19.12.1983
Efri deild: 38. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2109 í B-deild Alþingistíðinda. (1816)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þau orð ráðh. að gott sé að umræða eigi sér stað um mál sem þetta. En ég get ekki um leið lýst því yfir að sú umræða sem hefur átt sér stað um málið hingað til hafi verið nægjanleg. Því miður hefur þetta mál borið hér að með þeim hætti að allar umræður í þjóðfélaginu og jafnvel hér á Alþingi hafi verið takmarkaðar. Einnig vil ég taka undir þau orð ráðh. að við þurfum að gera okkur fullkomlega grein fyrir því þegar við fjöllum um þetta frv. og við eigum að undirstrika það að við erum öll sammála um að við viljum fara með fullri varúð að því að nýta þær auðlindir sem hér er verið að ræða um og við vitum að eru og hafa verið grundvöllur allra framfara hér á undanförnum áratugum. Þess vegna er mikið atriði þegar um jafn mikilvægt mál sem þetta er að ræða að kappkostað sé að um það verði samkomulag. Það hefur tekist hingað til þegar teknar hafa verið mikilsverðar ákvarðanir í sambandi við nýtingu fiskveiðilögsögu okkar að ná um þær fullu samkomulagi flokka og almennings í landinu. Í fyrsta skipti núna eiga þeir hlutir sér stað að þetta er gert með ákveðinni, ég vil nú ekki segja valdbeitingu, það er langt frá því, heldur með því að ganga fram hjá því að undirbúa þetta mál meðal allra þingflokka, atmennings og hagsmunaaðila í landinu.

Við fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna í sjútvn. buðum rétt fyrir kl. 10 að fundi skyldi frestað í hv. deild svo að enn yrði leitast við að ná fullu samkomulagi í þessu máli. Við bentum á að ekki væri svo mikill skoðanaágreiningur um þetta mál að það hlyti að vera hægt. Hv. formaður tók ekki afstöðu í þessu máli, en ég vænti þess að hann hafi borið hæstv. sjútvrh. skilaboð okkar. En til okkar hafa ekki, svo ég viti til, komið nein skilaboð um að þess verði freistað að leita þessara leiða. Ég vil, ef vilji er fyrir því að okkar tilboði verði tekið, ítreka það og bið formann sjútvn. að segja af eða á um það hvort við mættum kannske fresta umr. og hefja frekari viðræður í n. (VI: Ég hef ekki borið þau boð enn þá, fékk þau rétt fyrir kl. 10. Því hefur ekki verið hafnað af forseta.) Ég skil það svo að ekki séu talin tök á að taka tilboði okkar. Þykir mér það mjög miður, en enn vil ég segja að jafnvel þó að svo sé gert sé enn til þess tími.

Hæstv. sjútvn. nefndi áðan dagsetningu. Hann sagði að ákveðnir hlutir hefðu skeð miðvikudag eftir Fiskiþing. Við miðum okkar dagatal við merkilegan hlut, og ég vona stóran hlut, í okkar trú. En ég vona að í atvinnulegri sögu verði ekki þessi dagur áfram notaður sem viðmiðunardagur um stór mistök í sjávarútvegsmálum okkar Íslendinga, dagurinn sem Fiskiþing lagði til ákveðnar tillögur um kvótauppbyggingu hér og raunverulega var gengið frá því frv. sem nú liggur fyrir til umræðu.

Við erum núna að hefja okkur upp eftir öðrum framsóknaráratugnum. Þetta mál tengist fyrri áratug og hinum öðrum áratug Framsóknar dálítið mikið. Í lok fyrri áratugarins og nú í byrjun annars eru framsóknarmenn sjávarútvegsráðherrar á Íslandi. Mér finnst ekkert geta undirstrikað frekar hvað geysileg mistök hafa átt sér stað í stjórn sjávarútvegsmála á þessum framsóknaráratug en það frv. sem hér liggur frammi. Það er jafnan leið þeirra manna þegar mistök hafa orðið að biðja um aukið vald. Enginn stimpill er augljósari en þegar manni hefur mistekist eitthvað að leita þá sem fastast eftir því að halda verkinu áfram, fá aukið vald, jafnvel þó allt sé rangt gert og einmitt það á sér hér stað. Ráðh. og stefna sem hefur mistekist biður um aukið vald.

Og það er dálítið merkilegt að sá flokkur sem hefur talið sig vera umboðsaðila og stjórnunaraðila í landbúnaðinum skuli nú koma til sjávarútvegsins þegar hann er þar í forsvari og fara fram á að fá í sínar hendur allt vald þeirrar atvinnugreinar. Landbúnaðinum hafði þó við sömu skilyrði verið falið af sjálfum forustumönnum landbúnaðarsamtakanna að stjórna sínum eigin kvóta. Og ekki eingöngu að stjórna sínum eigin kvóta heldur einnig að búa til dómstól og úrskurða um þau deilumál sem upp skyldu koma.

