17.12.1983
Efri deild: 35. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2030 í B-deild Alþingistíðinda. (1719)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Frsm. meiri hl. (Eiður Guðnason):

Virðulegi forseti. Vegna þess sem fram kom í máli síðasta ræðumanns vil ég aðeins rifja það upp að fulltrúar byggingarnefndar flugstöðvarinnar komu á fund n. og svöruðu þar að mínu mati eftir því sem hægt var þeim spurningum sem fyrir þá voru lagðar.

Ég held að allir sem þekkja til í byggingariðnaði og verktakaiðnaði viti að byggjandi eða sá sem kostar byggingu, stendur að framkvæmd hennar, hefur ekki beinlínis fyrir sið að gefa upp nákvæmlega og í smáatriðum allar sínar kostnaðaráætlanir áður en framkvæmdin er boðin út. Ég held að það sé bara almenn venja í þessum viðskiptum. Ég veit ekki til þess t.d. að þegar Vegagerð ríkisins býður út framkvæmdir gefi hún áður upp sítt áætlaða kostnaðarverð. Ég held að sá vinnumáti tíðkist ekki og væri m.a.s. mjög óskynsamlegur. Auðvitað gerir aðilinn sér hugmyndir um framkvæmdakostnaðinn, býður síðan út og síðan er gerður samanburður á væntanlegum kostnaði og þeim tilboðum sem liggja fyrir. Ég held að þetta séu ósköp eðlileg vinnubrögð. Hitt er svo aftur annað mál að ég held að þessi bygging sé kannske betur undirbúin en margar aðrar opinberar framkvæmdir sem ráðist hefur verið í hér á landi. Ég er nær alveg sannfærður um það.

Ég verð nú að segja alveg eins og er að mér finnst það næsta hæpin röksemd hjá hv. andstæðingum þessa frv. þegar þeir segja að þessi bygging sé liður í vígbúnaðarkeðju, eins og það var orðað hér áðan. Ég held að þá séu menn að teygja röksemdafærsluna ansi langt. Ég mundi miklu frekar skilja ef það fólk sem þessu heldur fram segði að Keflavíkurflugvöllur væri liður í vígbúnaðarkeðju og þess vegna ættum við að hætta að nota hann fyrir millilandaflug og byggja nýjan millilandaflugvöll. Ef menn vilja vera sjálfum sér samkvæmir eiga þeir auðvitað að segja þetta. Þessi bygging ein og út af fyrir sig kemur ekki neinni vígbúnaðarkeðju nokkurn skapaðan hlut við. Að vísu er þarna ákvæði um að á ófriðar- eða neyðartímum geti Bandaríkjamenn tekið þessa byggingu til notkunar — ég man nú ekki nákvæmlega hvernig það er orðað. Ég skal játa að mér er það ákvæði ekkert sérstaklega geðfellt. En horfum á raunveruleikann. Vonandi sjáum við aldrei framan í að hér verði þeir alvörutímar sem þarna er gert ráð fyrir. Og segjum sem svo að þetta ákvæði væri ekki í lögum. En mér er spurn: Minnast menn þess að þeir sem standa í styrjaldarrekstri séu eitthvað sérstaklega að spyrja smáþjóðir ráða? Við skulum bara horfast í augu við veruleikann, en við skulum jafnframt vona að við þurfum aldrei að horfast í augu við þennan veruleika.

Virðulegi forseti. Vegna ummæla hv. þm. Ragnars Arnalds áðan vildi ég gjarnan að hann gæti heyrt það sem ég nú ætla að segja. (Forseti: Við skulum reyna að hafa upp á honum.) Menn tala hér mikið um að þessi bygging sé allt of stór, aðrir halda því fram að hún kunni að vera í minna lagi. En ég vil bara leggja þunga áherslu á að ég held að eins og samgöngum og þróun flugmála er háttað sé gersamlega útilokað að spá fyrir um hver verði þróun þessara mála. Ekkert þýðir að vera að vitna í það að menn eigi að gera framtíðarspár, ég held að það sé ekki hægt. Menn geta gert einhverjar ágiskanir út í loftið en ég held að ekki sé hægt að spá af neinu viti um hver muni verða þróunin í þessum málum í framtíðinni. Mín skoðun er sú að þessi bygging sé af sæmilega skynsamlegri stærð. Við skulum bara minnast þess að sagt hefur verið um velflestar opinberar byggingar, sem ráðist hefur verið í hér af stærri gerðinni, að þær væru allt of stórar. Hvað var sagt um Háskóla Íslands, átti hann ekki að duga fram yfir árið 2000? Ég man ekki betur en að það hafi verið haft á orði. Hvað var sagt um Sundhöll Reykjavíkur þegar hún var byggð? Bruðl, allt of stórt. Við skulum fara varlega í að fullyrða í þessum efnum.

