17.12.1983
Efri deild: 36. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2049 í B-deild Alþingistíðinda. (1744)

50. mál, tímabundið vörugjald

Frsm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Virðulegi forseti. Hv. fjh.- og.viðskn. þessarar deildar hefur rætt mál þetta mjög mikið og lengi. Fjölmargir fundir hafa verið haldnir þar sem málið hefur verið tekið fyrir og aflað mikilla gagna. Ég vil strax í upphafi taka það fram að okkur ber að þakka sérstaklega hæstv. fjmrh. og starfsmönnum í fjmrn., og raunar líka starfsmönnum í Þjóðhagsstofnun, fyrir mjög mikla vinnu í sambandi við að greiða fram úr þeirri flækju sem maður verður nú að segja að sé í tolla- og skattamálum, þ.e. að því er varðar óbeina skatta.

Það hefur komið æ glögglegar í ljós þegar við höfum verið að kanna öll þessi skjöl, hve háir neysluskattar eru hérlendis, mun hærri held ég en fólk gerði sér áður grein fyrir, því að einn skatturinn leggst ofan á annan. Það kemur í ljós af fskj. sem fylgir með nál. okkar, að almennt tekur ríkið um eina af hverjum tveim krónum sem menn kaupa þessar vörur fyrir. Ef húsmóðirin fer með 200 kr. út í búð fær hún vörur fyrir 100 kr. með álagningu kaupmannsins, en ríkið fær 100. Þetta er hin almenna regla. Við báðum starfsmenn fjmrn. að finna ákveðnar vörutegundir, sem þeir völdu ýmist einir eða í samráði við okkur, og reyna að gefa sem réttasta mynd af því hvernig þetta í heildina tekið liti út. Niðurstaðan er sem sagt sú, sem fram kemur í fskj., að það er mjög nálægt því að ríkið taki 50% af smásöluverðinu eins og ég áðan gat um. Ég held að það fari ekkert milli mála að þetta kerfi þarf allt að skoða. Vorum við held ég öll sammála að það þyrfti að gera.

N. leggur til að frv. verði samþykkt, en einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt.

Ég hef, hæstv. forseti, lokið framsögu minni, en þar sem svo vill til að aðeins ein brtt. er flutt við þetta frv. og ég er flutningsmaður hennar lít ég svo á að ekkert sé við það að athuga að ég geri einnig grein fyrir brtt. minni. Vona ég að engir af hv. þm. hafi neitt við það að athuga. Ég skal ekki halda hér langa eða mikla ræðu um þetta mál þó af mörgu sé að taka.

Það vita víst allir að ég tel mjög brýnt að neysluskattar verði lækkaðir. Ég veit raunar að allir þdm. mundu æskja þess að það væri hægt. Ég tel að þetta væri hægt, en aðrir telja að svo sé ekki að sinni. Öll eru þessi mál nú í athugun hjá hæstv. fjmrh. og ríkisstj. Hæstv. ráðh. hefur lýst því yfir að hann muni á þriggja mánaða fresti láta gera úttekt á fjárhag ríkissjóðsins. Brtt. mín nú er þess efnis að framlengja vörugjaldið óbreytt um fjögurra mánaða skeið, því að þá gæfist einn mánuður eftir slíka úttekt til að athuga hvort unnt væri að lækka þetta gjald að einhverju leyti. Ég skal ekki segja að það þurfi endilega sérstaklega að lækka þetta gjald. Það heitir að vísu sérstakt tímabundið vörugjald og ég var víst einn þeirra sem upphaflega greiddi atkv. með þessu gjaldi. Það er nú að verða tíu ára, verður það á næsta ári, og hefur heldur hækkað en hitt.

En ljóst er að ef okkur á að auðnast að ná verðbólgu niður verður ríkið að einhverju leyti að koma til móts við fólkið. Ríkið verður að slaka á klónni og þá er það einmitt á þessum vörutegundum, þessum brýnu nauðsynjavörum, því flestar þær vörur sem falla undir þessa háu tolla eru mjög brýnar nauðsynjavörur. En ástæðan til þess að þær eru tollaðar svona mikið er sú, að þær voru ekki í gamla vísitölugrunninum. Allar ríkisstjórnir hafa keppst við að falsa vísitöluna, reynt að halda launum niðri með því að falsa vísitöluna, en auðvitað hefur það komið í bakið á öllum ríkisstjórnum þó það gerði það kannske ekki alveg fyrstu mánuðina eftir að fölsunin fór fram.

Ég held að heilbrigðast og eðlilegast sé að koma hreint til dyranna, segja fólki hvernig hlutirnir standa og nota ekki tolla og neysluskatta til að leggja á vörur sem ekki reiknast inn í vísitölu, til þess að telja fólki trú um að kjör þeirra séu betri en þau raunverulega eru, því að pyngjan talar sínu máli.

Ég held raunar líka að það sé vafasöm staðhæfing að ríkissjóður geti ekki þolað tekjumissi í þessu formi, að lækka neysluskatta, því ég fæ ekki betur séð en útgjöld ríkisins mundu lækka álíka og tekjurnar ef tekst með því að lækka gjöldin að sætta fólk við minni kauphækkanir og halda genginu stöðugra en ella, því að útgjöld ríkisins eru ekkert annað þegar upp er staðið — eða nánast ekkert annað — en beinar og óbeinar vinnulaunagreiðslur og gjaldeyrisnotkun. Svona er nú dæmið einfalt, ef horft er fram hjá ýmsum hagfræðikenningum sem gengið hafa sér meira og minna til húðar. Ég teldi þess vegna ekki neitt áhættusamt að lækka þennan skatt eða einhverja aðra neysluskatta og gera það mjög verulega og hressilega.

En aðrir menn eru á annarri skoðun og við því er ekkert að segja. Við fáum nú svigrúm til að ræða þessi mál og munum nota það svigrúm, væntanlega allra flokka menn, til að finna betri grundvöll næst þegar um þessi mál verður rætt. Ég er raunar þeirrar skoðunar líka og leyfi mér að láta það koma hér fram, án þess að ég ætti að fara að stofna hér til langra umræðna og síst illdeilna, að í neyðarástandi, kreppuástandi, sé algerlega heimilt og raunar mjög eðlilegt að reka ríkissjóð með halla ef fjárins er aflað innanlands. Raunar ráku Bandaríkjamenn styrjaldarrekstur í heimsstyrjöldinni og Víetnamstríðið mjög mikið með skuldabréfaútgáfu, innanlands auðvitað, eins og það er nú arðvænlegur atvinnuvegur að stunda styrjaldir. Og hvað væri þá um það þótt við tækjum einhver lán hjá sjálfum okkur til að losna úr þeim vanda sem við nú erum í? En út í þetta ætla ég ekki lengra að fara nú því að aðrir halda því fram að þetta sé of mikil einföldun mála.

Ég legg sem sagt til að þetta gjald verði einungis framlengt í fjóra mánuði, vegna þess að það gerir að verkum að við verðum fljótari að vinna ef við vitum að innan þessara fjögurra mánuða verður að gera einhverjar breytingar.

Ég endurtek þakkir mínar til samnefndarmanna minna og hæstv. fjmrh. fyrir mjög mikil og góð störf. Það er áreiðanlegt að þessi störf verða til þess að öll þessi mál verða tekin upp til athugunar. Það veit ég raunar að hæstv. ráðh. ætlar sér.