Undanfarið sumar og þó sérstaklega frá valdatöku þeirrar hæstv. ríkisstj. sem nú situr hefur verið hér á landi mjög neikvæður áróður um sjávarútveg. Það byrjaði raunverulega með þeirri aðgerð hæstv. ríkisstj. að fella gengið, að lýsa því yfir að gengisfellingin væri nauðsynleg vegna sjávarútvegs og útgerðar á Íslandi. Annað eins öfugmæli hefur raunverulega varla heyrst. Stór hluti flotans stendur frammi fyrir því að allur afli yfirstandandi árs fer í að borga þann skatt sem ríkisstj. lagði á flotann með þeirri gengisfellingu. Nokkrir mánuðir liðu og þá skeður það, sem ég veit ekki til að hafi gerst í íslensku bankakerfi eða í íslensku sjóðakerfi fyrr, að allt í einu er kominn í dagblöð og fjölmiðla á Íslandi listi yfir skuldara Fiskveiðasjóðs Íslands. Þetta er mjög sérkennilegt og getur varla átt sér stað öðruvísi en að menn í æðri valdastöðum hafi leyft þetta. Gagnvart sökudólgunum eru þetta slík vinnubrögð og slík niðrun að varla er um það hægt að tala.

Bæði þessi atriði sem ég hef nefnt, gengisfellingin og þessi þáttur, eru verk ríkisstj. eða yfirboðara þessara stofnana og engra annarra. Annað hefur ekki raunverulega lítillækkað íslenskan sjávarútveg meir. Eða tal um að verið sé að bjarga útveginum með því að leggja á hann gengisbyrðar og svo láta það ske rétt á eftir að skuldalisti þessara fyrirtækja sé birtur opinberlega og aðilum nuggað upp úr stöðu sinni.

Á svipuðum tíma gerðist það sem hæstv. sjútvrh. nefndi hér áðan. Hæstv. ráðh. fór um landið og hélt fundi með hagsmunaaðilum og það skal hann hafa þakkir fyrir. Þar voru ýmis mál rædd eins og vera ber. Þar sagði hann hagsmunaaðilum og þeim sem sóttu þessa fundi m.a. frá skúffufrv. síns fyrirrennara og undirstrikaði að í því frv. væru þættir sem hann gæti ekki fellt sig við.

Á þessum fundum skýrði ráðh. frá því sem hann hefur reyndar margoft sagt á hv. Alþingi að hann væri mjög mótfatlinn því að mikið vald væri fært í hendur rn. og sínar og á þessu hefði verið hamrað í sjútvn. og annars staðar, að menn væru yfirleitt mótfallnir því að færa ráðh. svona mikið vald. Fram kemur í grg. hæstv. sjútvn. í Nd., með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin telur í sjálfu sér óæskilegt að Alþingi feli ráðherrum víðtækt vald til ákvarðana án skýrra lagafyrirmæta um efnisatriði slíkra ákvarðana.“

Menn lýsa því yfir hver sem betur getur, jafnt ráðh. sem aðrir, að þetta sé óæskilegt þegar verið er að framkvæma það. Af hverju er það þá framkvæmt? Ég held að slík öfugmæli á hv. Alþingi falli raunverulega ekki inn í eðlilega umr. Í öðru orðinu segja menn að þeir séu á móti en um leið og þeir fara að greiða atkv. samþykkja þeir.

Það er reyndar oft leið þeirra sem vilja fá mál samþykkt að haga sér þannig að segjast vera á móti máli, ef það er illa séð, en samþykkja það síðan. Mér virðist einmitt að þessi vinnubrögð hafi verið notuð hér. Bæði hæstv. ráðh. og stuðningsmenn hans á Alþingi hafa rekið þessa pólitík, sagst vera á móti málinu en leggja sig nú alla fram við að fá það samþykkt á hv. Alþingi.

Í framhaldi af þessu fóru að koma ýmsar skoðanir fram hjá hæstv. ráðh., sérstaklega þegar hann kom á þing Landssambands ísl. útvegsmanna. Og skyldu þær ekki hafa verið í bjartsýnistón? Nei, ekki aldeilis. Það var nákvæmlega sami tónninn og áður hafði verið, sami tónninn og ríkisstj. hafði haft uppi gagnvart íslenskum sjávarútvegi. Talað var um að nú skyldum við reyna að skipuleggja málin þannig að við skyldum borga mönnum fyrir að liggja í landi. Ekki nóg með að því væri slegið upp oft og mörgum sinnum að þetta væri ein af leiðunum, minnka flotann með því að borga mönnum fyrir að vera í landi — aldrei var nú skilgreint hvernig skyldi farið að því — heldur var bætt við: Ja, við skulum leggja nokkrum togurum. Við ættum kannske að leggja togurunum hérna í Faxabugtinni vegna þess að þeir eru gerðir út frá stöðum sem eru fjölmennir og ekki ber eins mikið á því þó þeim sé lagt. Þar með var ekki verið að tala um að þessir togarar hafi á undanförnum árum veitt tiltölulega lítinn þorsk, aðalstofninn sem við viljum nú verja. Þessir togarar hafa á undanförnum árum fyrst og fremst — kannske til að bjarga atvinnu í stórum byggðarlögum — verið að veiða allt aðra fisktegund en við höfum þurft að verja aðallega. Togarar á Akranesi sem hafa eingöngu stundað karfaveiðar og togarar hér í Reykjavík sem hafa eingöngu stundað karfaveiðar.

