17.12.1983
Efri deild: 35. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2018 í B-deild Alþingistíðinda. (1713)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Frsm. meiri hl. (Eiður Guðnason):

Virðulegi forseti. Meiri hl. fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar hefur skilað áliti um þetta mál og mælir með að það frv. verði samþykkt sem hér um ræðir. Raunar hafa þau mistök orðið, sé ég núna, við nál. að ekki kemur fram í nál. afstaða meiri hl. Hv. þm. Skúla Alexanderssyni finnst það sjálfsagt leiðinlegt og hann getur þá líklega gert grein fyrir því hér á eftir af alkunnri hæversku. En af hálfu meiri hl. fjh.- og viðskn. vil ég greina frá því að nefndin fékk fulltrúa byggingarnefndar flugstöðvarinnar á sinn fund og þeir skýrðu málið og svöruðu þeim spurningum sem fyrir þá voru lagðar. Meiri hl. mælir sem sagt með því að frv. verði samþykkt.

Þetta mál hefur valdið miklum umr. hér, ekki bara á þessu ári heldur um margra ára skeið. Það hefur oft verið nefnt að sú aðstaða sem er fyrir hendi í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli er ekki aðeins gersamlega ófullnægjandi heldur hefur hún verið það um langt árabil. Þetta er ekki aðeins það fyrsta sem erlendir gestir sjá þegar þeir koma hingað til lands heldur má með nokkrum sanni segja að þetta sé eins konar andlit landsins út á við. Mönnum kann e.t.v. að finnast það næsta léttvæg röksemd en skiptir þó máli samt.

Hitt er svo meginatriði að með byggingu nýrrar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli er hægt að skilja með öllu að varnarliðið annars vegar og hið venjulega farþegaflug hins vegar. Einhverra hluta vegna hefur sú staðreynd alla tíð verið eitur í beinum þeirra Alþb.manna. Það er ekki auðvelt að sjá skýringar á því, en þeir hafa aldrei mátt til þess hugsa að þarna yrði skilið á milli eins og auðvitað hefði átt að vera frá upphafi. En með þessari nýju byggingu verður það sem sagt gert og ég hygg að velflestir muni fagna því.

En það eru önnur rök sem mér finnst þung á metunum og veigamikil varðandi byggingu nýrrar flugstöðvar. Það er í fyrsta lagi að núverandi flugstöð er gamall timburhjallur sem gæti brunnið til kaldra kola á stuttri stund ef illa færi. Kannske er það nábýlið við hið rómaða slökkvilið á Keflavíkurflugvelli og traust eldvarnaeftirlit sem þar er sem hefur bjargað því að þarna hafa ekki orðið óhöpp af þessu tagi, sem betur fer. En eins mikið og við eigum undir flugsamgöngum og flugflutningum væri það alvarlegt áfall, að ekki sé sterkara til orða tekið, ef þarna yrði eitthvert óhapp af þessu tagi. Inni í þessu húsi eru oft 400, 500, 600 manns í senn og sú aðstaða sem þarna er samræmist í engu þeim öryggiskröfum sem skylt er að gera og hljóta að vega þungt í þessu máli.

Annað er það að flugstöðin á Keflavíkurflugvelli er stór vinnustaður, einn stærsti vinnustaður á suðurnesjum, og aðbúð og aðbúnaður starfsfólks í þessari byggingu er fyrir neðan allar hellur. Hið sama gildir auðvitað um aðstöðu fyrir farþega sem fara þarna um. Ég veit ekki hvort menn hafa komið inn í þetta hús að vetrarlagi þegar hafa verið snjóþyngsli og komin er asahláka. Þar er á gólfum fata við fötu, dallur við dall vegna þess að byggingin er öll hriplek.

Það mætti tíunda mörg fleiri rök fyrir þessu máli en þeir sem gagnrýna þessa framkvæmd nú segja sem svo að nú sé ekki rétti tíminn til að ráðast í þessa framkvæmd. Það er sjálfsagt hægt að styðja það ýmsum rökum, en ég hygg að þeir sem eru á móti þessari byggingu í sjálfu sér muni ævinlega geta notað þau rök að nú sé ekki rétti tíminn.

Það er vissulega rétt að ekki árar björgulega til svona framkvæmda núna, á það skal fallist. Hins vegar eru öllum kunn þau rök sem vega þungt í því að ráðist er í þetta núna. Ég býst við að seint væri svo rúmt um fé og lánsheimildir í íslensku efnahagslífi að þeir sem gagnrýna þessa byggingu teldu kleift að ráðast í hana.

Ég hef einn fyrirvara varðandi minn stuðning við þetta mál og treysti því að tekið verði tillit til hans og veit raunar að aðrir nm. muni geta tekið undir hann. Það er sú staðreynd að að undanförnu hefur það reynst svo varðandi útboð á verklegum framkvæmdum að kostnaðaráætlanir hafa allajafna reynst verulega miklu hærri en raunveruleg einingaverð þegar tilboð hafa legið fyrir. Ég held að ástæða sé til að ætla að svo muni einnig verða í þessu tilviki að raunverulegur kostnaður verði töluvert minni en þær áætlanir sem nú liggja fyrir gefa til kynna. Þess vegna legg ég þunga áherslu á að varðandi lántökur til þessarar framkvæmdar verði gætt ýtrustu varkárni og ekki gengið lengra en brýnasta nauðsyn krefur.

Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að hafa um þetta öllu fleiri orð, en að sjálfsögðu mætti margt frekar um þetta segja. Einhverjum kann að þykja það skjóta svolítið skökku við að stjórnarandstæðingur skuli mæla fyrir þessu nál. varðandi þetta stjórnarfrv. En Alþfl. studdi þetta mál frá upphafi. Utanrrh. Alþfl. á sínum tíma, Benedikt Gröndal, vann að framgangi þess og að sjálfsögðu skiptum við ekki um skoðun á svona málum eftir því hver situr í stjórn hverju sinni.