16.12.1983
Neðri deild: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1979 í B-deild Alþingistíðinda. (1699)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Klukkuna vantar nú 15 mínútur í 3 að nóttu til. Enn eru margir menn á mælendaskrá og þurfa mikið að leggja inn í þessa umr. (Gripið fram í: Nei, ekki mjög mikið.) Sumir þeirra a.m.k. og mér er kunnugt um að enn eru allnokkrir fyrir utan þessa mælendaskrá sem ætla sér að tala í þessari umr. og hafa ekki notfært sér þann rétt vegna þess að þeir voru að reyna að komast að samkomulagi við hæstv. sjútvrh. við 1. umr. eins og ítarlega er bókað í þeirri umr., en neyttu ekki réttar síns til að tala.

Ég held, herra forseti, að sá fundartími sem nú er, stundarfjórðungur í þrjú, sé lengsti fundartími sem þessi hv. deild hefur haldið í áraraðir. (Sjútvrh.: Nei, nei.) Nei, nei, segir hæstv. sjútvrh. (Gripið fram í: Það var í aprílmánuði núna í vor.) Það var í sameinuðu þingi, hv. þm. (Gripið fram í: Það var í þessum sal.) Það var í þessum sal, já, það gerist nú ýmislegt í þessum sal, en það var ekki í þessari hv. deild. Ef menn rengja það get ég sagt hæstv. forseta og þm. að ég hef óskað eftir því við skrifstofu Alþingis að lögð verði fram skrá núna innan tíðar yfir tímasetningar á lokum funda í þessari hv. deild s.l. 4 ár. Þá geta menn fengið samanburð til að miða við hin eðlilegu vinnubrögð í þinginu.

Ég vil þess vegna fara þess á leit við hæstv. forseta að hann í fyrsta lagi geri grein fyrir því hverjir það eru sem krefjast þess að þessi umr. haldi áfram. Er það ríkisstj.? Er það þingflokkur Sjálfstfl.? Er það þingflokkur Framsfl.? Hverjir eru það sem krefjast þess að þessari umr. sé haldið svona lengi áfram? Ef það eru þingflokkar stjórnarliðsins sem gera það er lágmarkskrafa að þm. þess liðs séu hér í salnum. Ef það er ríkisstj. sem gerir það er lágmarkskrafa að þeir hinir sömu menn séu hér í salnum.

Hæstv. núv. forsrh. ber manna mesta ábyrgð á því hve illa er komið í íslenskum sjávarútvegi og þess vegna er frumkrafa, ef þessi umr. á að halda áfram, að hann sé hér viðstaddur. (Gripið fram í: Hver þá?) Hæstv. forsrh. (HBl: Hann er löngu hættur að vera sjútvrh.) Það er að vísu rétt, en hann er a.m.k. enn þá hið svokallaða höfuð á þessari ríkisstj. þó það virðist nú á köflum vera einna helst líkast kálhausi ef horft er á þær aðgerðir og þau hugverk sem koma út úr því. En það er full alvara. Ef það er krafa ríkisstj. að þessi umr. haldi hér áfram skulu ráðh. vera hér. Ríkisstj. getur ekki gert kröfu til þess að þm. sitji í umr. að nóttu til ef hæstv. ríkisstj. er ekki sjálf í salnum.

Það er brot á öllum siðum og venjum sem hér tíðkast. Ef það eru hins vegar þingflokkar stjórnarliðsins sem krefjast þess er rétt að fram komi hvort það eru þeir báðir eða annar hvor þeirra. Ég óska eftir því að formenn þessara þingflokka, formaður þingflokks Framsfl. verði tilkvaddur hér í salinn — formaður þingflokks Framsóknar er að vísu mættur hér og getur svarað fyrir sig, en ég óska eftir því við hæstv. forseta að hann sjái til þess að formaður þingflokks Sjálfstfl. sé kvaddur hingað í salinn ásamt hæstv. forsrh. (HBl: Ætli varaformaðurinn dugi ekki?) Já, ég gleymdi því nú að vísu og bið afsökunar á því að hv. þm. Halldór Blöndal mun hafa verið kosinn varaformaður þingflokks Sjálfstfl. Af hvaða ástæðum sem það hefur nú verið hefur hann verið kosinn til þess embættis og tekur þá væntanlega til máls hér á eftir og útskýrir hvort það er þingflokkur hans sem gerir kröfu til að þessi umr. haldi áfram.

Herra forseti. Ég hef borið hér fram eftirfarandi spurningar og ég óska eftir því að þeim sé svarað:

1. Hvað hyggst hæstv. forseti halda þessari umr. lengi áfram? Mér er kunnugt um að fyrir utan þá menn sem þegar hafa skráð sig á mælendaskrá — og má geta þess að ég skráði mig á þessa mælendaskrá fyrir um það bil klst. — eru ýmsir sem eiga eftir að skrá sig á hana. Flestir okkar hafa ekki einu sinni talað einu sinni í þessari umr. hvað þá heldur tvisvar, hvað þá heldur talað okkur dauða. Hvað hyggst forseti halda þessari umr. lengi áfram?

2. Er hægt að fá fram frá forsetastóli upplýsingar um það hvað fundir í þessari hv. deild hafa staðið lengi fram yfir miðnætti, hve margir og hve lengi á undanförnum fjórum árum?

3. Er það skv. kröfu hæstv. ríkisstj. sem þessum fundi er haldið svona áfram og þessi vinnubrögð eru tíðkuð hér eða er það skv. kröfu þingflokka Sjálfstfl. og Framsfl.?

Og svo að lokum, herra forseti, vil ég segja þetta um vinnubrögð hæstv. sjútvrh. í þessari umr.: Hann hefur hvað eftir annað komið hér í stólinn heilagur á svipinn og sagst ætla að stuðla að þessum umr. með því að svara þeim spurningum sem til hans er beint. Hann gerði það

við 1. umr. Svo kom hann upp í 2. umr. og svaraði litlu. Þegar á hann var gengið með það lýsti hæstv. ráðh. því yfir að hann vildi svara þeim spurningum sem til hans hefði verið beint í þessari umr. Til hæstv. ráðh. hefur verið beint fjöldanum öllum af spurningum í þessari umr. í kvöld og nótt. Hann hefur ekki komið hér upp í stólinn enn til að svara neinni af þessum spurningum. Þess vegna væri fróðlegt að fá það upp hvort hæstv. ráðh. ætlar ekki að gera það og hvenær hann hyggst þá gera það svo að þm. hafi möguleika til að taka til máls eftir að þeir hafa hlýtt á svör hæstv. ráðh.