16.12.1983
Neðri deild: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1956 í B-deild Alþingistíðinda. (1674)

Um þingsköp

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það er tæp klukkustund síðan nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. varðandi 129. mál var lagt á borð þm. Þá kemur í ljós að meiri hl. n. hefur lagt fram nýja útreikninga upp á margar síður og nýtt töfluverk varðandi tekju- og eignarskatt. Þegar hæstv. fjmrh. mælti fyrir frv. í síðustu viku fullyrti hæstv. ráðh. og einnig hv. þm. Friðrik Sophusson, sem sæti á í fjh.- og viðskn., að allt það töfluverk sem þá var í frv. væri rétt og eðlilegt og í samræmi við yfirlýsingar hæstv. ráðh. Við ýmsir, sem þá höfðum haft rúman sólarhring til að athuga frv. og töfluverkið, gátum sýnt mönnum fram á að það var nú aldeilis ekki rétt. Þetta var mjög götótt töfluverk.

Ég hef enga ástæðu til að ætla að það töfluverk sem nú er lagt fram sé eitthvað betra en töfluverkið sem var lagt fram þegar frv. var lagt fram (Iðnrh.: Nema síður sé.) Nema síður sé, segir hæstv. iðnrh. og er hann maður gjörkunnugur þessum málum. — Vænti ég þess að hæstv. forseti gefi mönnum a.m.k. sólarhring til að fá að skoða þetta töfluverk og sé alls ekkert að þvælast með málið á dagskrá á þessum sólarhring. (Forseti: Ég sé ekki ástæðu til að hafa langar umr. um þetta, því það er ekki komið að því að þetta mál verði tekið fyrir á þessum fundi. Þó að það standi hér á dagskrá er ekki komið að því enn.)