17.12.1983
Efri deild: 35. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2019 í B-deild Alþingistíðinda. (1714)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Frsm. minni hl. (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið skiptist fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar í afstöðu sinni til frv. til l. um lántöku o.fl. vegna byggingar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli. Minni hl. hefur lagt fram álit sitt á þskj. 241 og er það svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Undirritaðir nm. eru andvígir byggingu umræddrar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli vegna þess að byggingin tengist óneitanlega hernaðarumsvifum hér á landi og er auk þess langtum of stór og dýr miðað við þarfir farþegaflugs milli Íslands og annarra landa. Jafnframt teljum við að bygging nýrrar flugstöðvar sé ekki forgangsverkefni eins og nú háttar í efnahagsmálum þjóðarinnar. Þess í stað sé það næsta verkefnið í máli þessu að endurskoða og hanna byggingu nýrrar flugstöðvar í samræmi við þarfir farþegaflugs á komandi árum. Við erum þar af leiðandi andvíg ákvæðum þessa frv. og leggjum til að það verði fellt.

Stefán Benediktsson, áheyrnarfulltrúi BJ í n., stendur einnig að þessu nál.“ Undir þetta skrifar auk mín Ragnar Arnalds.

Eins og hér kemur fram er minni hl. n. andvígur því frv. sem hér liggur fyrir af tvennum ástæðum. Annars vegar vegna þess að bygging sú sem hér um ræðir tengist óhjákvæmilega hernaðarviðbúnaði hér á landi. Eins og segir í grg. með frv. er flugstöð þessi reist í samvinnu við Bandaríkjastjórn og hafa Bandaríkin leyfi til að nota hana á hættu- og ófriðartímum.

Í fyrsta lagi er vart til sóma fyrir sjálfstæða þjóð að standa ekki óstudd að sínum byggingarframkvæmdum hverjar svo sem þær eru og er það ein ástæða þess að við setjum okkur á móti byggingu flugstöðvar með þeim hætti sem hér um ræðir. Í öðru lagi hlýtur þessi bygging að teljast til aukinna hernaðarumsvifa hér á landi því hún telst hernaðarmannvirki um leið og hættuástand myndast sem ekki er nánar skilgreint í grg. með frv. né annars staðar í þeim gögnum sem fram hafa verið lögð í þessu máli. Auknum hernaðarumsvifum, af hvaða tagi sem eru, er minni ht. n. eindregið andvígur. Í raun má líta svo á að á meðan veröldin hefur innanborðs gereyðingarvopn á borð við kjarnorkuvopn séu allar hernaðarframkvæmdir tengdar þeim á einn eða annan hátt. Vígbúnaður heimsins, hvaða nöfnum sem hann nefnist, er ekki í aðskiljanlegum einingum heldur tengdur innbyrðis á margvíslegan máta. Umrædd flugstöð á Keflavíkurflugvelli er liður í þessari vígbúnaðarkeðju þótt lítill liður sé og það er ein ástæða þess að ég er eindregið á móti byggingu hennar með þeim hætti sem fyrirhugaður er.

Í annan stað telur minni hl. fjh.- og viðskn. að bygging nýrrar flugstöðvar sé ekki forgangsverkefni eins og nú háttar í efnahagsmálum þjóðarinnar. Því er ekki á móti mælt að núverandi flugstöð á Keflavíkurflugvelli þarf að endurnýja og það um leið og efni leyfa. En á meðan íslenska þjóðin hefur t.d. ekki efni á að byggja hús yfir bækur sínar, yfir menningarverðmæti þessa lands, tel ég að ,hún hafi heldur ekki efni á að byggja hús yfir flug á milli landa. Í rauninni er bygging þessarar flugstöðvar í hróplegu ósamræmi við þau skilaboð sem ríkisstj. annars leitast við að koma til þjóðarinnar. Fólkinu í landinu er sagt að engir peningar séu til, allir verði að spara.

Um daginn var frv. til l. um launamát, sem kveður á um gífurlega launaskerðingu landsmanna, samþykkt í þessari hv. d. sem lög frá Alþingi. Nú, 14 dögum síðar, stöndum við hér enn og í þetta skipti erum við beðin um að veita ríkisstj. heimild til að taka allt að 616 millj. kr. erlend lán, ekki til að rétta við fjárhag þjóðarinnar, stöðu atvinnuveganna eða til að hjálpa þeim sem eru hjálpar þurfi, heldur til að reisa íburðarmikið anddyri framan við þjóðarheimilið. Hvernig á fólk almennt að trúa þessari ríkisstj. á meðan slíkt misræmi er á milli gerða hennar og raun ber hér vitni? Hvernig er hægt að trúa því að ekki séu til peningar fyrir brauði á meðan hægt er að útvega peninga fyrir byggingu sem þessa? Og hvernig er hægt að trúa því að núverandi ríkisstj. vilji ekki auka erlendar lántökur á meðan hún er tilbúin að taka slík lán svo hundruðum milljóna skiptir í gersamlega óarðbært fyrirtæki?

Hér er þvílík sýndarmennska á ferðinni að mínum dómi að út yfir tekur og minnir í rauninni óneitanlega nokkuð áþreifanlega á þær blekkingar sem tíðkast við gerð kvikmynda. Reist er fögur framhlið á húsið en aftan við hana er allt í rusli og drasl, í okkar tilfelli eymd og volæði. Slíkar blekkingar koma ekki að sök í kvikmyndum, hæstv. fjmrh., en þær eru alvarlegt mál í raunveruleika daglegs lífs, þær eru alvarlegt mál fyrir fólkið í landinu.

Í umræðunni um fjárlög næsta árs á Alþingi fyrir tveimur dögum kom fram að tekjur ríkisins eru hvorki álitnar duga til að standa straum af nauðsynlegri uppbyggingu á hinum ýmsu atvinnusviðum né til að framfylgja ákvæðum gildandi laga í hinum ýmsu málaflokkum. Í 2. gr. þess frv. sem hér liggur fyrir er hins vegar verið að rýra þær tekjur sem ríkið gæti haft af framkvæmd eins og byggingu flugstöðvar, en í gr. er kveðið á um niðurfellingu aðflutningsgjalda, vörugjalds og söluskatts af vélum, tækjum og búnaði til framkvæmdanna. Hér skýtur óneitanlega skökku við miðað við stöðu ríkisfjármála. Hvernig höfum við í rauninni efni á þessu? Þar að auki bendir allt til þess að niðurfelling þessara gjalda hafi þau áhrif á atvinnusviðinu að rýra samkeppnisaðstöðu Íslendinga gagnvart tilboðum erlendis frá því að íslenskir verktakar hafa þegar greitt umrædd gjöld af þeim búnaði sem þeir eiga og það hlýtur að koma inn í þeirra kostnaðarverð.

Af öllum þeim ástæðum sem ég hef nefnt er minni hl. fjh.- og viðskn. eindregið á móti því frv. sem hér liggur fyrir og leggur til að það verði fellt.