17.12.1983
Efri deild: 35. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2022 í B-deild Alþingistíðinda. (1716)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Það hefur oft áður komið fram að flokkur minn, Alþb. er þess eindregið hvetjandi að stefnt sé að því að byggð verði ný flugstöð á Keflavíkurflugvelli. Spurningin er hins vegar ósköp einfaldlega þessi: Hvers konar flugstöð á að byggja á þessum stað, hversu stór á hún að vera, á hún að vera eingöngu til nota fyrir farþegaflutninga og vöruflutninga milli Íslands og annarra landa eða á hún að vera að einhverju leyti í þágu bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli?

Hv. þm. Eiður Guðnason flutti framsöguræðu fyrir þessu máli áðan. Í hans máli var ekki margt annað að finna en þær staðreyndir sem hann lagði áherslu á, að flugstöðin væri of lítil og hún væri meira að segja svo lek að það þyrfti að nota margar fötur ef rigndi og þar að auki gæti hún brunnið. (TÁ: Eins og Arnarhvoll?) Já, það er rétt hjá hv. þm. Tómasi Árnasyni. Þetta er víst ekki eina byggingin á landinu þar sem bregða þarf upp fötum þegar rignir. Jafnvel stjórnarráðshúsið við Arnarhól er á þann veg gert að þar getur lekið vatn. Það er sem sagt víða pottur brotinn. Og þó að stöðin sé gerð úr viði að verulegu leyti er rétt að taka fram að að sögn kunnugra er ekki um beina lífshættu að ræða fyrir það fólk sem þarna starfar einfaldlega vegna þess að viðurinn er að verulegu leyti eldvarinn og byggingin öll á einni hæð með stórum gluggum og útgöngudyrum þannig að menn komast nokkuð auðveldlega út úr byggingunni ef eldur kemur upp og slökkvilið í næsta húsi. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að ýmsir forráðamenn flugmála hafa verið sammála okkur Alþb.-mönnum um að þetta væri vissulega eitt af verkefnum framtíðarinnar en alls ekki það allra brýnasta, alls ekki það sem kallaði meira á en öll önnur verkefni á sviði íslenskra þjóðmála.

Hér koma tveir menn upp og mæla fyrir þessu máli ósköp einfaldlega með því að spyrja: Er forsvaranlegt að hafa flugstöð á Keflavíkurflugvelli í því standi sem hún er? Ég spyr á móti: Telja þessir menn forsvaranlegt að það skuli vera flugvellir víðs vegar um land þar sem engin flugstöð er, ekki nokkur einasta flugstöð, bara himinninn einn sem yfir mönnum er? Telja menn forsvaranlegt að hér séu víða um land flugvellir sem eru ekkert annað en möl og skítur þannig að flugvélarnar sökkva ofan í flugvellina oftar en einu sinni á hverju ári og jafnvel ýmsir sem verða fyrir sömu reynslu og ég að þurfa stundum að ýta á eftir flugvélinni sem þeir eiga að vera farþegar í til að hún komist upp úr drullunni? (Gripið fram í: Hvar var það?) Það var á flugvellinum á Blönduósi sem það gerðist að ég ýtti á eftir flugvélinni sem ég ætlaði að ferðast með til Reykjavíkur og ég hygg að margir hafi orðið fyrir sömu lífsreynslu. (Gripið fram í: Fórst þú með henni?) Ég hoppaði svo í vélina og komst suður.

