16.12.1983
Neðri deild: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1981 í B-deild Alþingistíðinda. (1702)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Páll Pétursson:

Herra forseti. Til að gera langa sögu stutta var lagður fram listi frá ríkisstj. Á honum voru nokkur mál sem enginn gerði aths. við að væru forgangsmál, nokkur mál sem stjórnarandstaðan sýndi vissar efasemdir á að afgreiða og tvö mál sem stjórnarandstaðan tók dauflega undir að afgreiða fyrir jólahlé. Eitt af þeim málum sem allir formenn þingflokka voru sammála um að þyrfti að ná afgreiðslu áður en jólaleyfi hæfist voru veiðar í fiskveiðilandhelgi. Enginn ágreiningur var um að það mál þyrfti að eiga eðlilega og greiða leið í gegnum þingið. Ég styð þá ákvörðun forseta að ljúka þessari umr. í kvöld og nóttin er enn þá ung og okkur ekkert að vanbúnaði að sitja hér um tíma. En mér lánaðist að gera vísu meðan síðasti ræðumaður var í stólnum og ég ætla að lofa þeim sem hér sitja í deild að heyra hana. Vísan er svona:

Indælis drengur Óli,

ekki með tunguhaft.

Rogginn í ræðustóli

rífur sinn stólpakjaft.