17.12.1983
Efri deild: 35. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2046 í B-deild Alþingistíðinda. (1729)

142. mál, almannatryggingar

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Þetta frv. er um sjúkratryggingagjald. Það er gert ráð fyrir að lagt verði á á næsta ári sjúkratryggingagjald með sama hætti og gert var á grundvelli laga þar um frá 1983. Af þessum sökum er þetta frv. lagt fram. Álagt sjúkratryggingagjald á þessu ári nemur 85.8 millj. kr. og það er áætlað að innheimtast muni um 80 millj. Áætlað er að sjúkratryggingagjald á næsta ári nemi um 132 millj. og innheimt gjöld muni nema 120 millj. kr. samkvæmt áætlunum fjmrn.

Það er gengið út frá því að tekjuskattar til ríkissjóðs, þ.e. sjúkratryggingagjald samkvæmt þessu frv. og tekjuskatturinn, verði samanlagt óbreytt hlutfall af tekjum gjaldenda á milli greiðsluáranna 1983 og 1984.

Þegar litið er á þessa skattheimtu í heild hækkar þetta hlutfall að því er varðar sjúkratryggingagjaldið nokkuð, en hins.vegar er þessi hækkun bætt upp með tilsvarandi lækkun tekjuskatts samkvæmt því frv. sem liggur fyrir um tekju- og eignarskatt.

Þetta frv. fór í gegnum Nd. athugasemdarlaust og fjh.- og viðskn. þeirrar hv. deildar var sammála um afgreiðslu málsins.

Ég tel ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta, en legg, virðulegi forseti, til að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til fjh.- og viðskn.