En þetta sýnir að víða er pottur brotinn, þetta sýnir að það er ósköp billegt að standa upp á Alþingi og segja: Er forsvaranlegt að hafa hlutina svona, er forsvaranlegt að hafa þá hinsegin? Ég spyr hv. þm.: Er það í raun og veru forsvaranlegt að aðalþjóðvegurinn milli Reykjavíkur og Akureyrar eða milli Reykjavíkur og Egilsstaða skuli ekki vera lagður varanlegu slitlagi, er það forsvaranlegt í nútíma þjóðfélagi? Og ættum við ekki að skammast okkar fyrir það við Íslendingar að vegakerfi landsmanna skuli ekki vera í betra ástandi en það er? Jú, auðvitað eigum við að skammast okkar fyrir það og auðvitað er það ekki forsvaranlegt. (EG: Kannske einkum þeir sem hafa verið samgrh. og fjmrh.) Já, vissulega getum við allir harmað það að ekki skuli hafa verið gerð meiri átök á sviði samgöngumála en gerð hafa verið. Fleiri bera víst ábyrgðina en þeir sem hafa haft ráðherranafnbót. En staðreyndin hefur bara ósköp einfaldlega verið sú að við höfum ekki talið okkur aflögufærari en þetta. Þegar svo kemur að því að eyða 600 millj. kr. á einu bretti hljóta menn að spyrja: Er alveg ótvírætt að það sé þetta sem verður að hafa forgang umfram alla flugvellina sem ekki hafa varanlegt slitlag, umfram staðina þar sem engin flugstöð er og umfram vegina í kringum landið sem eru lagðir möl? Það þýðir sem sagt ekki, eins og hv. þm. Eiður Guðnason gerði áðan, að koma upp og segja: Sjáið þið bara þessa byggingu, hún lekur og hún er of lítil. Er ekki augljóst mál að við verðum að byggja þessa flugstöð? Og segir síðan ekki eitt einasta orð um hvers konar flugstöð sé þá rétt að byggja og hvort öruggt sé að þetta sé hin rétta flugstöð sem við þurfum á að halda, hvort stærðin sé hin rétta og hvort samstarfið við Bandaríkjamenn í þessum efnum sé eðlilegt undir ríkjandi kringumstæðum.

Þetta er kjarni þessa máls. Við Alþb.-menn höfum verið andvígir því að byggð yrði flugstöð sem væri allt of stór fyrir millilandaflugið og miklu dýrari, miklu þyngri baggi á herðum íslenskra skattgreiðenda en þörf væri á. Við höfum alveg sérstaklega varað við því að blandað væri saman hernaðarhagsmunum Bandaríkjamanna og þörfum Íslendinga fyrir nýja flugstöð.

En það hefur gerst eftir að þessi ríkisstj. var mynduð að ákveðið hefur verið að ráðast í flugstöðvarbyggingu í samræmi við áform sem urðu fyrst til í ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar fyrir rúmum fimm árum en hafa fram undir þetta ekki orðið að veruleika vegna aðildar Alþb. að ríkisstj. Það sem við Alþb.-menn höfum að athuga við þennan samning er þetta: Í fyrsta lagi er mikil óvissa enn ríkjandi um millilendingar á Íslandi í Atlantshafsflugi og okkur þætti skynsamlegra að skýrar lægi fyrir hver þróunin verður í millilandafluginu á næstu árum áður en endanleg ákvörðun verður tekin í þessu máli. Okkur þykir líklegt að hér sé verið að byggja allt of stóra flugstöð enda vitað að hún er stærri en flugstöðvar í ýmsum stórborgum Evrópu þar sem farþegafjöldi er margfatt meiri.

Við bendum líka á að þrátt fyrir yfirlýsta kostnaðar hlutdeild Bandaríkjamanna er sá kostnaður sem fellur á íslenska skattgreiðendur gífurlega mikill, eða um 600– 700 millj. kr. Með tilliti til þess sem ég sagði áðan, þegar ég ræddi um þarfirnar á íslenskum flugvöllum víðs vegar um land, er kannske rétt að hafa í huga að þessi upphæð, sem öll verður greidd úr vasa íslenskra skattgreiðenda, er 12–13 sinnum hærri en sú fjárhæð sem varið er til öryggistækja á íslenskum flugvöllum og til byggingar flugvalla hér á landi á komandi ári skv. því fjárlagafrv. sem nú er til lokaafgreiðslu á Alþingi.

Eða svo annað dæmi sé nefnt, að fyrir þá upphæð sem hér á að verja til byggingar flugstöðvar mætti ekki aðeins leggja slitlag á aðalþjóðvegi heldur byggja þá upp frá grunni, vegalengd sem nemur 600–700 km, þ.e. álíka vegalengd og héðan og austur í Egilsstaði. Sjá þá allir að miðað við þær framkvæmdir sem áformaðar eru á næstu árum í lagningu slitlags og miðað við það sem þegar hefur verið gert mundi upphæðin sennilega nægja nokkurn veginn til að ljúka við hringveginn og koma slitlagi á hann allan, jafnvel til nokkurs meira.

