnanna og að þess sé gætt að ekki verði gengið á stofnana. Í ályktun Alþingis skal ákveða forsendur ákvörðunar ráðh. um skiptingu hámarksafla á skip.“

Þessi hugmynd, sem hér er verið að tala um, sem mér finnst að menn hafi talað um af nokkrum skilningi í dag, jafnvel þó að þeir væru kannske á móti því að samþykkja þetta núna, eins og félagi minn hv. þm. Garðar Sigurðsson, beinist að því að Alþingi fjalli um þetta meginatriði í þjóðarbúskapnum. Við erum hér að ræða um fjárlög, við erum að ræða um skattamál, við erum að ræða um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, lánsfjárlög, húsnæðismál o.s.frv. og allt er það eðlilegt. Því skyldum við þá ekki fjalla hér um forsendur fiskveiðistefnunnar og ákveða rammann sem fiskveiðistefnan á ári hverju fer eftir?

Nú kunna menn að segja sem svo um þessa till.: Ja, hún er eiginlega slæm að því leytinu til að hér er aðeins verið að tala um fiskveiðar á árinu 1984 og þess vegna hefur þessi till. ekki neitt gildi. Hér er um að ræða eins konar tilraunafyrirkomulag á fiskveiðum, eins og sumir orða það hér í salnum. Þá er það ekki alveg rétt fyrirkomulag, að mínu mati, vegna þess að með því að samþykkja þennan texta væri Alþingi að lýsa sinni skoðun og sínu viðhorfi, að þingið vildi hafa þessi mál hjá sér. Það væri þannig verið að undirstrika að Alþingi væri á þessari lýðræðislegu vakt í sambandi við þetta meginatriði í íslenskum þjóðarbúskap. Ég skil ekki atveg hvernig í ósköpunum menn fara að því að rökstyðja að þeir vilji vera á móti því að Alþingi fjalli um þessi mál. Ég sé ekki nein rök fyrir því, satt að segja, herra forseti, og mér finnst undarlegt ef menn ætla sér að fara að bera við tímaskorti í þessu efni og þess vegna ekki að leyfa Alþingi að fjalla um þessi mál — eða finnst mönnum kannske að þinginu komi þetta ekkert við? Finnst mönnum að Alþingi eigi ekkert að vera að sinna þessum málum? Það er auðvitað til í dæminu að menn reyni að rökstyðja að Alþingi eigi ekkert að koma nálægt þessu. En það gengur ekki upp við þau félagslegu sjónarmið sem ég tel að verði að taka tillit til við stýringu á sókn í auðlindirnar og ég hef heyrt hæstv. sjútvrh. bera fyrir sig stundum þegar hann hefur verið að tala um þessi mál. Mér finnst þess vegna að hans rökstuðningur í þessum málum, t.d. á móti því að hagsmunasamtökin ráði hlutunum, vera um leið rökstuðningur fyrir þessari till.

Ég vil skora á hæstv. sjútvrh. og hv. formann sjútvn. Nd. að íhuga mjög vandlega: Vilja þeir nú ekki opnum huga og með fullri vinsemd líta á þessar till. þarna? Hvað tapast niður að þeirra mati við það að Alþingi lýsi þessum vilja sínum? Af hverju vilja þeir endilega hafna því að þingið fjalli um þessi mát? Ég held satt að segja að ef þeir skoða málið heiðarlega sjái þeir að það er meira en skaðlaust fyrir þá og þann málstað sem þeir telja sig vera að tala fyrir að samþykkja þessa till. Ég skora á þá að íhuga það mál mjög vandlega þegar sjútvn. fær þetta mál til meðferðar. Hér er sem sagt komið að grundvallaratriði — því grundvallaratriði að Alþingi Íslendinga sé mér liggur við að segja dregið til ábyrgðar við mótun þeirrar grundvallarstefnu sem hér er verið að tala um, fiskveiðistefnunnar.

3. brtt. á þskj. 242 frá Steingrími J. Sigfússyni, Geir Gunnarssyni og Hjörleifi Guttormssyni, hv. þm., er þessi:

„Ráðh. skipar nefnd til að fjalla um framkvæmd fiskveiðistefnu. Í henni eiga sæti fulltrúar fiskverkenda, útgerðarmanna, sjómanna og verkafólks í fiskvinnslu skv. nánari ákvæðum í reglugerð.“

