17.12.1983
Efri deild: 36. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2055 í B-deild Alþingistíðinda. (1752)

50. mál, tímabundið vörugjald

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fjh.- og viðskn. Ed. fyrir afgreiðslu á þessu máli. Ég vil alveg sérstaklega þakka formanni n. Eyjólfi Konráð Jónssyni fyrir góða fyrirgreiðslu og nota þetta tækifæri til að mótmæla alveg sérstaklega þeim fréttum, sem komu í sjónvarpinu í gær, að hann hafi tafið afgreiðslu þessa máls. Ég hef átt mjög gott samstarf við formann n. og nm. alla. Það sem hefur tafið málið er að sjálfsögðu að n. hefur þurft að fá ákveðnar upplýsingar. Þær hefur hún fengið, eins og kom fram hjá formanninum í framsöguræðu hans, frá ágætu starfsfólki fjmrn.

N. hefur ekki klofnað í afstöðu sinni til mátsins, en nm. hafa áskilið sér rétt til að flytja brtt. eða fylgja brtt. sem fram kunna að koma. Nú hefur hv. 4. þm. Norðurl. v. Eyjólfur Konráð Jónsson, formaður n., flutt brtt. um gildistíma frv. Ég veit ekki — ég er ekki nógu kunnugur þingsköpum þrátt fyrir áratug hér á Alþingi - hvernig það getur gerst að taka upp hluta af tekjuhlið fjárlaga á miðju fjárlagaári, hvort ekki þarf þá að taka fjárlögin öll upp, bæði gjalda- og tekjuhlið, það skal ég ekki segja um. Ég átta mig því ekki alveg á því hvað skeður ef þessi brtt. verður samþykkt. En enginn skilur betur hug hans og áhuga fyrir lækkun á aðflutningsgjöldum en ég, enda hef ég sjálfur verið talsmaður málsins og skoðanabróðir hv. flm. nú sem áður fyrr. Starfa minna vegna hef ég notað þá þekkingu sem ég hef öðlast sem innflytjandi til þess að gera Alþingi grein fyrir því að sú upphleðsla og álagning í prósentum sem verður við innflutning getur ekki gengið og þarf að breyta. En vegna stöðu ríkissjóðs get ég ekki samþykkt till. að sinni og legg því til að hún verði felld. Ég vil aftur á móti staðfesta mín fyrri ummæli, að ég mun reglulega á næsta ári eða á þriggja mánaða fresti leggja fram yfirlit yfir stöðu ríkissjóðs og framkvæmd fjárlaga. Ég hef skýrt frá því hvernig ég mun standa að því og ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það einu sinni enn. En þetta geri ég til þess að þm. geti fylgst með gangi ríkisfjármála með stuttu millibili og þar með mætt breyttum forsendum ef tilefni er til, þannig að fjárlög verði ekki röng eins langan tíma og tilfellið er að átt hefur sér stað á þessu ári.

Ég vil undirstrika enn þá einu sinni þó, að sú endurskoðun sem hv. 8. þm. Reykv. talaði um er í gangi, hefur verið í gangi frá því að ég kom til starfa í rn. og ég reikna með að geta lagt fram á Alþingi í byrjun árs, líklega í mars-apríl, fullmótað frv. Að sjálfsögðu kemur þar vörugjaldið líka til endurskoðunar eins og segir sig sjálft. Frv. um virðisaukaskatt liggur hjá öllum þingflokkum, er þegar komið af stað í athugun hér á þinginu, fyrir utan þá ákvörðun mína að endurskipuleggja bæði tollstjóraembættið, Áfengisverslunina og Innkaupastofnunina. Þetta verður allt í endurskoðun á sama tíma. Og síðar á árinu, þegar um hægist fyrir Skattstofunni, mun ég láta gera úttekt á starfsemi hennar líka. Öll þessi vinna stefnir í þá átt að létta skatta og gjöld á atmenningi og er í beinu framhaldi og beinu samhengi við þann anda sem kemur fram í öllum málflutningi flokksbróður míns, Eyjólfs Konráðs Jónssonar. Þótt ég leggi hér til, og ég legg mikla áherslu á það, að till. hv. formanns fjh.- og viðskn. verði ekki samþykkt vona ég að hann geti verið ánægður með þær ráðstafanir sem ég hef lýst og býst við að verði til bóta.

Enn og aftur vil ég þakka gott samstarf við hv. fjh.og viðskn. og góða afgreiðslu á þessu máli og harma þær fréttir sem í fjölmiðlum komu í gær varðandi afgreiðslu þessa máls.