16.12.1983
Neðri deild: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1959 í B-deild Alþingistíðinda. (1687)

Um þingsköp

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Fyrr í dag beindi ég þeim tilmælum til hæstv. forseta, sem að vísu var ekki sá sem nú situr í stólnum heldur varaforseti að umr. yrði þá frestað svo að tóm gæfist til þess að menn bæru saman bækur sínar og ráðfærðu sig um hvernig fram skyldi haldið málinu. Eins og hv. þm. muna og frægt er orðið fengu þessi tilmæli mín litlar undirtektir, vægast sagt, og bæði hæstv. þáv. forseti og aðrir beittu sér hatramlega fyrir því að þessari málaleitun var neitað. Þó var hún fram sett af heilum hug og byggð á þeirri reynslu sem undanfarin ár hafa gefið um með hvaða hætti sé vænlegast að vinna að því að hægt sé að ná sæmilegu samkomulagi um framgang mála.

Ég tel að atburðarásin á þeim bráðum átta klukkustundum sem liðnar eru síðan ég bar fram þessa ósk hafi rækilega sannað hve réttmæt og eðlileg og sjálfsögð hún var og hvað það hefði þjónað eðlilegri og betri vinnubrögðum hér í þinginu ef þáv. hæstv. forseti hefði samþykkt hana. Þær átta klukkustundir sem liðnar eru síðan hafa nákvæmlega engu skilað í því að þoka málinu áfram. Þvert á móti hafa þær orðið til þess að festa málið í enn meiri hnút. Ég vil beina því á nýjan leik til hæstv. forseta, að áður en leiðbeiningum og tilmælum af þessu tagi er jafnharðlega neitað af jafnmiklu offorsi og gert var hér í dag af ýmsum og jafneindregið af þáv. forseta hugleiði menn reynsluna af því sem fengist hefur síðan. Mér var alveg ljóst þá, að yrði fram haldið með þeim hætti sem ákveðinn var mundi þetta engum árangri skila, sem og hefur komið á daginn.

Þess vegna vil ég nú á nýjan leik reyna að freista þess að leggja því lið að þetta mál fái þannig farveg hér í þinginu að á því megi taka með eðlilegum hætti. Það má hverjum manni ljóst vera, sem þingvanur er og skoðar málið, að það hangir nákvæmlega saman umræða í sjútvn. um þær brtt. sem hér hafa verið fluttar og framhald 2. umr. málsins. Ég skil það af tilmælum hæstv. forseta í tvígang hér í Nd. að fundur í sjútvn. yrði haldinn að hann hefur skilið þetta samhengi. Það sýnir glöggskyggni hæstv. forseta. En það er hins vegar greinilegt að einhverjir aðrir hér í salnum hafa ekki skilið þetta samhengi og eru enn nú, korter fyrir miðnætti, átta klst. síðan fyrst var bent á þetta hér í þinginu, að reyna að streitast við. Ég vil þess vegna enn á ný beina því til manna að þeir íhugi í rólegheitum hvort ekki sé skynsamlegast að fresta þessari umr. nú og gefa hv. sjútvn., hvort sem það er nóttin eða snemma morguns, tóm til að fjalla eðlilega um þessa brtt. og leita síðan samkomulags við okkur hér í deildinni um meðferð málsins þegar við sjáum hvaða undirtektir það fær.

Þetta var meginerindi mitt hingað upp í ræðustól, herra forseti. Það væri freistandi að segja ýmislegt út af þeirri skemmtilegu ræðu sem hv. þm. Pétur Sigurðsson flutti í stólnum. En ég er alveg tilbúinn að gera einn samning við hv. þm. Pétur Sigurðsson. Hann er sá að ræða jafnlengi við minn ágæta flokksbróður um þetta frv., Garðar Sigurðsson, og hann er reiðubúinn að ræða við sinn flokksbróður, Guðmund H. Garðarsson, um þetta frv. Það vill nú svo til að sá sjálfstæðismaður sem lengst hefur talað í þessum umr. og af mestu viti, því að hv. þm. Pétur Sigurðsson hefur ekki enn þá talað um frv., er hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson. Hann hefur tætt þetta frv. í sundur. Vilji menn leita í smiðju vits í þessum efnum eru fleiri smiðjur í þessum sal en smiðja Garðars Sigurðssonar & co.