Í málflutningi hæstv. ráðh. hefur hann aftur og aftur talað um samráð og að það þurfi helst að vera þannig að hagsmunaaðilar verði sammála um stefnuna í meginatriðum. Hann hefur undirstrikað það hvað eftir annað. Ég met þá yfirlýsingu ráðh. ekki lítils. Þar á móti kemur það, eins og hv. þm. Garðar Sigurðsson hefur bent á, að það er kannske ekki ýkjamikill áhugi á því eða hagsmunaaðilar ekki ákaflega spenntir fyrir því að axla ábyrgð í þessum efnum. Ég held hins vegar að skynsamlegra væri að opna leiðina til þess að þeir verði að einhverju leyti gerðir ábyrgir. Hérna er till. um að þeir séu að nokkru leyti gerðir ábyrgir án þess að valdið sé tekið af ráðh. í því efni. Það er ekki till. hér um að valdið sé tekið af ráðh., en það er till. hér um að kveða aðeins fastar að orði en gert er varðandi almennt samráð. Og ég vil spyrja hæstv. sjútvrh.: Hvað er á móti því að kalla þessa hagsmunaaðila til frekara samráðs um mótun fiskveiðistefnunnar? Hvað er á móti því að reyna að stuðla að því að þeir taki á þessum grundvallarþætti í íslenska þjóðarbúskapnum af ábyrgðartilfinningu, af ábyrgðarkennd? Ég held að það sé mjög mikill misskilningur hjá hv. sjútvn. og hæstv. sjútvrh. að afgreiða þetta mál þannig að þetta sé í raun og veru bara ávísun á eitthvert almennt samráð. Við vitum öll hvað slíkt almennt samráð getur þýtt. Það getur þýtt að menn axli allt saman fram af sér. Við þekkjum það bæði ég og hæstv. sjútvrh. Þannig er miklu skárra í þessu tilviki að reyna að draga þessa aðila nær ákvörðuninni, eins og gerð er tillaga um í till. Steingríms Sigfússonar o.fl.

Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að nefndin sem hér um ræðir fjalli um flutning aflaleyfa. Og síðan segir hér: „Óheimilt er að setja aflaleyfi.“ Þetta er atriði sem hæstv. sjútvrh. hefur lýst yfir opinberlega, m.a. í viðtali við dagblaðið Tímann núna á dögunum. Mér er mikið kappsmál að svona atriði kæmu inn í lögin. Mér Líst ekki á að aflaleyfi gangi kaupum og sölum. Ég væri hræddur við slíkt fyrirkomulag. Ég held að það gæti boðið því heim að fjárhagsleg stórveldi kaupi upp aflaleyfi í stórum stíl og ég held að við eigum að varast slíkt. Þess vegna er þessi till. svona orðuð, að óheimilt sé að setja aflaleyfi.

Í 3. mgr. er gert ráð fyrir að þessi nefnd hafi það hlutverk að þeir aðilar sem hagsmuna hafa að gæta og eru óánægðir með eitthvað í framkvæmd fiskveiðistefnunnar geti skotið málum sínum til nefndarinnar til meðferðar. Ég held að það sé nauðsynlegt til þess að framkvæmd fiskveiðistefnunnar fari sem best úr hendi

að þeir aðilar sem þar verða að sæta ákvörðunum eigi málskotsrétt á einhvern vettvang. Það er einmitt hugmyndin með síðustu mgr.

Nú er það vafalaust svo, að útfærslan á síðustu mgr. mætti vera miklu betri. Það verkar kannske þannig, að á henni sé nokkur fljótaskrift. Auðvitað gæti hv. sjútvn. bætt um betur og lagað 3. mgr., en ég held að það sé bæði lýðræðislegra og sanngjarnt að ætlast til þess að þessir aðilar, sem þurfa að sæta ákvörðunum sjútvrh. varðandi fiskveiðar, geti skotið sínum málum til ákveðinnar nefndar eða aðila sem um þau mál fjallar.

Í fjórða lagi er í till. Steingríms J. Sigfússonar o.fl. gert ráð fyrir að ekki verði sett aflamark á handfæra- eða línubáta, en þó verði heimilt að ákveða heildaraflamagn fyrir línuveiðiskip. Það kann að vera að mönnum sýnist að þetta sé kannske ekki alveg í samræmi við annað, en við teljum að það gegni nokkuð sérstöku máli um handfærabáta og línuveiðar og það sé því ástæða til að taka það fram með atveg sérstökum jákvæðum hætti í lögunum að þessir aðilar séu þarna undanþegnir nema heimilt yrði að ákveða heildarmark fyrir línuveiðiskip.