Í þriðja lagi er rétt að benda á að þessi ákvörðun um byggingu flugstöðvar er ekki tekin á þessum vikum, það er ekki verið að taka hana núna með samþykkt þessa frv. Þessi ákvörðun var tekin í sumar af núv. ríkisstj. án þess að Alþingi væri kallað saman. Utanrrh. undirritaði í júnímánuði s.l. bindandi samkomulag við Bandaríkjamenn um að Íslendingar legðu fram þessa upphæð, 600–700 millj. kr., og þessi ákvörðun var tekin af utanrrh. og af ríkisstj. án þess að Alþingi fengi nokkurt tækifæri til að fjalla um stærð stöðvarinnar eða fjármögnun framkvæmda.

Ég vil minna á í þessu sambandi að þegar málið var til umræðu í utanrmn. hinn 5. júlí s.l. óskaði ég eftir því að utanrrh. legði fram sundurliðaða kostnaðaráætlun á fundi nefndarinnar um þá framkvæmd sem hann var í þann veginn að taka ákvörðun um og skuldbinda þjóðina til að taka þátt í. En hann treysti sér ekki til að leggja þau plögg fram og taldi að þau væru ekki fyrir hendi. Hann gat heldur ekki á þessari stundu gefið þjóðinni eða utanrmn. upplýsingar um hönnun byggingarinnar eða hönnunarforsendur. Samt sem áður liðu aðeins tveir tímar frá því að þessi fundur utanrmn. var haldinn þar til utanrrh. undirritaði bindandi samkomulag við Bandaríkjastjórn um að Íslendingar legðu fram þessar 600–700 millj. kr. í byggingu flugstöðvar. Ég tek það skýrt fram að hér var ekki um að ræða samkomulag undirritað með fyrirvara um samþykki Alþingis eins og oft er í slíkum tilvikum, þetta var endanleg skuldbinding af hálfu íslensku þjóðarinnar. Og því segi ég að það er eitt það furðulegasta í máli þessu að við erum ekki nú hér á Alþingi að taka ákvörðun um að gera þetta, þ.e. að leggja fram þetta fé, með samþykkt þessa frv. því að utanrrh. er þegar búinn að undirrita skuldbindandi samning við Bandaríkjastjórn þessa efnis, gerði það hinn 5. júlí s.l. Alþingi stendur því núna ósköp einfaldlega frammi fyrir gerðum hlut og er skv. þessum milliríkjasamningi nauðbeygt að leggja fram þetta fé. Engu að síður tel ég sjálfsagt að greiða atkv. gegn þessu frv. miðað við alla forsögu þessa máls og eðli þess.

Í þessu sambandi er rétt að rifja upp að þegar utanrrh. var beðinn um að leggja fram sundurliðaða kostnaðaráætlun vegna byggingar flugstöðvar og að skýra hönnunarforsendur vegna byggingarinnar og hann neitaði hvoru tveggja, þá var hann beðinn um að fresta fundinum þannig að hann gæti lagt fram þessar upplýsingar á nýjum fundi, en hann neitaði því líka. Nefndin samþykkti undir forustu formanns Alþfl., sem stýrði þessum fundi, — það gekk auðvitað ekki hnífurinn á milli formanns Alþfl. og formanns Sjálfstfl. í þessu máli — að ástæðulaust væri að fresta fundinum og því var samningurinn við Bandaríkjamenn undirritaður aðeins tveimur tímum síðar.

Ég álít að þessi framkoma ríkisstj., hæstv. utanrrh. og raunar formanns Alþfl. — því hans framkoma var ekkert skárri — sé nokkuð einstæð í íslenskri sögu. Ég segi nokkuð einstæð vegna þess að sjálfsagt má finna örfá hliðstæð tilvik sem snerta sögu hernaðarhagsmuna Bandaríkjamanna hér á landi, en fara verður nokkur ár aftur í tímann til að finna hliðstæð dæmi.

