17.12.1983
Neðri deild: 31. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2060 í B-deild Alþingistíðinda. (1772)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Forseti (Ingvar Gíslason):

Við 1. gr. frv. komu fram brtt. bæði á þskj. 235 og á þskj. 242. Nú hefur forseti komist í vanda um hvora till. skuli bera upp fyrr, en eftir nokkuð vandlega athugun hefur hann komist að þeirri niðurstöðu að það sé svo líkt á komið um efni þessara till. að erfitt sé að úrskurða um hvora skuli bera upp fyrr af efnisástæðum. Því hefur forseti úrskurðað að taka skuli fyrr til atkv. þá till. sem fyrr var borin fram, en það er till. á þskj. 235 frá Kjartani Jóhannssyni o.fl., og kemur sú till. til atkvæða. (ÓRG: Ég vil biðja um atkvgr. þannig að 3. til og með næstsíðasta mgr. verði bornar upp sérstaklega.) Í brtt. frá, Kjartani Jóhannssyni? (ÓRG: Já.) Fyrirgefðu aftur? (ÓRG: Um önnur meginatriði.) Á að hafa þar skil, „Um önnur meginatriði“, og bera þetta upp í tvennu lagi? (ÓRG: Nei, í þrennu lagi. Út að „Hafa skal samráð“.)