Allt í einu var þessi lausn komin án þess að nokkur rök væru fyrir henni og án þess að ráðh. væri raunverulega að lýsa því yfir að hann væri fylgjandi þessari lausn, heldur var þetta nefnt, bæði að borga togskip í landi og að stoppa einhvern ákveðinn hluta togaraflotans. Þarna var verið að búa til hræðsluáróður og ekkert annað. Verið var að undirbúa fólk undir að hér kæmi fram lagasetning sem menn skyldu samþykkja. Verið var að búa til hræðslu í landinu, ekkert annað. Fram að þeim degi að Fiskiþing kom með sína tillögu hafði varla verið nefndur kvóti. Hin trausta ríkisstjórn á Íslandi hafði ekki myndað sér skoðun um það hvernig ætti að bjarga vandamálum sjávarútvegsins og aflaleysi.

Fiskiþing kom saman. Ég skal upplýsa hv. deild um hvað margir fulltrúar af Vesturlandi eru á Fiskiþingi. Það er einn. Fiskiþing kom saman og samþykkti ályktun um hvað gera skyldi og svo virtist sem allt í einu væru öll mál leyst. Út frá þeirri samþykkt var hægt að leggja þetta frv. fyrir Alþingi og út frá þeirri samþykkt var allt í einu hægt að fara að vinna í öllum tölvustofnunum þjóðfélagsins til að reikna út hvernig kvóta skyldi komið á. Þetta er sterk ríkisstjórn sem við höfum. Hún vill miklu frekar taka mark á einum fulltrúa frá Vesturlandi en okkur Valdimar og jafnvel þó Davíð væri með. Ekki var hægt að leysa þetta í gegnum Alþingi heldur var Fiskiþing allt í einu orðið þessi úrvalsleiðbeinandi í þessum málum.

Ég held að rétt sé að víkja að því sem ég sagði frá í upphafi. Við munum í auknum mæli þurfa að finna til þess að við erum að njóta afrakstrar framsóknarstjórnarstefnu í sjútvrn. Leiðin sem er valin til að koma þessu máli í gegn er einmitt af þeim toga. Þetta er valdaþörf ákveðins flokks, ákveðins kerfis í þjóðfélaginu sem verið er að koma þarna í gegn. Vinnubrögðin eru akkúrat í þeim anda. Bæði hjá alþm. og almenningi í landinu er skipulega lætt inn ótta. Og allt í einu er svo slegið fram lausnarorðinu: Við skulum láta sjútvrh. hafa öll völd til að stjórna fiskveiðum á Íslandi næsta árið. Eftir það skulum við svo líta á hvernig málin standa. Það er sagt en við vitum að þegar slík lög eru samþykkt einu sinni er erfiðara að ganga til baka.

Í þessu frv. felst mikil vantrú á samtök. Jafnvel þó að við höfum heyrt fyrir stundu úr ræðu ráðh. yfirlýsingar um að fulltrúar ýmissa samtaka hafi lýst því yfir að þeir teldu ekki æskilegt að lagabinda samráð finnst mér það frekar holur tónn. Ef við eigum að stjórna þessari náttúruauðlind rétt er ég ekki í neinum vafa um að besta leiðin til þess er að gera heildarsamtök bæði útvegsmanna og sjómanna og fleiri samtök sem ábyrgust, ekki aðeins að hægt sé að búa til einhvern samningsramma utan um þetta eða samráðsramma, heldur að þessir aðilar séu ábyrgir þegar verið er að taka ákvarðanirnar. Það sé ekki hægt að segja: Jú, þeir samþykktu það hjá LÍÚ og Sjómannasambandinu en það var bara samráð. Það er mikill munur á því að heita samráðsmaður eða maður sem skal taka ákvörðun með einhverjum aðila. Og mér finnst að í allri umræðu um þetta frv. og um hvaða munur sé þarna á milli sé allt of lítið úr því gert.

Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson fór nokkrum orðum um það í hv. Nd. að hverju stefndi í sambandi við íslenskan sjávarútveg og hvað það þýddi að setja slík valdalög yfir þá atvinnugrein. Ég held að ekki sé ástæðulaust að fara nokkrum orðum um uppbyggingu og eignarþátt almennings og einstaklinga í íslenskum sjávarútvegi einmitt þegar hér er verið að ræða um að fela ákveðinni ríkisstofnun eða rn. allt of mikil völd yfir þessari atvinnugrein.

