19.12.1983
Efri deild: 38. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2121 í B-deild Alþingistíðinda. (1819)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Frsm. minni hl. (Karl Steinar Guðnason):

Virðulegi forseti. Athyglisvert er að þessa dagana ganga útgerðarmenn; stjórnmálamenn og alls konar menn um eins og frelsaðir væru. Þessi frelsun er svo yfirgengileg að helst mætti hugsa sér að slík frelsun hafi ekki átt sér stað frá kristnitöku í landinu. Þessir menn staglast sýknt og heilagt á kvóta og aftur kvóta. Kvótinn á að leysa öll hugsanleg mál. Kvóti á nú að veita allsherjar syndaaflausn, bæta upp misgerðir liðinna ára.

Það hefur verið deilt mikið um þennan kvóta og ekki að ófyrirsynju. Menn eru tortryggnir á hvernig framkvæmdin verður. Menn vita ekki hvað er fram undan. Ég hygg að það séu mikil mistök ef ekki verður leitast við í þessari deild að ná samkomulagi um hvernig menn vilja hafa þessa hluti. Ég hygg að ótrúlega skammt sé á milli manna í þessum efnum og ég skora á stjórnarsinna að beita sér fyrir því að ná allsherjar samkomulagi um þessi atriði.

Það er rétt að víðtækar heimildir eru uppi um stjórnun fiskveiða, en þó skortir á að hægt sé að binda fiskveiðarnar við ráðstjórn sem hugsað er að gera nú. Við höfum notað kvótakerfi eða skipulagningu á humarveiðum, rækju o.fl. en ekki varðandi þær tegundir sem menn hafa hvað mest fiskað hér við land og þótt hefur eðlilegt að ganga í eins og sjórinn væri ótæmandi. Þær svörtu skýrslur sem hafa birst á undanförnum árum segja okkur náttúrlega að sjórinn er ekki ótæmandi auðlind og við þurfum að gæta að okkur í þessum efnum. En ég vek athygli á að þær skýrslur sem hafa verið að berast hafa verið hver annarri svartari og menn hafa tekið misjafnlega mikið mark á þeim. Nú allt í einu á að nota þessa skýrslu sem fyrir liggur og menn eru hræddir sýknt og heilagt með því að allt sé að fara til fjandans. Ég leyfi mér að efast um að ástandið verði svo slæmt sem spáð er í þeim skýrslum sem nú hafa komið fram. Ég er sannfærður um að á þessum degi á næsta ári verði menn ekki búnir að veiða 220 þús. tonn. Ég er sannfærður um að það verði nær 260 þús. tonnum.

Víst er það frv. sem við erum hér að ræða um veigamesta mál sem Alþingi hefur fjallað um undanfarin ár og sá tími sem við höfum haft til að ræða þessi mál er allt of takmarkaður. Ég tel að undirbúningur málsins hefði mátt vera öðruvísi. Vitnað hefur verið í það að fyrr á árum, þegar menn þurftu að koma sér saman um svo veigamikið mál, hafi verið öðruvísi að því staðið. Má vera að mönnum hafi brugðið svo við þá skýrslu sem nú kom fram að menn hafi ekki farið í þann farveg, en ég tel það mjög miður að þess skyldi ekki freistað að taka upp meira samráð, meiri umræðu í þjóðfélaginu um þær breytingar sem gera á en gert hefur verið.

Vissulega eru til margar aðrar leiðir sem fara mætti en kvóti. Ég er ekki viss um að þær séu betri. Ég er viss um að kvóti kemur. Og ég verð að játa að kvótaskipting hlýtur að koma sem tilraun. En það sem ræður mikið afstöðu minni er tortryggni um það hvernig með verður farið. Hún gerir það að verkum að ég á mjög erfitt með að samþykkja þessa leið. T.d. má lengja löndunarfrí togaranna. Stöðva mætti veiðar lengur en gert er nú og það mætti koma til móts við fiskverkunarfólkið á þann hátt að greiða úr sameiginlegum sjóðum landsmanna og reyndar til sjómanna líka til að bæta upp það tekjutap sem þar verður því að vissulega erum við að fjalla um sameiginlegt vandamál. Við verðum að leysa það sameiginlega hvernig sem það verður gert.

