17.12.1983
Efri deild: 37. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2057 í B-deild Alþingistíðinda. (1759)

50. mál, tímabundið vörugjald

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég vildi leyfa mér að skora á hv. 4. þm. Norðurl. v. að flytja sams konar eða svipaða brtt. og hann flutti við 2. umr. við þetta frv., vegna þess að ef röksemdir standast hjá þeim mönnum sem mættu gegn till., en þeir notuðu aðallega þær röksemdir að lög sem enduðu einhvers staðar á miðju fjárlagaári settu fjárlagadæmið allt fyrir framan ákveðið spurningarmerki, þá væru þeir þar með í rauninni líka að fullyrða að ekki væri hægt að taka fjárlagadæmið upp til endurskoðunar einhvern tíma á árinu. Það þýðir að þá búum við við þetta vörugjald út allt árið, því ef ekki er hægt að endurflytja lagafrv. um þetta efni að vori, ef sýnt er að þurfi að framlengja vörugjaldið í sömu upphæð, þá er ekki heldur hægt að taka það til breytinga. Þar með eru þessir menn að lýsa því yfir hér og nú að þetta vörugjald verður út þetta ár og þá ekki þess að vænta að það breytist fyrr en þá á árinu 1985.