Í lok síðustu aldar var hér allmikil skútuútgerð. Hún var að miklu leyti byggð á kapítali, það voru eigendur sem áttu nokkuð margar skútur. Miðað við okkar þjóðfélag mætti segja að þarna voru stórútgerðarmenn miðað við annað eignahlutfall í þjóðfélaginu. Ósköp skeður svipað þegar togaraútgerðin kemur og fer að hasla sér völl hér, að mynduð eru ansi myndarleg fyrirtæki, má segja allt að því stórútgerð. Við munum vel eftir fyrirtækjum eins og Kveldúlfi og Alliance, Einari Þorgilssyni í Hafnarfirði. Þetta voru fyrirtæki sem ráku allstóra útgerð, útgerð eins og nú á sér stað á Íslandi. Útgerð almennings var mjög lítil. Það voru þá helst árabáta- og trillukarlar. Alliance og Kveldúlfur áttu hér stórar fiskverkunarstöðvar, unnu sinn fisk og þurrkuðu og eins var með þá útgerð sem ég nefndi í Hafnarfirði.

Upp úr kreppunni byggja þessi fyrirtæki sig enn betur upp. Þeir leggja í að byggja miklar síldarverksmiðjur á Norðurlandi, bæði Alliance, Kveldúlfur og Einar Þorgilsson sem ég nefndi og reyndar Geir Þorsteinsson og fleiri. Þeir eru sem sagt sterkt atvinnuafl í þjóðfélaginu. Og mér er sem ég hefði séð þá höfðingja sem stjórnuðu þessum fyrirtækjum standa frammi fyrir því að eitthvert ríkisapparat ætti að segja þeim fyrir hvað þeir skyldu gera. En látum það nú vera.

Skjótt skipast veður í lofti. Styrjöldin skall á og Íslendingar fiskuðu mikinn fisk fyrir Bretann og fluttu hann að meginhluta út ísaðan. En í lok stríðsins gerðist það að mynduð var hin svokallaða nýsköpunarstjórn með meginhluta Sjálfstfl., Alþfl. og Sósíalistaflokks. Þá var hafin atvinnuuppbygging, sérstaklega í sjávarútvegi. Þá var skipulögð uppbygging og endurbygging á íslenska togara- og bátaflotanum.

En það merkilega sem skeði þá var að þessir stóru aðilar, Kveldúlfur og Alliance, komu frekar að þessari uppbyggingu sem frekar litlir aðilar. Og ýmsir í togaraútgerð — ég vil ekki eigna þessum fyrirtækjum það — héldu því jafnvel fram að það væri alveg rangt að fara að kaupa ný skip, við gætum notað okkar kolakláfa sem við höfðum fætt Bretana á í stríðinu, við gætum notað þá enn um nokkur ár. Sú varð ekki raunin á en nýsköpunarstjórnin stóð fyrir stórkostlegri uppbyggingu. Milli þrjátíu og fjörutíu togarar komu og þeir dreifðust vítt og breitt um landið. Stór hópur vélbáta kom og eigendur þeirra vélbáta voru svolítið merkilegir kallar. Það var kannske trillukarlinn sem hafði róið hér út á Svið eða trillukarlinn sem hafði farið út í Keflavík og sótt sér í soðið. Vítt og breitt um landið gerist það allt í einu að almenningur á Íslandi er orðinn útgerðarmenn.

Nákvæmlega hið sama skeður í sambandi við togarana. Þeir dreifast vítt um landið. Þar eru búin til alls konar hlutafélög um að taka þennan eða hinn togarann til reksturs og útgerðar. Þetta er fyrsta stóra stökkið þar sem við færum hinum íslenska sjómanni raunverulega verkfærin upp í sínar eigin hendur til að stjórna þeim. Þetta er fyrsta stóra skrefið. (Gripið fram í.) Nei, í nýsköpuninni. (Gripið fram í.) Það er á annan máta, hv. þm. Vitaskuld á sér stað bylting þá en hún er á annan máta. Eins og ég sagði áður eru það eignaraðilar í landi, raunverulegt kapítal, sem eignast þessi skip en ekki alltaf, eins og ég nefndi áðan, skipstjórar og almenningur. Þó að það hafi átt sér stað í mörgum tilfellum þar var það þó öðruvísi byggt upp. En þetta verður miklu stærra og mikilfenglegra skref sem á sér stað þarna í sambandi við nýsköpunina.

Ég gæti rakið þessa sögu ár frá ári en ég ætla ekki að eyða tíma hv. deildar í það. En svo koma aðrir kaflar, aðrir þættir, önnur tímabil sem halda þessu áfram. Nákvæmlega sama skeður þegar við byggjum upp síldarflotann okkar, m.a. s. á tímabili viðreisnar. Sama skeður 1956 og 1958 þegar tappatogararnir koma. Og enn skeður það sama þegar togarabyltingin síðari á sér stað. Þetta eru eignir sem dreifast vítt um landið og lenda yfirleitt í höndum manna sem hafa verið sjómenn og félagslegir fulltrúar í byggðunum. Það á sér m.a. s. þannig stað að við rekumst nú á fyrrv. formenn verkalýðsfélaga víða í þeirri stöðu að þeir séu framkvæmdastjórar fyrir fyrirtækjum. Ég tel mína stöðu að mörgu leyti einmitt til komna vegna þessarar þróunar. Vegna þess að ég var í félagslegri forustu í mínu byggðarlagi er mér bara allt í einu ýtt út í að taka við forustu í svona atvinnuuppbyggingu. Þetta á sér stað hringinn í kringum landið.