Í umræðum um kvóta koma margar spurningar upp og ég geri mér grein fyrir því að ekki er hægt að svara þeim nú. En spurt hefur verið: Hvernig fer með kvótaskip sem hefur legið í reiðileysi af óhjákvæmilegum orsökum en er síðan standsett? Hvað verður úr þeim kvóta? Hvað verður um þann kvóta skips sem er seldur úr byggðarlagi? Á kvótinn að fylgja skipinu eða á kvótinn að verða eftir í byggðarlaginu? Þetta hlýtur vissulega að koma til ákvörðunar hverju sinni en ekki vitum við hvernig með verður farið.

Mikið er rætt um það þessa dagana að auka þurfi gæði fisksins. Ég er því mjög sammála að það verður að gera því að við getum bætt okkur upp það verðmætatap sem verður hugsanlega með minni afla með því að gera fiskinn verðmeiri. Ég tel að þáttur í að gera aflann verðmeiri sé m.a. að stýra því á hvaða veiðar menn fara. Ég leyfi mér að halda því fram að skynsamlegt sé að línuveiðar verði utan kvóta. Bæði er að línuveiðar skapa ótrúlega mikla atvinnu í landi og líka að fiskur sem veiddur er á línu er mun verðmætari en sá fiskur sem berst að landi fyrir tilstuðlan annarra veiðarfæra. Í 2. gr. frv. segir svo:

„Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. skulu dragnótaveiðar heimilar skv. sérstökum leyfum ráðh. Ráðh. getur bundið leyfi þessi og úthlutun þeirra þeim skilyrðum sem nauðsynleg þykja.“

Fyrir nokkrum árum fór fram mikil umræða um dragnótaveiðar. Þessar veiðar voru bannaðar í Faxaflóa. Niðurstaðan varð sú að opna fyrir dragnótaveiðum á ný. Voru þær bundnar ströngum skilyrðum og leyfum úthlutað til vinnslustöðva. Ég studdi þessa breytingu og tel að hún hafi verið mjög skynsamleg. Frá því að veiðarnar voru leyfðar hefur þessi veiðiskapur gengið mjög vel og á síðasta sumri veittu þessar veiðar hátt í 200 manns atvinnu.

Ég skil grein þessa frv. á þann hátt að nú sé fyrirhugað að auka dragnótaveiðar í Faxaflóa. Fiskifræðingar hafa lengi bent á að á því svæði væri vannýttur koli sem sjálfsagt væri að veiða. Í þeim upplýsingum sem ráðh. dreifði fyrir nokkru kemur einmitt fram að áætlað er að veiða 17 þús. tonn á næsta ári sem er margfalt meira en var á þessu ári.

Ég legg áherslu á að þrátt fyrir aukningu veiða verði þess gætt að reglum verði fylgt en ýmsu má breyta og ýmislegt lagfæra. T.d. er bannað að koma með meira en 15% af bolfiski vikulega. Ástæðulaust er að binda þessa reglu við vikuna eina. Miklu fremur væri rétt að binda hana við mánuð. Þá tel ég ástæðu til að rýmka um leyfisveitingar á þann hátt að þær verði ekki eingöngu bundnar við vinnslustöðvar, heldur geti útgerðir eða bátar einnig átt þess kost að fá leyfi, því að komið hefur fram að þeir sem fiskað hafa fyrir þessar vinnslustöðvar hafa ekki fengið greiðslur á tilsettum tíma.

Þegar rætt er um kvóta má velta því fyrir sér hvort ástæða er til að taka tillit til rekstrarkostnaðar útgerðar, hvernig hún er rekin. Líka er spurning hvort ekki er ástæða til að hugað verði að því hverjir eru með bátana, hvort það eru fiskifælur eða ekki. Í áliti Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda kemur fram að þeir eru mjög uggandi vegna þessa kvóta og leggja áherslu á að óréttlátt sé að binda kvótann eingöngu við það sem fiskað er á undanförnum árum, taka verði tillit til margra annarra atriða. Í þeim efnum er ég þeim sammála. Ég skil ekki af hverju talan þrjú ár er notuð sem viðmiðun. Ég tel að hyggilegra sé að hafa þetta fleiri ár. Ég frétti áðan að þetta er sama fyrirkomutag og notað er í landbúnaðinum. Þegar þeir fóru að takmarka við sig völdu þeir þrjú ár. Kannske er þetta komið þaðan, ég veit það ekki, en ég furða mig á því af hverju þessi þrjú ár eru endilega tilgreind og spyr sjútvrh. hvort nokkuð mæli á móti því að t.d. sé miðað við fjögur ár og árinu sleppt sem nú er að líða.

