16.12.1983
Neðri deild: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1995 í B-deild Alþingistíðinda. (1704)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Forseti (Ingvar Gíslason):

Vegna þessara orða hv. þm. vil ég taka það fram að það er auðvitað enginn óskatími hjá forseta þessarar deildar að halda svona langan fund nú. Hins vegar er það mat forseta að deildin sé nú orðin svo aðþrengd um tíma, miðað við það mark sem við höfum sett okkur og menn setja sér í þessari lotu fyrir jól, að það sé nauðsynlegt að halda þennan fund og drífa hann áfram á þann hátt sem hér hefur verið gert, þó að ég taki enn fram að það er engin óskastund — enginn óskatími hjá mér að þurfa að halda hér fundi á þessum tíma. En sem sagt, mitt mat er það, að vegna þess hversu aðþrengd deildin er um tíma sé nauðsynlegt að halda þessa fundi; og þennan fund sérstaklega þó langur sé, og þess vegna skorar forseti á þdm. að virða þetta mat forseta.

Hitt er annað mál, að forseti er tilbúinn til þess að ræða þetta nánar hvernig og hvenær þessari umr. megi ljúka. Vonandi gefst tími til frekari umr. um það. Hvað varðar þessa skýrslu sein hér er, þá segir hún að sjálfsögðu sína sögu. Hins vegar er ekki þar með sagt að hún sé nein sönnun fyrir því, að það sé endilega óþarfi nú að halda svo langan fund. Ég hygg nú að ef horft er lengra aftur þá megi finna þess mörg dæmi að þingfundir hafi staðið hér nokkuð lengi fram eftir nóttu, og sjálfur minnist ég þess, eftir að hafa setið alllengi á þingi, að svo hefur verið. Ég hef sjálfur tekið þátt í slíkum umr. En ég vil ekki fara að deila mikið um þetta. Ég get fatlist á það að þetta sé óheppilegur fundartími og sjálfsagt er að ræða nánar um það hvort ekki sé hægt að finna einhverja leið út úr því.