Ég hef hér gert grein fyrir því að við Alþb.-menn teljum óvissu ríkja um heppilegustu stærð þessarar stöðvar og vekjum athygli á hversu gífurlega há þessi fjárhæð er sem leggst á íslenska skattgreiðendur á næstu árum en verður öll tekin að láni til bráðabirgða. Kemur því ekki í hlut núverandi fjmrh. eða þessarar ríkisstj. að afla þess fjár með raunverulegum hætti, heldur verður þetta tekið að láni og lagt í hendur komandi ríkisstjórnum að útvega fé frá skattgreiðendum til að borga þennan víxil.

Ég hef einnig bent á að sagan um það hvernig samningur þessi var gerður er nokkuð einstæð og auðvitað þeim til háborinnar skammar sem að honum stóðu. Enda var það löðrungur í andlit Alþingis að utanrmn. skyldi neita um allar upplýsingar um málið áður en það var afgreitt. Raunar á ekki að afgreiða mál af þessu tagi, þar sem um er að ræða endanlega skuldbindingu Íslendinga gagnvart annarri þjóð, öðruvísi en að Alþingi sé áður búið að fjalla um málið og fá tækifæri til að skoða allar hönnunarforsendur og afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru.

Ég vek á því athygli í þessu sambandi að þegar málið kemur nú til Alþingis er ekki orð að finna í þessu frv. um það hvers konar flugstöð eigi að reisa á Keflavíkurflugvelli, hversu stór hún er og hvað annað þar er um að ræða. Auðvitað hefði verið lágmark að í þessu frv. hefði verið ítarleg grg. um þá stöð sem hér er um að ræða, en eins og menn sjá af frv. er þar um athugasemdir og upplýsingar að ræða sem komið er fyrir á rúmlega einni síðu.

Ég vil leyfa mér að fullyrða að lagalega séð er ekki aðeins um mjög hæpin vinnubrögð að ræða í þessu máli, heldur sé hér líka verið að gera ein stærstu fjárfestingarmistök sem gerð hafa verið hér á landi. Staðreyndin er auðvitað sú að mannvirkið sjálft mun aðeins standa undir broti af líklegum rekstrarkostnaði stöðvarinnar. Allt framlag Íslendinga verður tekið að láni erlendis á háum vöxtum á þeim tíma þegar brýnast er að Íslendingar takmarki erlendar lántökur eins og nokkur kostur er.

Ég vil minna á að almennt hefur verið gildandi, þó að það gildi ekki eftir að þessi ríkisstj. tók við, að erlend lán hafi ekki verið tekin til annarra framkvæmda en þeirra sem geta staðið undir greiðslu afborgana og vaxta af viðkomandi lánum. Það heyrir t.d. til algerra undantekninga að tekin hafi verið erlend lán til vegagerðar. Fyrst og fremst hafa það verið lán Framkvæmdasjóðs sem hafa verið endurlánuð Vegagerðinni sem hafa verið erlend lán, en þau eru aðeins brot af vegagerðarkostnaði í heild. Reynt hefur verið að gæta þess að erlend lán væru fyrst og fremst tekin í þágu stofnana og fyrirtækja á vegum ríkisins sem gætu sjálf staðið undir greiðslu afborgana og vaxta af þessum lánum fyrr eða síðar. Ég segi að vísu ekki að þetta hafi verið undantekningarlaus regla en þetta hefur verið meginreglan og ég gæti mjög auðveldlega sýnt fram á hvernig þetta hefur verið framkvæmt undanfarin ár. Ég sagði áðan að t.d. varðandi vegagerðina væru vissulega nokkur lán sem hefðu verið tekin erlendis en meginhlutinn af því fé sem vegagerðin hefur fengið að láni hefur verið fjármunir sem teknir hafa verið að láni hér innanlands. Í þessu tilviki er hins vegar tekið erlent lán til greiðslu á öllum kostnaði sem á Íslendinga fellur.