Núna á að fara að stjórna þessu liði með valdi héðan úr Reykjavík án þess að í lögum sé bundið að þeirra samtök skuli vera ákvörðunaraðilar um leið. Mér finnst þetta svo fráleitt og svo mikil lítillækkun gagnvart þessu fólki að það tekur engu tali.

Bak við lagasamþykktina er eins og ég nefndi áðan margyfirlýst samþykkt Fiskiþings um að koma á kvóta. Ég veit að margir hafa á undanförnum árum lýst yfir: Ég er samþykkur kvóta. Það verður bara að koma kvóta á. Þeir eru mjög fáir sem hafa verið mótfallnir kvóta. Einn og einn hefur verið það varkár að hann hefur sagt: Ja, ég er hvorki með kvóta eða á móti kvóta. Ég vil sjá hvernig kvóti er. Þannig hef ég haldið á málum. Ég hef ekki viljað lýsa yfir að ég væri samþykkur einum eða neinum kvóta en ég geri mér fyllilega grein fyrir því að stjórna þarf íslenskum fiskveiðum. En að lýsa því einfaldlega yfir að ég samþykki kvóta hvernig sem hann verður, það er út í bláinn. Þegar menn fóru að skoða þá yfirlýsingu sem kom frá Fiskifélaginu um að setja skyldi kvóta og deila í með afla þriggja síðustu ára o.s.frv. fóru þeir allt í einu að átta sig. Ja, ég var nú kannske ekki samþykkur þessum kvóta. Ég var samþykkur kvóta sem færði miklu meira í minn hlut. Þeir eru fleiri og fleiri sem gera sér grein fyrir að sá kvóti sem við erum að tala um núna verður illframkvæmanlegur, því miður, kannske má segja það.

En þessi kvóti hefði að mínu mati verið framkvæmanlegur hefði verið tekið öðruvísi á málum, hefði verið farið að ræða þessi mál fyrr, hefði t.d. í september verið sest niður og tekin ákvörðun um að á næsta ári skyldu menn fara úf í kvótann. Og ég segi að engin rök eru fyrir því að það skyldi ekki hafa verið gert. Svarta skýrslan var alls ekki sá hnykkur sem þurfti að kalla á okkur til að við þyrftum að stjórna fiskveiðum á Íslandi. Það er af og frá.

Kvótanum til ágætis hafa menn líka sagt að vel hafi tekist að stjórna síld- og loðnuveiðum á Ístandi með kvóta. Það er alveg rétt. Ég ætla ekkert að bera á móti því þó að ýmsir annmarkar séu, sérstaklega í sambandi við síldveiðina, sem væri hægt að tala talsvert um. Ég ætla samt ekki að gera það hér. En ég get aðeins sýnt hv. dm. súlurit um það hvernig tekist hefur að landa síldinni og hvað mikil skipulagningin er í gegnum þennan kvóta gagnvart veiðum og vinnslu. En loðnan og síldin eru vitaskuld allt öðruvísi fisktegundir. Þetta er torfufiskur sem hægt er að ganga í nokkurn veginn örugglega á ákveðnum stöðum og fiskileitarskip okkar hafa yfirleitt getað bent flotanum á hvar hann væri að finna. Vinnslan er líka öðruvísi. Loðnunni er landað dálítið tækifærislega, þ.e. raunverulega út frá því hvar miðin eru. Aldrei hefur verið undan því kvartað og ekki skiptir mjög miklu máli hvar loðnunni er landað í sambandi við atvinnu nema kannske á fjórum, fimm stöðum á landinu.

Aftur á móti skiptir kvóti á bolfisktegundum raunverulega máli fyrir hvert einasta mannsbarn. Hægt væri að láta síldarkvótann skipta máli fyrir hvert einasta mannsbarn ef honum væri svolítið stjórnað en hann er ekki gerður þannig að atmenningur á Íslandi njóti vinnu og arðs af síldinni sem skyldi.

Bent hefur verið á ágæti kvótans á ýmsan veg. Á móti því er sjálfsagt ekki hægt að bera. Talað er um að betri nýting verði á fjárfestingu í útgerð. Ég geri ráð fyrir að svo megi vera ef hugmyndir þeirra sem eru með kvótann fyrir sig og vilja láta færa saman kvóta á milli skipa ná allar fram að ganga. Annar hópur segir: Það er ekki sá kvóti sem ég vil. Ég vil ekki láta færa neitt á milli skipa. Það má ekkert sameina á milli skipa. Ákveðin rök eru fyrir því að það sé hættulegt. Sú skipshöfn sem er kannske með tvöfaldan kvóta, fær kvóta frá öðru skipi, er með tvöfaldar tekjur. Hvers eiga hinar skipshafnirnar að gjalda sem hafa verið dæmdar til að vera með lítinn kvóta? Þessi rök eru því frekar vafasöm og léttvæg í þessari umræðu.

