25.10.1983
Sameinað þing: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í B-deild Alþingistíðinda. (178)

453. mál, dýpkunarskip

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. síðasta ræðumanni að nokkurs misskilnings gætir í tali manna um þetta mál vegna þess að nálægt helmingi af þeim aukakostnaði sem hér er verið að tala um kemur bótum ekkert við. Það er ekki hægt að kalla vegalögn frá höfn að virkjunarstað bætur fyrir virkjun. Það er ekki hægt að kalla það bætur þegar virkjunaraðili leggur vegi handa sjálfum sér um virkjunarsvæðið. Og það er ekki heldur hægt að kalla það bætur þegar Landsvirkjun kaupir fasteign norður í Húnavatnssýslu, þ.e. jörðina Eiðsstaði. Ekki buðu bændur á Eiðsstöðum jörð sína til sölu. Landsvirkjun eða RARIK óskuðu eftir að kaupa þessa jörð og guldu fyrir andvirði einbýlishúss í Reykjavík. Því fylgdu að vísu kvaðir um byggingar á jörðinni og framkvæmdir á jörðinni til þess að jörðin yrði betri bújörð og þar með meiri eign fyrir Landsvirkjun.

Það hefur verið margbent á það af mörgum aðilum að uppgræðslan er mjög dýr, og það var eitt af þeim deilumálum sem um var að tefla við undirbúning þessarar framkvæmdar, hvort hún væri yfirleitt framkvæmanleg eða hvort það borgaði sig að leggja í þann kostnað sem því fylgdi, hvort aðrar leiðir væru ekki hentugri. En þessi leið var farin vegna þess að menn tóku trúanlegar tölur sérfræðinga, sem vildu láta þetta vera ódýrast að því er þeir töldu.

Varðandi eignarhald á þessum heiðum, sem hv. þm. Eiður Guðnason var að draga í efa, þá liggja t.d. tvímælalaust bréf fyrir um eignarhald á Auðkúluheiði. Hún var hluti af prestssetrinu Auðkúlu og keypt af viðkomandi hreppum á sínum tíma, í ráðherratíð Jóns Magnússonar, og með skilmerkilegum bréfum. Það er alveg ástæðulaust að vera að gera því skóna að eignarhald á þessu landi sé ekki fullkomlega formlegt.

Niðurstaðan er sem sagt þessi, að helmingurinn af þessum aukakostnaði kemur bændum ekkert við og drjúgur hluti af hinum kostnaðinum er ónýtanlegur fyrir bændur.