17.12.1983
Efri deild: 36. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2052 í B-deild Alþingistíðinda. (1746)

50. mál, tímabundið vörugjald

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Þetta er nú ekki í fyrsta skipti sem kemur til þess hér að framlengja enn einu sinni skatt sem upphaflega átti að vera mjög skammvinnur og tímabundinn. Raunar ber þessi skattur heitið sérstakt tímabundið vörugjald og átti að vera til mjög skamms tíma þó raunin yrði önnur eins og oft vill verða undir slíkum kringumstæðum.

Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að þetta mál hefur fengið allítarlega umfjöllun í fjh.- og viðskn. þessarar deildar og á því skoðaðar ýmsar hliðar og þá með það í huga að hér er vissulega um meiri háttar tekjustofn fyrir ríkið að ræða. Ég get tekið undir það með framsögumanni, hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni, og hv. síðasta ræðumanni, Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur, að vissulega hefði verið mjög æskilegt að geta lækkað þetta gjald núna. Það hefði verið mjög æskilegt að geta t.d. tekið upp þær tillögur sem Morgunblaðið greindi frá 1. des. s.l. og eru um hugmyndir formanns nefndarinnar um að lækka þetta gjald niður í 15%.

Hins vegar held ég að bæði honum og öðrum í nefndinni hafi orðið ljóst að á þessu stigi var slíkt ákaflega erfitt og eiginlega ekki raunhæft. Það hefði auðvitað verið freistandi fyrir stjórnarandstöðu að flytja slíka till. inn í deildina með hefðbundnum hætti, en ég held að við gætum verið sammála um að það hefði verið sýndarmennskan ber. Þess vegna styðjum við Alþfl.- menn að þetta mál nái fram að ganga núna. Auðvitað væri það hreint ábyrgðarleysi ef þessi gjaldstofn félli niður um áramót.

Hins vegar lýsi ég stuðningi við þá till. sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson mætti hér fyrir, að heimildin til töku þessa gjalds nái til nokkuð skemmri tíma. Ég geri það með þeim rökum að við höfum alltengi, þm. Alþfl., lagt áherslu á að öll þessi gjöld, innflutningsgjöld og tolla, þyrfti að endurskoða í heild sinni. Ég veit að sú endurskoðun stendur yfir á vegum fjmrn. og hæstv. fjmrh. Með því að leggja til að þetta gjald gildi skemmri tíma en frv. gerir ráð fyrir teljum við okkur vera að knýja á um það og lýsa því yfir að þessari endurskoðun beri að ljúka sem allra fyrst og ég held að það sé einmitt mjög brýnt. Eins og fskj. með þessu frv. ber með sér er næsta lítið samræmi í hlutum og þessi gjöld eru mjög há. Ég held að það sé löngu brýnt að endurskoða þessi mál, eins og nú er verið að gera og því ber að fagna, en rík áhersla skal lögð á að þeirri endurskoðun ljúki sem allra fyrst.