Talað er um að kvótinn skili okkur betri fiski. Ég sé engar líkur á því að svo verði fyrir árið í ár. M.a. vegna þess að sótt verður í þann stofn sem við höfum í sjónum núna af engu minni hörku en gert hefur verið á undanförnum árum. Sá fiskur sem við höfum í sjónum eða við gerum okkur áætlanir um að sé í sjónum er svo lítill að hver fiskimaður þarf að byrja í upphafi árs ef hann á að tryggja að hann haldi sínum kvóta og sínum hlut í veiðarfærum. Enginn fiskimaður vill koma með síðasta fiskinn að landi eða vera síðastur með sinn hluta. Af öllu afli verður gengið til veiða á íslenskum fiskimiðum í ár hvort sem verður kvóti eða ekki. Þar af leiðandi eru líkurnar fyrir því að slík breyting á veiðiaðferð breyti einhverju um gæði afla dottnar upp fyrir.

En þessu fylgir annað sem kannske er miklu alvarlegra. Kvóti sem er afmarkaður á ákveðið fiskmagn eykur þá hættu sem mikið hefur verið rædd bæði hér á hv. Alþingi og meðal sjómanna og alls almennings í landinu, þ.e. að meira og minna af þeim afla sem á skip fæst sé kastað í sjóinn aftur. Það ýtir undir að sjómaður sem hefur fengið lélegt hal, smáfiskshal, kasti því í sjóinn aftur vegna verðleysis þess, vegna þess hvað er lítið verðmæti fyrir þann fisk að hafa. Ef þær sögur eru sannar sem okkur hafa verið sagðar, að þetta hafi átt sér stað á undanförnum árum, hlýtur það að eiga sér stað í margföldum mæli ef kvóti kemst á.

Ekki nóg með að við hér sunnanlands höfum verið átalin fyrir að veiða lélegan fisk sem sjálfsagt hefur stundum verið satt í sambandi við netaveiðarnar. Allt í einu kemur upp hvati til sjómanna að láta nú þriggja og fjögurra nátta fiskinn detta út fyrir í staðinn fyrir að færa hann í land. Svo vont sem það hefur verið að setja þann fisk í skreið er hann verr kominn í hafið aftur. Þá þýðir það raunverulega að sá kvóti, það aflamark sem er búið að tilkynna okkur núna, 220 þús. tonn, er ekkert nema nafnið. Menn halda áfram að slást um að veiða miklu meiri afla en þetta. Það verða ekki aðeins 220 þús. tonn, það verða jafnvel 240–300 þús. tonn. Og ekki nema 220 þús. til lands. Þetta er ein stærsta hættan sem við erum að bjóða heim með því kvótafyrirkomulagi sem rætt hefur verið um.

Talað hefur verið um að við sem höfum gagnrýnt kvótann bendum á fáar leiðir. Það er alveg rétt. Því miður hefur ekki verið svigrúm til að ræða á breiðum grundvelli hvaða aðrar leiðir væri hægt að fara en kvótaleiðina. Aðalorsök þess að sú umræða hefur ekki komist af stað er hversu seint þetta mál er á ferðinni. Ef tekin hefði verið ákvörðun í september í haust um að stjórna fiskveiði hér á næsta ári með kvóta eða með ákveðnum reglum hefði málið legið allt öðruvísi fyrir. Ég hef heyrt tillögur frá bæði togara- og bátaskipstjórum um að sú leið sem við ættum að fara núna þegar mál standa eins og þau gera hjá okkur í dag, allt illa undirbúið og allt verið að gera á síðustu stundu, auðveldasta leiðin til að stjórna aflasókn á Íslandi næsta ár sé að takmarka veiðidagafjölda, að byrja á því að framlengja þorskveiðibannið fram í miðjan janúar eða kannske lok janúar og um leið á ákveðnum dögum eftir þetta að banna allar fiskveiðar á Íslandi ákveðinn tíma.

Jafnframt þessu mætti lengja löndunartíma fiskiskipa, þá sérstaklega togara. Takmarka mætti úthaldstíma báta líka og þegar er byrjað að gera það. Þegar er byrjað að takmarka veiði báta á netaveiðum til 15. febrúar. Það mætti færa þetta út í auknum mæli. Ef í ljós kæmi eftir vetrarvertíð að enn þyrfti að takmarka aflasókn mætti hreinlega fyrirskipa ákveðið sumarfrí á íslenskum fiskiskipum. Það þýddi að aðalókostir kvótans yrðu lagðir til hliðar en aftur á móti væri hægt að hafa stjórnun á sókn í aflann. Sá þáttur sem launþegar á Íslandi hafa fyrst og fremst bent á er að með kvóta verður yfirvofandi atvinnuleysi hjá okkur. Og ekki aðeins með kvóta heldur líka með stjórnleysi, segja þeir. Það er alveg rétt. Með því að stjórna ekki og með því að hafa vitlausan kvóta vofir yfir okkur atvinnuleysi næstum því hvenær sem er, í hvert skipti sem þetta eða hitt skipið er búið með kvótann sinn blasir við atvinnuleysi í byggðinni.

