16.12.1983
Neðri deild: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1995 í B-deild Alþingistíðinda. (1705)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég sé ekkert að því að ræða málin gaumgæfilega. Það er auðvitað sjálfsagt. En ég minnist þess núna að á því sama ári sem nú er að liða vorum við hér viðstaddir mjög langan fund, líklegast einhvern tíma í mars. Það var verið að ræða merkilegan málm og umsvif í kringum hann, og það voru einmitt þeir sömu aðilar sem hér eru núna svo duglegir að greiða fyrir framgangi mála, eins og þeir orða það sjálfir, og er rétt að orða það á jafnkurteislegan hátt og þeir gera, þá vorum við hér til kl. a.m.k. hálffimm að reyna að halda uppi svokölluðu mátþófi, þó að það heiti í munni sumra, eins og sagt var hér í dag, að vinna að því að greiða fyrir framgangi þessarar umr. Og það meira að segja menn sem hafa sagt það á þessum sama degi að þeir mundu ekki standa fyrir málþófi í þessu máli. (Gripið fram í: Hér er ekkert málþóf.) Nei, það er ekki málþóf. Ef menn kalla þetta ekki málþóf, þá veit ég ekki hvaða orð þeir nota yfir það. Þetta er auðvitað málþóf og ekkert annað og gert til þess að reyna að eyðileggja málið. En ég er ekkert að finna að því. Menn ráða því auðvitað sjálfir.

En ég vil nefna það að hér hefur verið haldið fram rangri fullyrðingu, að hv. sjútvn. hafi ekki reynt að ná samkomulagi um málið. Það var reynt til þrautar á fundi n. nú klukkan að ganga eitt og boðið upp á ýmsa möguleika í þeim efnum. En þessir aðilar, sem hér tala svo, buðu aðeins upp á það samkomulag að gengið yrði að þeirra kröfum. Maður kannast við slíkt vinnulag af hálfu sumra þessara herramanna.