Vissulega er reynt að telja fólki trú um að rekstur stöðvarinnar standi undir sér með því að vísa til flugvallagjalds, lendingargjalda eða tekna af fríhöfn eins og gert er í áætlun einni sem gerð var á vegum byggingarnefndar flugstöðvarinnar. En ég minni á að þessir tekjupóstar ganga nú þegar til annarra verkefna á vegum ríkisins hvort sem menn telja það eðlilegt eða ekki, það skiptir ekki öllu máli. Það er bókhaldsblekking þegar reynt er að halda því fram að þessir tekjupóstar leysi vandann vegna þess að ef þeir eru notaðir til að fjármagna kostnaðinn af flugstöðinni segir það sig sjálft að álíka mikill vandi skapast einhvers staðar annars staðar. Þar af leiðandi er auðvitað alger blekking að halda því fram að flugstöðin sem slík standi undir þeim kostnaði sem við hana verður. Hún verður þá, ef svo á að vera, að taka til sín tekjupósta sem í dag eru notaðir til að standa undir ýmiss konar kostnaði m.a. við flugið.

Það á að heita svo að flugvallagjaldið gangi allt til framkvæmda í flugmálum. Þannig hefur það verið undanfarin ár og m.a.s. er tekið alveg sérstaklega fram í lögunum að flugvallagjaldið eigi að ganga til framkvæmda við uppbyggingu flugvalla víðs vegar um land. Lendingargjöld af flugvélum ganga til rekstrar flugumferðarmiðstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli, m.a. til að kosta hana. Tekjurnar af fríhöfninni ganga vissulega til margra hluta en m.a. til að kosta rekstur ferðamálaráðs að nokkrum hluta. Ef þessir tekjupóstar eru allir teknir og eiga nú að standa undir rekstri flugstöðvarinnar segir sig ósköp einfaldlega sjálft að þá vantar fé til að standa undir þeim útgjöldum sem hér hafa verið nefnd.

Það er því ekkert annað en bókhaldsblekking þegar reynt er að telja fólki trú um að flugstöðin standi undir sér sjálf eftir að hún hefur verið byggð því að hún skapar engar nýjar tekjur umfram það sem nú er. Það er auðvitað kjarni málsins.

Fráleitasta og furðulegasta ákvæðið í þessum nýja samningi við Bandaríkjastjórn er þó tvímælalaust það að skv. samningnum hefur Bandaríkjastjórn rétt í neyðartilvikum til að yfirtaka þetta helsta samgöngumannvirki þjóðarinnar í heilu lagi. Þar með eru Íslendingar sviptir með öllu yfirráðum og notkunarrétti yfir þessu mannvirki sem þeir hafa þó lagt gífurlega fjármuni fram til að kosta. Ég vek á því athygli að framlag Bandaríkjamanna til byggingar flugstöðvarinnar er svo sannarlega ekki útlátalaust fyrir okkur Íslendinga því að við verðum að sætta okkur við að glata yfirráðum yfir þessu mannvirki þó að við höfum sjálfir greitt meiri hlutann af kostnaði við það. Þetta getur gerst hvenær sem Bandaríkjamenn telja að hagsmunir sínir kalli á.

Ég hygg að þetta samningsákvæði eigi sér engin fordæmi í samskiptum sjálfstæðra þjóða. En kannske er það einmitt þetta ákvæði sem skýrir að verulegu leyti hvers vegna stærð og gerð flugstöðvarinnar var og er ákveðin svo langt umfram þarfir Íslendinga og hvers vegna kostnaðurinn sem leggst á íslenska skattgreiðendur er miklu meiri en nokkur þörf er á.

Ég vil svo að endingu lýsa því yfir að ég tel furðulegt að forustumenn Sjálfstfl. og Framsfl. með forustumenn Alþfl. í eftirdragi skuli, þegar svo miklir fjárhagslegir erfiðleikar steðja að þjóðinni sem raun ber vitni, leyfa sér að fara eins gáleysislega með sameiginlega fjármuni landsmanna og raun ber vitni í þessu máli.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara frekari orðum um þetta stórmál þótt vissulega væri ástæða til að víkja hér að mörgum fleiri atriðum málsins en legg áherslu á að við Alþb.-menn munum greiða atkvæði gegn frv.