19.12.1983
Efri deild: 39. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2134 í B-deild Alþingistíðinda. (1831)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Þær umr. sem hér hafa farið fram hafa ekki enn dregist mjög á langinn. Aftur á móti tel ég að mjög margt gagnlegt hafi þegar komið fram. Hæstv. sjútvrh. gerði grein fyrir því frv. sem hér er til umr. og lagði áherslu á að aðalatriði og tilgangur þessa frv. væri að draga úr kostnaði við veiðar eða m.ö.o. að auka verðmæti fengins afla. Í frv. og markmiðum þess felst ákveðin viðurkenning á því að fiskistofnar við landið og innan lögsögu þess séu sameiginleg auðlind landsmanna allra og að í ljósi þeirrar viðurkenningar sé réttlætanlegt að stjórna nýtingu afla með lögum.

Ef þessi efnisatriði standa, og þau gera það a.m.k. skv. málflutningi hæstv. ráðh., þá er verið að lögbinda aflann á okkar miðum sem grundvöll að tekjustofni. Þar sem hér er verið að setja lög um afnotarétt af eignum landsmanna skv. markmiðasetningu þessa frv., þá tel ég að þetta mál snerti alvarlega 40., 41. og 66. gr. stjórnarskrárinnar. Það eru þær greinar sem fjalla um meðferð fjármuna í eigu landsmanna og meðferð eigna einstaklinga. Því tel ég, svo að það sé ljóst alveg frá upphafi, óhugsandi að Alþingi Íslendinga feli ráðh. þessi völd ef ekki fer eitthvað á undan. Það sem á undan gæti farið væri þá annaðhvort nánari lýsing á því hvernig eigi að auka nýtingu sjávarafla með minnkandi tilkostnaði, hvort eigi að fella dóma yfir útgerðaraðilum, annaðhvort í ljósi einhverra dauðra talna eins og afla undangenginna ára, kaldrar skynsemi þar sem horft verði til rekstrarstöðu hvers einasta aðila, hún metin og vegin og ákvörðun tekin í ljósi hennar, tilfinningasemi, sem tæki þá kannske inn í þetta mat spurninguna um staðsetningu einstakra rekstraraðila víðs vegar um landið og spurninguna um það hvaða áhrif ákvarðanir hafa á heimamenn viðkomandi byggðar — eða einhverju samblandi af þessu öllu saman. Hin leiðin væri hugsanlega sú að reynt væri til þrautar að ná samstöðu alls þingheims, þannig að allur þingheimur taki á sig þá ábyrgð sem hér er verið að leggja á herðar honum, því að ábyrgðin er á herðum þingheims. Í þingbundinni stjórn ber ráðh. ekki ábyrgð nema gagnvart þeim sem fólu honum umboðið og í þessu tilviki er það stjórnarliðið. Stjórnarandstaðan hefur ekki formlega falið honum neitt umboð.

Í seinni tíð hefur reyndar orðið sú þróun, að menn hafa sótt nokkuð til þeirrar áttar sem hér er verið að leita í, þ.e. að löggjafinn feli ráðh. opið umboð til framkvæmda. Má þar minna á lögin um Framleiðsluráð landbúnaðarins, þar sem það fyrirtæki hefur umboð til skattheimtu og ráðstöfunar skattfjár. Þessi þróun er trúlega að einhverju leyti tákn síns tíma, en hún er alröng miðað við gefnar aðstæður.