Hv. þm. Ragnar Arnalds talaði um erlend lán, m.a. um erlend lán og vegagerð. Það var til skamms tíma svo að erlend lán stóðu undir hérumbil allri meiri háttar vegagerð í landinu og vegum með bundnu slitlagi. Ég minni á Reykjanesbraut, ég minni á þjóðveginn austur yfir fjall. Það voru lán frá Alþjóðabankanum sem stóðu undir þeim framkvæmdum. En þegar hv. 3. þm. Norðurl. v. segir að erlend lán hafi ekki verið tekin til annarra framkvæmda en þeirra sem hafi getað staðið undir afborgunum og vöxtum get ég nú ekki orða bundist að minna hann á eina framkvæmd sem hann ber meiri ábyrgð á en ýmsir aðrir. Þá á ég við Kröfluvirkjun. (RA: Hún mun líka standa undir sér.) Ágætur maður sagði að hún mundi standa undir sér en eigum við ekki að fletta upp í fjárlagafrv. núna og sjá hvernig þessi virkjun stendur undir sér, við skulum gera það, hv. þm. Á bls. 189 stendur: „Lánsfjárþörf ríkissjóðs skv. fjárlögum 1983 og frv. til fjárlaga 1984: Kröfluvirkjun fjármagnsútgjöld, lánsfjárlög 1983 219 millj. og 400 þús., fjárlagafrv. 1984 358 millj.“ Hér er komin ein flugstöð á tveimur árum. Og hvað varð um rafmagnið frá Kröfluvirkjun í sumar? Landsvirkjun vildi ekki kaupa það, það var enginn markaður fyrir það, hún gat ekkert rafmagn seli í sumar. Í ljósi sögunnar skulum við fara varlega í svona fullyrðingar. Kröfluvirkjun er mesta fjármálahneyksli í allri atvinnusögu Íslendinga fyrr og síðar. Þeir sem voru í svokallaðri Kröflunefnd bera auðvitað ábyrgð á því máli umfram aðra. (RA: En þeir þm. á Alþingi sem greiddu atkv. með því, m.a. þm. Alþfl.?) Auðvitað er þeirra ábyrgð einhver líka, en við höfum gagnrýnt þetta mál alla tíð frá upphafi. Þeir sem nú sitja á þingi hér fyrir Alþfl. — (RA: Þið greidduð atkv. með því ár eftir ár.) Að veita fjármagn til þessa fyrirtækis eftir að það var komið af stað já. (RA: Já.) Vegna þess að það þurfti að standa við skuldbindingar. Auðvitað stöndum við við þær skuldbindingar sem Ísland hefur gert á alþjóðavettvangi og viljum standa að því að lán verði borguð þó þau hafi verið tekin til vitlausra hluta. Við höfum gagnrýnt þetta mjög sterkt, það veit hv. þm. En ég heyri að hann hefur kannske ekki mjög óða samvisku í þessu máli og ég lái honum það ekki. Ég held að menn hafi verið leiddir þarna villir vegar og ekki dettur mér í hug að menn hafi gert þetta viljandi. En í ljósi sögunnar er eins gott að tala varlega í þessum efnum. Ég hygg að við séum reynslunni ríkari varðandi ævintýrið Kröfluvirkjun. Ég bara ítreka það og minni hv. þm. Ragnar Arnalds á að enginn flokkur hefur haldið uppi jafnharðri gagnrýni á þetta mál og Alþfl. Alþfl. átti enga aðild að Kröfluvirkjun, það voru aðrir flokkar sem þar áttu fulltrúa, þetta veit hv. þm. vel.

En ég ætla ekki að þessu sinni að fara lengra út í þessa sálma, það gefst væntanlega tækifæri til þess síðar. Ég bara ítreka það sem ég sagði í upphafi um þessa flugstöð á Keflavíkurflugvelli: Þegar menn eru að halda því fram að hún sé liður í einhverri ímyndaðri eða raunverulegri vígbúnaðarkeðju er slíkt auðvitað argasta rugl. Ef menn vilja vera sjálfum sér samkvæmir eiga þeir að segja að Keflavíkurflugvöllur sé liður í vígbúnaðarkeðju og við eigum þess vegna að hætta að nota hann sem flugvöll. En það gerir þetta fólk ekki. Þess vegna falla þessar röksemdir þeirra auðvitað um sjálfar sig og eru úr lausu lofti gripnar.