Í umræðum um þetta mál hefur nær eingöngu verið talað um hagsmuni útgerðarinnar en lítið vikið að öðrum þætti. Á ég þá við vinnsluna. Fólkið sem vinnur aflann er að sjálfsögðu afar háð því hvernig til tekst með skipulagningu veiðanna. Nú er svo komið að hundruð manna ganga atvinnulaus víða um land. Einkum er þetta fiskverkunarfólk sem því miður hefur séð vofu atvinnuleysisins ár eftir ár á þessum árstíma. Á sama tíma sigla togarar með aflann og á sama tíma er stundaður stórfelldur útflutningur á ferskum fiski með flugvélum, útflutningur sem vart er talinn borga sig. Ástæða er til að íhuga hvort ekki er rétt að banna þennan útflutning eða takmarka hann mjög og takmarka verulega siglingar skipa á erlendan markað. Ég tel nauðsynlegt og reyndar sjálfsagt að fulltrúar fiskvinnslufólks fái að fylgjast með mótun fiskveiðistefnunnar og hafa áhrif á hvert stefnt er. Á fundum hjá Verkamannasambandi Íslands og Alþýðusambandi Íslands hafa þessi mál mikið verið rædd og er einróma álit fólks á þeim vettvangi að samráð sé nauðsynlegt í öllu þessu máli. Auðlindirnar í sjónum eigum við öll og hver einasti hlekkur þessarar atvinnugreinar er nauðsynlegur, jafnt útgerðarmenn, sjómenn og verkafólk í landi.

„Hvað er hraðfrystihús?“ spyr Úa Umba í Kristnihaldi undir Jökli. Og Umbi svarar: „Það eru íslensk fyrirtæki. Spaugararnir reisa þau fyrir styrk frá ríkinu, síðan fá þeir styrk af ríkinu til að reka þau, þvínæst láta þeir ríkið borga allar skuldir en verða seinast gjaldþrota og láta ríkið bera gjaldþrotið. Ef svo slysalega vill til að einhverntíma kemur eyrir í kassann þá fara þessir grínistar út að skemmta sér.“

Ekki ætla ég að halda því fram að Umbi sé sannorður í þessu tilviki en ég hygg að margur verkamaðurinn og verkakonan hugsi á þennan veg þegar þetta fólk stendur frammi fyrir því að frystihúsum er lokað af alls konar tilefnum, alls konar ástæðum. Eftir situr fólk atvinnulaust og heimili tekjulaus.

Ég hygg að Umbi fari ótrúlega nálægt sannleikanum í þessum efnum. Ég tel að það sé hlutverk ríkisstj. og alþm. að tryggja fólki samfellda atvinnu, tryggja rekstur frystihúsanna, ákveða fiskveiðistefnu sem tryggir rekstur þessara fyrirtækja. Ég óttast að verði ekki haldið fimlega á stjórnun fiskveiða komi það afar illa niður á mörgum byggðarlögum, sjávarplássum sem nú síðustu árin hafa búið við þær breytingar að þorskafli hefur sífellt minnkað en karfaafli og afli annarra fisktegunda aukist eitthvað. Dæmi eru um landssvæði sem eru sérlega illa stödd í þessum efnum. Þetta landssvæði er ég þekki til þarf skv. hugmyndum frv. að una við óbreytt ástand burtséð frá því hvort fiskigengd eykst þar eða ekki.

Til að vega upp á móti minnkandi afla er alls ekki nóg að koma á ráðstjórn eða skömmtunarkerfi á veiðar. Það verður jafnhliða að skipuleggja vinnsluna, halda uppi fullri atvinnu og auka verðmæti afla. Verkafólk í landi er líka fólk og um það verður að hugsa á annan hátt en nú hefur verið gert. Atvinnu fólks má ekki setja í kvóta því það er ekki nauðsyn og ekki eðlilegt.