Með því móti að fara að þeirri hugmynd sem ég hef nefnt hér er sem sagt hægt að skipuleggja þann tíma sem fólk þarf að leggja niður vinnu. Og það er ekki of mikil tilætlun að þetta fólk yrði þá tryggt með beinum launum annaðhvort á vegum Atvinnuleysistryggingasjóðs eða í gegnum eitthvert kerfi sem upp væri komið. (Gripið fram í.) Ég tók líka vetrartímann. Ég tók hugmynd Eyjólfs Konráðs Jónssonar, að byrja einmitt núna, 20. des., og halda fram eftir janúarmánuði. Þetta má svo útfæra á ýmsan veg.

Hæstv. ráðh. nefndi að þróaðar hefðu verið samráðsleiðir við hagsmunaaðila. Ég skal ekki bera á móti því að miðað við sjónarmið rn. séu þessar leiðir vel þróaðar, en ég segi fyrir mitt leyti að mér finnst þær ansi einkennilega þróaðar. Ég nefndi áðan að svo virðist sem ráðh. hafi tekið mjög mikið mark á tillögum Fiskiþings. Langt er frá því að ég geri lítið úr Fiskiþingi en það er ekki betur byggt upp en ég nefndi, að af öllu Vesturlandi er einn fulltrúi, ágætur maður. En til að taka stórákvörðun í slíku máli sem þessu finnst mér Fiskiþing frekar veigalítil stofnun til að leggja raunverulega fullnaðarákvörðun í hendur ráðh.

Þegar við erum að tala um Fiskifélagið, LÍÚ, Sjómannasambandið, Farmannasambandið, SH, SÍS, SÍF og Skreiðarsamlagið erum við oftast að tala um framkvæmdastjóra, stjórnarformann eða eitthvað þess háttar. Þegar við í sjútvn. Ed. eða í sameiginlegum sjútvn. fórum að spyrja þá höfðingja sem komu til okkar um umboð þeirra, hvernig þeir hefðu rætt þessi mál í sínum stjórnum, kom fram að LÍÚ hafði rætt þetta mál, ekki gert samþykkt um það á sínum fundi eins og okkur er öllum kunnugt um, en hafði til þess nefnd sem tók ákvörðun. Aðrar stofnanir sem þarna komu höfðu lítið eða ekkert rætt þetta mál enda höfðu þær ekki aðstöðu til þess vegna þess að ekkert hafði verið lagt fyrir þær og þær vissu ekkert um að þetta stæði til. Samráð við slíkar stofnanir og ágæta menn eru náttúrlega ekki nein félagsleg samráð. Það liggur alveg ljóst fyrir að ef þessir menn hefðu ákvörðunartektarvald með ráðh. mundu þeir hafa öðruvísi samráð við sín félög en þeir virðast hafa haft í sambandi við þetta mál núna. Það liggur alveg í augum uppi.

Hér hafa verið nefndir samráðsaðilar. En í sambandi við þetta mál er mín skoðun sú að sveitarstjórnirnar séu kannske einna mikilvægustu samráðsaðilarnir sem þyrfti að ræða við þegar út í slíka hluti er farið eins og hér er verið að leggja til. Það hefur ekki verið gert. En það var gert og hefur verið gert, eins og ég sagði áður í ræðu minni, þegar um svipuð mál og þessi hefur verið að ræða. Þá hafa fulltrúar rn. og ráðherrar sjálfir komið út og rætt á opnum almennum fundum um þessi mál. Þegar verið var að ákveða hólfin í fiskveiðilandhelginni var það gert á þann veg. Það á ekki að búa til þá grýlu að þetta mál sé einhvern veginn miklu erfiðara til umræðu en það mál, að ekki sé hægt að ræða það á slíkum vettvangi sem þá var gert. Það er af og frá.

