19.12.1983
Efri deild: 39. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2138 í B-deild Alþingistíðinda. (1833)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Kvótafyrirkomulag er engum að skapi, a.m.k. fáum enda gengur slíkt fyrirkomulag á móti veiðimennskunni sem hefur verið grundvöllur sóknar okkar í sjávarafla. Þegar rætt er um að setja kvótafyrirkomulag á veiði landsmanna er um að ræða dæmigert mál þar sem hætta er á mistökum. Hvað sem gert verður má ætla það víst að enginn verði sáttur við sinn hlut. Hins vegar er til bóta og til að réttlæta svo hröð vinnubrögð sem hafa viðgengist í þessu máli að mjög víðtækt samráð hefur verið haft við hagsmunaaðila sem að mörgu leyti hafa haft frumkvæði að umræddri stefnumörkun á neyðarstund.

Ég ætla ekki að víkja í máli mínu nú að einstökum þáttum í þessu máli en þó vil ég árétta að ég tel ástæðu til þess að efla mjög eftirlit og rannsókn á smáfiskadrápi. Ég tel einnig æskilegt að líta sérstaklega á þátt línu- og færaveiða í þessu dæmi þannig að þær veiðar verði hvetjandi í þeim aðgerðum sem nú er verið að marka stefnu um. Lína og net, lína og færi raska minnst eðlislægum þáttum náttúrunnar, minnst af þeim veiðarfærum sem við notum hér við land og þess vegna tel ég ástæðu til að horfa þar sérstaklega á.

Hv. 4. þm. Vesturl. hafði á orði í máli sínu í dag að þær aðgerðir sem nú væri verið að ræða væru valdabrölt í sjútvrh. Ég held að þarna taki hv. þm. nokkuð stórt upp í sig. Ég held að þetta sé fyrst og fremst spurning um að þora að taka á vandanum. Það vald sem þarf að beita í þessum aðgerðum er ekki eftirsóknarvert, a.m.k. ekki hjá venjulegu fólki í venjulegum flokkum sem vilja ekki ganga lengra en réttur næsta manns nær. En þeir sem vilja byggja upp þetta þjóðfélag í stað þess að ala á upplausn og vandamálum, vilja horfast í augu við vandann og takast á við hann, vinna málið skynsamlega og með samvinnu og samstarfi við þá sem gerst þekkja í málinu. Þar tel ég að hafi verið sýnd góð viðleitni.

Þannig er margt sem kemur til og þarf að taka tillit til. Þjóð okkar er skemmtilega sundurleit í smærri málum, en þegar á reynir stendur hún einhuga saman. Nú reynir virkilega á, því að sjálfsögðu er mikil hætta á að einhver röskun eigi sér stað í hverri byggð. En við erum að tala hér um tilraun sem verður að vissu marki að spila af fingrum fram, breyta, bæta og leiðrétta jafnharðan og ég hef enga ástæðu til að óttast að þar verði misbeitt valdi með vilja. Allir hljóta að sjá að ekki er hægt að misbeita slíku valdi í okkar þjóðfélagi við þær kringumstæður sem nú eru. Það verður að taka slíkt tillit til allra þátta, allra landshluta. Þar kemur kannske það mesta aðhald sem stjórnvöld þurfa að hafa í þessu máli. samt skulum við gera okkur fyllilega grein fyrir því að ef kvótafyrirkomulagi verður komið á til bráðabirgða eða til reynslu verður enginn ánægður. Málið snýst hins vegar um að hafa snör handtök og þess vegna er ástæðulaust að teygja mjög lopann. Það er ekki háttur vanra manna til sjós. Snör handtök til að varða leiðina í þágu framtíðarinnar eins og fram kom hjá hæstv. sjútvrh. í dag.

Ég undirstrika hins vegar að ég óttast mjög svo afgerandi kvótafyrirkomulag í sjávarútvegi eins og svo margir aðrir jafnvel þótt hér sé aðeins um tilraun að ræða. Æðakerfi sjávarútvegsins er svo margslungið að engan veginn er unnt að sjá fyrir endann á þeirri aðgerð sem um ræðir og óvissan er mikil. En ég tel að ekki verði komist hjá því í stöðunni að gera aðgerðir og ég treysti þeim fjölmörgu aðilum sem á næstu vikum vinna þetta mál af fingrum fram til að setja eins sterkan og burðarmikinn hrygg í þetta mál og nauðsynlegt er til að flestir geti unað svona hæfilega glaðir við sitt.

Hins vegar vil ég líka undirstrika að ég tel ástæðulaust að ala á of mikilli svartsýni þó að þessi tilraun eigi sér stað. Þarna er merkileg tilraun til að framkvæma ákveðna stjórnun, ákveðna hagræðingu og ekki er útlitið svo svart að fram undan sé stórkostlegur vandi. Það þarf sveigjanleika sem kemur kannske á vondum tíma þegar verið er að moka hinn margumrædda flór vinstri stefnunnar, en við getum ekki beðið lengur. Þess vegna held ég að menn eigi að standa saman um að ná málum fram og setja víðtækan og sterkan hrygg í málið.