16.12.1983
Neðri deild: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2016 í B-deild Alþingistíðinda. (1709)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Umr. þessi er orðin alllöng og ítarleg. Margar spurningar hafa verið bornar fram, margar ábendingar hafa komið fram og margar till. hafa verið gerðar. Sjútvn. hefur haft málamyndameðferð á þessum till., ekki sinnt þeim í neinu, ábendingar hafa enn ekki fundið hljómgrunn að því er virðist hjá þeim mönnum sem nú hafa valdið í þessum efnum og meiri hl. hér á Alþingi og spurningum hefur ekki verið svarað sem skyldi. Þetta er slæmt. Þetta eru afleit vinnubrögð vegna þess að hér er verið að takast á um grundvallaratriði í stjórnskipun íslenska þjóðfélagsins. Mér finnst að hver svo sem ábyrgðina ber hafi þá skyldu að svara heiðarlegum spurningum sem fram eru bornar vegna þess að stjórnarandstaða á líka sinn lýðræðislega rétt. Það kann ekki góðri lukku að stýra að láta sem stjórnarandstaða sé ekki til. Slíkt hugarfar ber í rauninni vott um virðingarleysi gagnvart lýðræðinu sem er ákaflega alvarlegt mál.

Vegna þess hins vegar, herra forseti, að ekki hefur enn tekist að slíta út svör við þeim spurningum sem bornar hafa verið upp og vegna þess að nú er nokkuð gengið á sjöunda tímann og hér hefur verið haldinn lengsti næturfundur í Nd. í fjögur ár og vegna þess að greinilegt er að stjórnarliðið ætlar að halda hér uppteknum hætti — (Gripið fram í: Lengsti fundur í tíu ár.) — þá vil ég skora á hæstv. sjútvrh. hér og nú að gangast undir það að hann þegar í upphafi 3. umr. á morgun eða á eftir öllu heldur — svari sem skilmerkilegast þeim spurningum sem hér hafa verið bornar fram af mörgum hv. þm., skætingslaust vona ég og heiðarlega. Það eru spurningar sem eru bornar fram vegna þess að menn eiga rétt á svari. Þessari áskorun beini ég til hæstv. sjútvrh. í fullri alvöru.