Lítið hefur verið rætt um mesta vandamál íslenskrar útgerðar í dag, það hefur varla komið inn í þessa umr. Það er rekstrargrundvöllurinn, það er rekstrargrundvallarræfillinn. Hann þarf kannske ekki þegar á verður kominn kvóti. Kannske þarf ekki að hafa neinn rekstrargrundvöll fyrir bát sem hefur verið skammtaður 200 tonna kvóti. Ég veit ekki hvernig á að finna rekstrargrundvöll fyrir slíkt skip. Ég er alveg undrandi á að þessir síðustu dagar Alþingis skuli ekki vera að einhverju leyti notaðir til að láta Alþingi heyra eitthvað um hvað hæstv. sjútvrh. og ríkisstj. ætlast fyrir í sambandi við rekstrargrundvöll flotans. Það er ekki nefnt á nafn. Það eina sem hefur verið upplýst reglulega í sambandi við þau mál er skuldalistinn sem var birtur. Það er það eina. Ekkert hefur verið tekið á þeim vandamálum hvernig um áramót á að koma íslenskum fiskiskipaflota af stað. Ekkert hefur verið talað um fjármagnskostnaðinn, ekkert nema að auglýsa í blöðum hvernig ákveðinn hluti flotans er kominn. Ég sé ekki að þessi kvóti leysi í einu eða neinu þann þátt málsins sem ég tel að sé engu síður mikilsverður en skipulagning veiðanna og ætti vitaskuld að vera samhliða þeirri umræðu og þeirri ákvörðunartekt sem þar á sér stað. Fyrir hvorugu er nokkur grundvöllur. Það er enginn grundvöllur fyrir kvóta, það er enginn rekstrargrundvöllur ef við höfum ekki almennilega skipulagningu á veiðunum.

Hæstv. fjmrh. er nú hér staddur en ekki er langt síðan hann var í þessum ræðustól og lýsti því yfir að vandamál útgerðar skyldu leyst með einu pennastriki. (EgJ: Þetta er nú ekki alveg rétt eftir haft.) Hv. þm. Egill Jónsson segir að ég hafi kannske sagt hér heldur mikið. Ég skal alveg strax taka það til athugunar og segja að vandamálin skyldu leyst með pennastriki. Og kannske er pennastrikið komið. Kannske er pennastrik Sjálfstfl. komið í íslenskri útgerð með því að afhenda rn. meginhluta af völdum og sjálfstjórn þessarar atvinnugreinar. Það hélt ég að ætti nú ekki eftir að verða hlutskipi Alberts, hæstv. fjmrh., að úttæra sitt pennastrik á þann máta. En með stuðningi og framgangi þessa máls er vitaskuld verið að útfæra það á þann veg. Það er ekkert pennastrik í sambandi við íslenska útgerð á hv. Alþingi annað en þetta. En þetta er ansi stórt pennastrik. Einnig finnst mér þetta fara svolítið einkennilega á skjön við skoðanir hv. 4. þm. Norðurl. v. í sambandi við frelsi, frelsi við uppbyggingu sláturhúsa o.þ.h. Ég er hræddur um að þeir þyrftu að vera ansi margir þorskarnir sem þyrfti að leiða úr Framsóknarfrystihúsum, taka í sporðinn á, ef hann ætlaði að fara svipaða leið og hann fór með hrútinn. Lítið verður nú úr frelsistali þeirra höfðingja ef allt á að snúast á þann veg að allt eigi þetta að fara undir kapítal Framsóknar.

Virðulegi forseti. Ég vil enn á ný taka undir þau orð hæstv. sjútvrh. að nýta þurfi auðlindir okkar fiskimiða af mikilli varúð og þar þurfi ákveðinnar skipulagningar við. En sú skipulagning þarf að vera í höndum allrar þjóðarinnar fyrst og fremst, hún þarf að vera ákveðin í samstöðu meðal allrar þjóðarinnar. Skipulagning sem verður fyrst og fremst með marki boða og banna gengur aldrei upp. Ef taka á raunverulegt athafnafrelsi af hinum duglegu og framtakssömu sjómönnum okkar með einhverjum mjög flóknum kvótareglum sem ég hef nú ekki farið út í að skilgreina til hlítar enda hægt að halda langt mál um, held ég að sé mjög illa farið.

Ef skipstjórinn sem núna á væntanlega að taka við Viðey Reykjavíkur en áður fiskaði á Snorra Sturlusyni 5 þús. tonn og hefur nú ætlað sér að taka annað skip og lyfta því upp og fara með skipshöfn sína þangað yfir, ef það yrði 2 þús. tonna kvóti eða eitthvað svoleiðis, ef á að lítillækka íslenskan dugnað á þann máta held ég að sé rangt að farið.

Ef skipshöfnin sem hv. þm. Árni Johnsen nefndi áðan á Friðriki Sigurðssyni í Þorlákshöfn á að hirða kvóta einhvers gamals skips þar en horfa á eftir sínum aflakvóta og dugnaði norður fyrir land — reyndar til ágætis dugnaðarmanna þar sem eiga fulla heimtingu á að fá góðan kvóta — en ef þannig á að að fara held ég að þessi leið dæmi sig dauða. Hún dæmir sig dauða vegna þess að í þessu frv. er fyrst og fremst valdahroki og tilraun til valdaátaka í þjóðfélaginu. Verið er að búa til vald sem á að ganga yfir allar eðlilegar reglur án þess að til þess valds og til þess að taka það vald séu kallaðir þeir aðilar sem eru jafnsjálfsagðir og hagsmunasamtök þeirra aðila sem þessi mál bitna á.