Eins og ég sagði áðan er ég ekki í vafa um að kvóti verður tekinn upp. En þegar hann verður tekinn upp verður að huga að mörgu og valdsmenn verða að gæta sín svo að þessi kvótaaflausn skapi ekki allsherjar ringulreið, svo að mistök og geðþóttaákvarðanir skrifborðsstjórnenda verði ekki öllum útveginum til mikils tjóns. Gæðamál eru mönnum hugleikin í þessu sambandi. Þau mál geta líka skipt sköpum um afkomu þjóðarbúsins og forðað því að minnkandi afli kollkeyri afkomu þess, heimilanna í landinu, útgerðarinnar og fiskvinnslunnar. Við Íslendingar höfum til þessa stært okkur af því að standa betur að vígi en samkeppnisþjóðir okkar í þessum efnum. Hins vegar vita allir sem til þekkja að margfalt betur má gera því gæðamálum okkar er mjög áfátt.

Nú þegar líklegt er að afli verði eitthvað minni en áður verðum við að átta okkur á ástandi þessara mála. Gera verður þjóðarátak í gæðamálum og meðferð fisks. Með slíku þjóðarátaki er hægt að framleiða verðmeiri vöru og skapa meiri þjóðarauð. Ég fullyrði að við Íslendingar getum bætt aflaminnkunina upp og miklu meira en það verði skynsamlega á gæðamálum haldið.

Þegar þessi mál eru rædd fer umræðan oft á víð og dreif og hver kennir öðrum um. Fiskvinnslan kennir útgerðinni um, sjómennirnir fiskvinnslufólkinu og fiskvinnslufólkið sjómönnunum. Vafalaust á hver sinn skammt í þessum efnum. Ekki er aðalatriði hver sökudólgurinn er, heldur hvernig betur verði gert. Ég hygg að helsta orsökin sé stundargræðgi og óstjórn sem bæta má úr, ekki aðeins með kvóta heldur á margan annan hátt.

Í þessu sambandi kemur í hug dæmi sem mér varð mjög hverft við á sínum tíma. Það var á vinnustaðafundi sem Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur hélt fyrir skömmu. Á þessum vinnustaðafundi útskýrði ég lögin um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Í þeim lögum er gert ráð fyrir að öryggistrúnaðarmaður hafi vald til að stöðva vinnu sé öryggi starfsfólks hætta búin. Á fundinum var lögunum fagnað og einkum því hve vald öryggistrúnaðarmanna er ótvírætt. Í lok fundarins komu nokkrar konur til mín og spurðu mig þar sem yfirmenn og stjórar heyrðu ekki til: Heyrðu, hvernig er það, má öryggistrúnaðarmaður stöðva vinnu þegar hráefnið sem við erum að vinna er svo illa lyktandi og ógeðslegt að maður hefst varla við? Ég varð að játa að til þess hefði öryggistrúnaðarmaður ekki vald.

Ég veit líka dæmi þess að háseti eða hásetar á togurum hafi verið reknir fyrir að átelja meðferð fisks og þá einkum smáfiskadráp Smáfiskadráp tala menn oft um en lítið er að gert. Ég hygg að smáfiskadráp viðgangist mun meir en menn vilja viðurkenna opinberlega. Taka þarf þau mál sérstökum tökum. Verknaður af slíku tagi er eitthvað það alvarlegasta sem við stöndum frammi fyrir nú um þessar mundir. Það eftirlitskerfi sem nú tíðkast er ónýtt. Það sanna ummæli skipstjórnarmanna og annarra sjómanna.

Ég óttast að kvótakerfið muni hafa í för með sér stóraukna hættu á smáfiskadrápi. Ekki er vafi á þegar menn hafa fengið úthlutað ákveðnum kvóta, heimild til að veiða ákveðið magn, að smáfiskur verði mönnum þyrnir í augum sökum þess að ekkert fæst fyrir hann. Hætta er á að þá taki menn til bragðs að henda slíkum fiski fyrir borð, velja það verðmætasta, kasta hinu. Ég tel að nú þurfi að stórauka eftirlit með smáfiskadrápi. Ég tel að núverandi kerfi sé gersamlega ónýtt. Það þarf að verja fjármunum til aukins eftirlits. Þeir fjármunir munu skila sér aftur og margfalt það.

