16.12.1983
Neðri deild: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1959 í B-deild Alþingistíðinda. (1686)

Um þingsköp

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Forseti greindi frá því að hann hefði beitt sér fyrir því í tvígang, trúi ég, að haldinn yrði fundur í sjútvn., en það hefði ekki getað orðið af því. Nú setur forseti fram þá ósk að sá fundur verði haldinn í fyrramálið. Mín spurning er sú: Má ekki treysta því að þá geti orðið af því? Geta menn ekki náð samkomulagi um það?

Í annan stað tók forseti svo til orða, að hann hefði áhuga á að ljúka hér umr. Ég hef í sjálfu sér ekkert við það að athuga, nema það að tíminn líður, að mælendaskrá eins og hún er núna sé tæmd. Ég geri hins vegar alvarlega aths. við það að 2. umr. verði lokið, vegna þess að ég tel nauðsynlegt að það gefist færi á því að greina frá því sem gerist í n. Til þess að það sé unnt verður umr. náttúrlega ekki lokið og atkvgr. skilin eftir. (Iðnrh.: Því má það ekki í þeirri þriðju?) Hæstv. ráðh. Það er verulegur munur á því að kalla aftur till., sem mér skilst að felist í orðum ráðh. Í sambandi við fjárlagaafgreiðslu er það svo efnismikið mál sem er um að ræða. Þeir sem kölluðu aftur till. sína til 3. umr. stæðu frammi fyrir atkvgr. um greinina óbreytta, áður en þeir hefðu fengið tækifæri til að sjá hvernig þeirra till. reiddi af, og í atkvgr. í 2. umr. eru greinarnar afgreiddar. Í þeim störfum sem ég hef kynnst hér á þinginu hafa menn einmitt viðhaft þau vinnubrögð sem hæstv. forseti hefur verið að beita sér fyrir, að mér skilst, með því að gefa tóm í umr. til að n. kæmi saman. Það getur væntanlega orðið samkomulag um hversu mikil ræðuhöld verði eftir að það kemur út úr n. til þess að menn geti greint frá því sem þar gerðist.