5. till. frá Steingrími J. Sigfússyni o.fl. gengur út á að sett yrði ákvæði til bráðabirgða. Þá kemur að atriði sem ég vil biðja hv. sjútvn. að íhuga einnig mjög vandlega. Það er að þrátt fyrir ákvæði í 10. gr., eins og hún lítur út hér samkv. brtt. 2, eigi sjútvrh. að gera till. til Alþingis um framkvæmd fiskveiðistefnunnar 1984 með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í greininni. Skal Alþingi þá hafa lokið umfjöllun sinni um málið fyrir lok janúarmánaðar. Þá er miðað við að þingið komi saman fljótlega upp úr hátíðum til að taka lotu í fiskveiðimálunum og þau verði rædd og til lykta leidd fyrir lok janúarmánaðar. Mér finnst að í rauninni sé ekkert óeðlilegt að ætlast til þess af þinginu að það taki þannig á málum. Ég held að það hefði verið eðlilegra að mörgu leyti að gera ráð fyrir að þingið fengi að fjalla á þennan hátt um þetta en að hraða svo mjög í gegn frv. um mjög mikið valdaafsal til sjútvrh. eins og því frv. sem hér er flutt og lagt ofurkapp á að keyra í gegn.

Á þskj. 235 flytja hv. þm. Kjartan Jóhannsson, Guðmundur Einarsson og Kristín Halldórsdóttir einnig brtt. um nýjan texta 10. gr. laganna um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Þar með er það svo, herra forseti, að fyrir hinni hv. deild liggja þrjár till. um orðalag 10. gr. Í fyrsta lagi till. frá hæstv. ríkisstj., í öðru lagi till. frá hv. þm. Kjartani Jóhannssyni, Guðmundi Einarssyni og Kristínu Halldórsdóttur og í þriðja lagi till. frá Steingrími J. Sigfússyni o.fl. Ég verð að segja að mér finnst ekki óeðlilegt, mér finnst það sanngjarnt, að fara fram á að n. komi nú aftur saman til fundar og ræði um þessar till.

Í upphafi máls míns, sem hófst fyrir nokkrum mínútum, óskaði ég eftir því að hæstv. forseti kannaði hvort og þá hvenær hv. sjútvn. gæti komið saman til að fjalla um þessar till. og hvort ekki væri rétt að gera hlé á umr. um þetta mál meðan sjútvn. væri að ræða þessa till. og við tækjum þá annað mál fyrir. Forseti tók því vel að kanna þetta mál. Nú vildi ég spyrja hæstv. forseta, áður en ég geng úr þessum stól, hvort niðurstaða er fengin varðandi það að sjútvn. komi saman. Mér þætti vænt um ef forseti gæti svarað því nú þegar. Er það hugsanlegt, herra forseti? (Forseti: Ég hef komið þeim boðum til formanns sjútvn. að halda slíkan fund, en ég hef ekki fengið boð um hvenær sá fundur yrði. En ég geri alveg fastlega ráð fyrir að sá fundur verði haldinn í kvöld.) Má ég þá líta þannig á að sá fundur verði haldinn núna undir 2. umr., þannig að henni verði frestað þar til að þeim fundi er lokið einhvern tíma hér á eftir? (Forseti: Ég hygg að það sé tilfellið.) Ég þakka hæstv. forseta fyrir góðar undirtektir við mína málaleitan. Ég treysti því þá að hér verði haldinn fundur sem fjalli um till. sem hér hafa verið lagðar fram, þannig að þingið megi betur glöggva sig á stöðunni og kanna hvort ekki er unnt að ná betra samkomulagi en þegar liggur fyrir.

Eins og ég gat um í fyrri hluta ræðu minnar síðdegis í dag held ég að hér sé komið að einu stærsta máli og örlagaríkasta sem þetta þing hefur fjallað um og ég tel að það sé skylda ríkisstj. sérstaklega og þingheims alls að reyna að leita að sem bestri samstöðu um lausn á svona máli. Ég tel að það hafi ekki verið reynt til þrautar hvort unnt er að ná víðtækari samstöðu í þessu efni og fyrir því skora ég á hv. sjútvn. að taka nú með opnum huga vel í þær sanngjörnu ábendingar sem hér hafa verið settar fram af þm. á tveimur ákveðnum þskj. Ég hef rakið annað þeirra nokkuð rækilega hér í ræðu minni. Ég er ekki að biðja um að sjútvn. verði kölluð saman til þess eins að skella hurðum, það er gagnslaust. Ég er að fara fram á að n. horfi með fullri velvild á þann till.-flutning sem hér er uppi til að stuðla að því að þingið nái sem bestri heildarsamstöðu um þetta mál. Ég tel að það sé höfuðverkefni hverrar ríkisstj., þegar hún stendur frammi fyrir jafnmiklum efnahagslegum örðugleikum og takmörkun auðlindaafrakstursins hefur í för með sér, að reyna að laða menn saman, en ekki að sundra. Í trausti þess að það verði gert vona ég, herra forseti, að sjútvn. starfi að málum hér í kvöld, þannig að við megum síðar fjalla um mál hér varðandi veiðar í fiskveiðilandhelginni sem færi okkur nær samkomulagi en þær till. sem áður lágu fyrir frá hæstv. ríkisstj.