16.12.1983
Neðri deild: 29. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1950 í B-deild Alþingistíðinda. (1662)

128. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Frsm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það frv. sem hér um ræðir er þess efnis að framlengja um eitt ár, þ.e. út árið 1984, lögin um verðjöfnunargjald af raforku, þannig að innheimta verðjöfnunargjald af raforku til ársloka 1984. Upphæð gjaldsins verði áfram 19% og því verði skipt á sama hátt og verið hefur á milli Rafmagnsveitna ríkisins, sem fái 80%, og Orkubús Vestfjarða, sem fái 20%. Í frv. er enn fremur gert ráð fyrir að iðnrh. sé heimilt að endurgreiða Rafveitu Siglufjarðar verðjöfnunargjald sem innheimt er hjá rafveitunni árið 1984.

Þannig hagar til með þetta gjald að það hefur nú verið drýgra en fjárlög hafa gert ráð fyrir og höfum við iðnn.-menn í höndum lista sem ég ætla að lesa, með leyfi forseta:

Á fjárlögum árið 1980 var gert ráð fyrir að þetta gjald gæfi 38.8 millj. kr., en reyndin varð sú að það gaf 44.2. Árið 1981 var gert ráð fyrir að gjaldið gæfi 63 millj. kr., en gaf 66.9. 1982 var gert ráð fyrir að þetta gjald gæfi 90.2, en reyndin varð sú að það gaf 123.7. Í ár var gert ráð fyrir að það gæfi 120 millj., en reyndin virðist ætla að verða sú að það gefi 266 millj.

Það hefur tekist að koma þessum fjármunum í lóg þó að þeir hafi innheimst svona vel. Rekstur RARIK og Orkubúsins er dýr og hafa ekki verið vandræði að koma þessum peningum fyrir. Þó ber þess að geta að raforkureikningar hafa verið nógu háir hjá þessum fyrirtækjum.

Iðnrh. hefur sýnt lofsvert framtak um það að fara ofan í rekstur Rafmagnsveitna ríkisins. Sú athugun er hafin og ber vonandi verulegan árangur. Rafmagnsveitur ríkisins og þau orkudreifingarfyrirtæki sem hér um ræðir eru mjög mikilvæg og veita mjög mikilvæga þjónustu. Iðnrh. hefur gefið um það yfirlýsingu hér við 1. umr. málsins að hann muni á næsta ári leita leiða til að endurskoða lögin um verðjöfnunargjald í því skyni að lækka það eða afnema, enda verði hagur Rafmagnsveitnanna og Orkubúsins yfirleitt tryggður með öðrum hætti. Ég legg áherslu á að við þá endurskoðun verði þess gætt að tryggja sem best sem mestan jöfnuð í orkukostnaði landsmanna. Þeir sem mestan orkukostnað bera geta með engu móti risið undir auknum byrðum. Því er höfuðnauðsyn að létta þær svo sem frekast er kostur og jafna á milli þegnanna í þjóðfélaginu.

Iðnn. Nd. hefur haft þetta mál til meðferðar og skilað nái. á þskj. 233. Hún ræddi málið og fékk til viðræðna Aðalstein Guðjohnsen formann Sambands ísl. rafveitna og Kristján Jónsson framkvæmdastjóra RARIK. Mælir n. með samþykkt frv. án breytinga. Undir þetta skrifa án fyrirvara Páll Pétursson, Hjörleifur Guttormsson, Ingvar Gíslason og Kristín Halldórsdóttir, en með fyrirvara skrifuðu undir Friðrik Sophusson, Birgir Ísl. Gunnarsson og Gunnar G. Schram.