17.12.1983
Efri deild: 35. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2048 í B-deild Alþingistíðinda. (1737)

161. mál, málefni aldraðra

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að þetta frv. var ekki á listanum var sú, að það var ekki komið fram og ekki komin viðbrögð fjvn. Það var því ekki fyrr en síðustu dagana sem ég reyndi að ræða við menn hér í þinginu um að greiða fyrir afgreiðslu málsins.

En út af fsp. hv. 8. landsk. þm. er þess að geta að úthlutað hefur verið úr Framkvæmdasjóði aldraðra á þessu ári rúmlega 40 millj. eða 40.2 millj., að ég best man, og B-álman hefur fengið 22 millj. af því. Í fjórðu greiðslu á þessu ári fékk Borgarspítalinn eða B-álman 9 millj. af 9 millj. 550 þús. Það liggur hins vegar ekki ljóst fyrir hvað þetta fjármagn snertir. Hér verða til úthlutunar til sjúkrastofnana aldraðra 30 millj. á næsta ári. Það er að sjálfsögðu öruggt mál að B-álman hlýtur þar mjög verulegan hluta, en á þessu stigi get ég ekki fullyrt um hver sú upphæð verður. Um það mun stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra fjalla og síðan kemur það þá til staðfestingar.