Uppi eru margar skoðanir á því hvernig tryggja mætti betra eftirlit. Heyrt hef ég þá skoðun að sérstakir trúnaðarmenn verði skipaðir um borð í hvern fiskibát. Tel ég þá hugmynd ófæra því að ekki gengur að hafa tvo skipstjóra á hverjum bát. Það fyrirkomulag mundi einfaldlega ekki virka því að þeir sem slíkur trúnaður yrði falinn ættu afar óhægt með að gegna sínu hlutverki. Ég tel heppilegast að rn. leigi þrjá til fjóra 100–150 lesta fiskibáta til eftirlits. Áreiðanlegt er að þeir sem hvað minnsta kvóta fá eru fegnir að losna við skip sín til slíkra verkefna. Það er og ástæðulaust að hafa borðalagða menn og skrautmáluð skip til eftirlitsstarfa. Áreiðanlega verður mestur árangur af því að hafa í þessu venjuleg fiskiskip án sérstakra auðkenna. Þeir sem staðnir eru að verki við smáfiskadráp verði síðan sviptir sínum kvóta. Hér er svo mikið í húfi að ekki má sýna neina linkind.

Við fyrstu gerð frv. sem okkur sjútvn.- mönnum var sýnd var gert ráð fyrir að flotvarpa yrði bönnuð. Ég spyr: Hvers vegna var það ákvæði fellt úr frv.? (Gripið fram í.) Ég vil nú ekki meta veiðarfæri á trúfræðilegum grundvelli líkt og menn hafa gert með dragnót en ég lýsi efasemdum mínum með gildi flotvörpu. Í það veiðarfæri er vissulega hægt að fá mikinn afla. Hins vegar tel ég afar varasamt með tilliti til gæðanna að nota flotvörpu eins og gert hefur verið. Mér er kunnugt um að oft toga menn 6–8 klst. með flotvörpu og dæmi hef ég heyrt um 15 klst. tog. Slík vinnubrögð eru auðvitað fráleit. Eins og einn skipstjóri á Suðurnesjum orðaði við mig: Menn fá oft góðan afla með flotvörpu, stundum koma þeir með 60–70 lestir af kæfu, sem er þá tilvísun í hvernig ástand aflans er eftir langt tog.

Að síðustu langar mig til að spyrja ráðh. hvernig verði farið með hin einstöku byggðarlög. Vissulega kemur upp hjá hverjum og einum manni forvitni um hvort skipin eigi aðeins að fá kvóta eftir meðalafla s.l. þriggja ára eða hvort tekið verður tillit til einhverra annarra atriða. Það er nú svo að sum byggðarlög í landinu búa við atvinnuleysi og ég óttast að það atvinnuleysi verði meira ef ekki verður hvert einstakt tilfelli skoðað fyrir sig. Auðvitað er rétt að það er aflinn sem ákvarðar það hvort atvinnuleysi er eða ekki en aðgerðir manna í landi geta líka haft mikil áhrif á atvinnu fólksins.

Ég veit um byggðarlag sem hefur verið þannig statt á undanförnum árum að þaðan hafa bátar streymt í burtu til annarra byggðarlaga. Það gerir það náttúrlega að verkum að minni afli berst á land í þeirri verstöð. Spurningin er sú hvort menn telja sig reiðubúna til að skoða það vandamál. Á þessum stað er viðvarandi atvinnuleysi alla mánuði ársins, þó verst sé það í jan., febr. og jafnvel í mars, að ég nefni ekki nóv. og des.

Ég ætla ekki að ræða þetta miklu lengur að þessu sinni en legg afar mikla áherslu á að Ed.-menn reyni að ná saman um það hvernig þessu frv. verði komið héðan frá deildinni. Ég er sannfærður um að lítið skilur á milli. Kannske er það fyrst og fremst tortryggni, ekki mikil efnisatriði. Það fór svo í Nd. að stjórnarandstaðan var með tvö álit, en í Ed. mun stjórnarandstaða koma með eitt álit. Best væri að við þyrftum ekki að vera að skiptast upp í stjórn og stjórnarandstöðu um svo þýðingarmikið mál sem hér er á ferðinni, mál sem varðar okkur öll. Það er mikils virði að við náum saman vegna þess að eftirleikurinn verður svo erfiður ef ekki tekst að ná sameiginlegri niðurstöðu. Það sem við leggjum áherslu á er að Alþingi fái að fjalla um þetta mál frekar, móta höfuðlínurnar. Ég hygg að betra sé fyrir ráðh. að svo sé gert og ég held að betra sé fyrir málið í heild að svo verði gert. Það gerir kannske stjórnarandstöðuna líka ábyrgari. Ekki er ég að gefa í skyn að hún sé óábyrg, heldur hitt að eftir því sem fleiri samþykkja málsmeðferð, því meiri telja þeir ábyrgð sína á því að þeirri stefnu verði framfylgt sem samþykkt er.