Í dag hefur Alþingi umboð þjóðarinnar en ekki ráðh. og stjórnarskrá okkar takmarkar mjög rétt þingsins til að framselja þetta umboð. Ég tel það t.d. alveg fráleitt að samþykkja refsiákvæði, eins og farið er fram á í þessum lögum, vegna brota sem ekki eru skilgreind. Ég get tekið undir þann skilning, sem þegar er fram kominn, að fiskafli sé þjóðareign. En ég tel að þjóðin verði að hafa meira um málið að segja en núna, þ.e. sá sem fer með pólitíska ábyrgð í þessu máli hafi lagt grundvallarsjónarmið sín í dóm kjósenda. Núverandi stjórnskipun gefur þjóðinni ekki þennan möguleika. Ef hér væri um að ræða frv. ráðh., sem sæti í stjórn þjóðkjörins forsrh. og væri hér að framfylgja stefnu, sem meira en helmingur þjóðarinnar hefði stutt við kjör forsrh., þá væri framsal það sem hér er farið fram á ekki óeðlilegt. Við erum hér að ræða um grundvallaratriði stjórnskipunar fyrst og fremst. Að stjórnskipaninni óbreyttri tel ég núverandi stjórntæki, sem þegar eru fyrir hendi, nægjanleg. Ráðh. getur nú ákveðið hámarksafla flestallra fisktegunda nema þorskafla. Hann getur ákveðið fjölda sóknardaga. Hann getur ákveðið að loka miðum þegar rétt þykir. Ríkisstj. þessi, eða hvaða önnur sem að völdum situr, hefur fjármagnshlið þessa atvinnuvegar algerlega á sinni hendi og getur stofnað til aðgerða til að rétta við eða bæta rekstrargrundvöll útgerðarinnar í raun og veru eins mikið og hún telur sig geta til kostað. Hagsmunaaðilar hafa þegar sett fram ákveðnar hugmyndir um stjórnun fiskveiðanna. Það er því ekkert óeðlilegt að þeir beri einfaldlega ábyrgð á þeirri hlið sem að þeim snýr.

Höfuðatriðið er nefnilega ekki núverandi ástand, sem einkennist af væntanlegu tímabundnu aflaleysi, heldur hvort og þá hvernig eigi að stýra nýtingu sjávaraflans. Því tel ég eðlilegra að gefa þessu máli meiri tíma. Ef endilega þarf að ljúka þessu máli fyrir áramót, vegna þess að aðgerðir verða að byrja strax í upphafi nýs árs, þá hlýtur tillögusmíð að vera svo langt á veg komin að það ætti að vera hægt að gera grein fyrir henni í dag. Við gerum okkur ljóst að það gerist ekki svo mikið á þeim dögum sem eftir lifa af þessu ári og að raunverulegra aðgerða af hálfu ráðh. verður ekki að vænta fyrr en þó nokkuð er liðið á næsta ár.

Heyrst hefur að stjórnarliðar séu því miður mjög bundnir af samningum sínum um stjórnarsamstarf. Stjórnarsamstarf flokkanna sem að ríkisstj. standa grundvallast á sameiginlegri yfirlýsingu. Þessi bönd á stjórnarliðinu einkennast fyrst og fremst af því að menn þora ekki að andmæta mótaðila sínum af hræðslu við að það kosti mótaðgerðir af hans hálfu og því hugsanlega enn meiri hrossakaup en þegar eru fyrir hendi. Þetta sjónarmið er mjög áberandi nú í ljósi þessa atburðar. En sumir hlutir eru þannig vaxnir að þeir eru afdrifaríkari en aðrir. Hér er um það að ræða að vegna stjórnarskipunar okkar — ég minni á að ríkisstj. er ekki fjölskipað stjórnvald — er annar stjórnaraðilinn að gefa hinum svo mikið vald að eftir þann dag sem lögin verða samþykkt verður Sjálfstfl. að kaupa öll sín áhrif á fiskveiðistefnuna með framsali annarra stefnumála. Og þá ræður Framsfl. enn frekar ferðinni en nú því að núverandi stjórnskipun er fyrst og fremst spurning um samstarf flokka en ekki manna. Óprúttinn maður í embætti sjútvrh., og þá vil ég undanskilja núv. sjútvrh. því að ég ætla alls ekki að gera því skóna að hann sé óprúttinn, gæti ef hann vildi hossað sér á þessu valdi heima í sínu héraði. Það væri að því leyti eðlilegt að kjósendur í hans kjördæmi yrðu einu kjósendurnir á landinu sem fá tækifæri til að leggja dóm á störf hans eftir á.

Ég tel að hér sé ábyrgð Alþingis að veði. Fiskveiðistefnuna verður að móta áður en Alþingi tekur ábyrgð á henni. Ráðh. hefur nægilegt umboð í dag til að bregðast við því tímabundna ástandi sem hér ríkir. Alþingi verður að fá meira ráðrúm til að ákveða að hve miklu leyti og hvernig það skapar sjávarútvegi sanngjarna rekstrarstöðu. Rekstrarvandinn er ekki nýr og það er meiri vilji til að taka á málum nú en nokkru sinni áður. En við verðum að fá tíma til að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Því lýsi ég því yfir hér og nú að ég styð fram komna hugmynd og tillögu hv. 4. þm. Vestf. um að málinu verði vísað til nefndar og sú nefnd fái tíma til að starfa, þannig að við skoðum málið aftur að þinghléi loknu.