16.12.1983
Neðri deild: 29. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1954 í B-deild Alþingistíðinda. (1667)

128. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Þetta var í áttina hjá hæstv. ráðh. Ég hefði þó kosið að svarið hefði verið afdráttarlausara. En út af seinustu orðum hæstv. ráðh. um aðgerðir til að jafna hitunarkostnað vil ég segja að það minnir á að menn hafa verið nokkuð djarfir við það hér á Alþingi að búa til tekjupósta til handa ríkissjóði eða gjaldtöku á almenning með göfug markmið, sbr. annars vegar þetta verðjöfnunargjald sem við erum nú að ræða og hins vegar það álag á söluskattinn sem átti að fara til að jafna orkukostnað og hitunarkostnað í landinu, en hefur haft tilhneigingu til að skila sér illa til fólksins með tilliti til þeirra markmiða sem menn hafa sett sér. Þess vegna ríður á að þessi mál verði tekin ákveðnum tökum og endurskoðuð í heild sinni og það verði gert strax.