17.12.1983
Efri deild: 35. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2048 í B-deild Alþingistíðinda. (1732)

161. mál, málefni aldraðra

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frv. Það er að vísu seint fram komið og stutt til jólahlés, en ég geri mér fulla grein fyrir að þetta er þarft mál og nauðsynlegt og þarf að nást fram og við munum greiða fyrir því sem mest, Alþb.-menn, að það nái fram að ganga.

Okkur var reyndar ljóst mörgum strax í fyrra að það gæti orðið um mismunandi túlkun að ræða á ákvæði 3. tl. 12. gr. eins og það var afgreitt frá þinginu. Kom enda líka í ljós að það leit út fyrir að þær stofnanir sem þarna um ræðir, hjúkrunar- og sjúkradeildir, yrðu jafnvel af öllu framlagi úr Framkvæmdasjóði aldraðra og hefði það verið miklu miður.

Ég vil segja það, að í öllum skattaumræðum þessa daga er hér um að ræða skattlagningu sem er réttlætanleg. Þar er um skatthækkun að ræða sem er réttlætanleg af þeirri ástæðu að þar er um raunverulegt forgangsverkefni að ræða í okkar málum sem er Framkvæmdasjóður aldraðra og það sem þar er gert. Ég get því tekið þessari skattlagningu með gleði, eins og fólk gerir almennt úti í þjóðfélaginu. Þetta er trúlega eini skatturinn sem fólk borgar með sannri gleði yfirleitt úti í þjóðfélaginu. Það er sá skattur sem er merktur þessu verkefni sérstaklega, sem við höfum vanrækt allt um of og hvílir nú þungt á okkur, þ.e. að létta öldruðum ævikvöldið.