17.12.1983
Efri deild: 36. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2054 í B-deild Alþingistíðinda. (1749)

50. mál, tímabundið vörugjald

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. 4. þm. Austurl. Það er afskaplega vinsældarlegt að tala um skattalækkanir og það freistast nú margir til þess á vissum stöðum og vissum stundum að tala um slíkt. Einhvern veginn held ég að ákveðinn hópur kjósenda hafi í vor haft einhverjar vonir um að slíkt væri í vændum. Nú gera þeir sér væntanlega ljóst að í náinni framtíð er slíks ekki að vænta. Og auðvitað verður það mál rökstutt og það tiltölulega haldgóðum rökum.

Það ber þó þess að gæta, að þó að hægt sé að sanna með tölum og rökum að bókhaldið verði að stemma, eins og kallað er, í báðum dálkum eru fjármál þjóða og stjórnmál þjóða oft og tíðum annað og meira en bara töluleg rök. Ég minni á stóran nágranna okkar í vestri, en allir sérfræðingar lýsa því yfir að á ferðinni sé þar ákveðin þróun í efnahagsmálum sem gangi beinlínis gegn öllum þeim kenningum í hagfræði sem til eru, gjaldmiðillinn styrkist dag frá degi án þess að til þess séu neinar aðrar forsendur en þær að menn trúa á gjaldmiðilinn, menn hafa traust á honum. Um leið eru þeir, hvort sem við erum því samþykkir eða ekki, að lýsa yfir ákveðnu trausti á stjórnvöldum. Ég held að þegar stjórnvöld taka upp á þeim ósið að vera ekki sjálfum sér samkvæm fyrir og eftir kosningar geti það ekki leitt til nema eins: Þó að bókhaldið stemmi í debet og kredit stemmir það ekki í debet og kredit hvað gefnar yfirlýsingar og fylgni orða og athafna snertir. Þá missir fólk traust á þeim stjórnvöldum sem það hefur kosið yfir sig og um leið treystir það ekki heldur gerðum þeirra og hegðar sér eftir því.

Ég mætti kannske segja að frá mínum pólitísku dyrum séð væri mitt hagsmunamál að málið gengi þannig fram. En á móti kemur að við erum þrátt fyrir allan pólitískan ágreining saman að reyna að vinna að því markmiði að land og þjóð farnist nokkuð sæmilega. Ég ætla að styðja till. formanns þessarar n. um tímabundna framlengingu tímabundins vörugjalds, vegna þess að ég vil með því knýja á um að tollalög verði endurskoðuð og það sem allra fyrst. Menn verða að horfast í augu við þá einföldu staðreynd að tollar eru fyrirbæri sem verður horfið úr mannlegri tilveru nokkurn veginn fyrir aldamót því að tollar hafa að mörgu leyti óholl áhrif á allt efnahagslíf og stjórnmál. Bara til að nefna eitt dæmi, þá leiða tollar til þess, þegar þeir eldast, að flækjast og þvælast fyrir og fólk hættir að geta gert sér grein fyrir eðlilegri verðmyndun. Verðskyn fólks brenglast fyrir þessar sakir. Tollarnir hlaða ofan á vöruverð. Það er miklu eðlilegra, ef ríkið þarf að taka sína peninga einhvers staðar og það þarf það náttúrlega, að það taki þá úr annarri veltu, ekki með beinni skattheimtu af innflutningi eða á gjaldeyri réttara sagt. Því vil ég styðja till. formannsins í þeim tilgangi að það verði eitt atkv. á vogarskál þess að tollaendurskoðun fari fram sem allra fyrst.