25.10.1983
Sameinað þing: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í B-deild Alþingistíðinda. (184)

20. mál, hjartaskurðlækningar á Landspítalanum

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. heilbr.- og trmrh. fyrir þau svör sem hann veitti hér áðan við fsp. minni og almennar undirtektir hans við þetta mál. Samkvæmt því fjárlagafrv. sem liggur fyrir er ekki gert ráð fyrir neinni nýrri stöðu á ríkisspítölunum árið 1984 og ekki heldur í heilsugæslunni. Það er m.a. þess vegna sem þessi fsp. er tekin hér upp svo að hv. fjvn. geti fjallað um málið með tilliti til þess.

Í ræðu sinni kom hæstv. heilbrrh. inn á það að 31. ágúst 1982 hefðu þáverandi heilbrrh. og fjmrh. náð samkomulagi um að stefna að því að þessi starfsemi færi af stað á árinu 1983 og 1984. Það hefði hins vegar ekki hlotið náð fyrir augum fjvn. og bréf sem ég hefði skrifað fyrr á þessu ári styddist ekki við forsendu fjárlaga. Þetta er að mínu mati ekki rétt. Ég tel að þetta bréf, sem heilbrrn. skrifaði fyrr á þessu ári varðandi hjartaskurðlækningar, hafi í einu og öllu stuðst við forsendur fjárlaga. Hins vegar var fjvn. ekki þeirrar skoðunar að það væri rétt að taka upp þessa starfsemi strax á árinu 1983. Ég taldi það hins vegar og ég tel það vera verkefni heilbrrn. að hafa um það að segja hvernig þeim nýjum stöðum er ráðstafað, sem Alþingi heimilar ráðuneytinu að efna til á hverjum tíma. Þess vegna taldi ég að öll rök væru í raun og veru með því að heilbrrn. hefði sína skoðun á þessu máli og léti hana koma fram með þeim hætti sem ég gerði í bréfi í maí s.l. Ég tel því að það sé í raun og veru mjög eðlilegur hlutur að heilbrrn. skuli hafa knúið á um þetta mál, svo sem gert hefur verið, og ég vænti þess að það verði einnig gert í ráðherratíð hæstv. ráðh. Matthíasar Bjarnasonar.

Það er vafalaust svo að í meðferð þessara mála kunna einhverjir kostnaðarþættir að hafa verið vanmetnir. Það er reynslan að það gerist yfirleitt þegar verið er að taka upp nýja starfsemi að þá hættir þeim, sem eru að hvetja til hennar, til þess að vanmeta þann kostnað, sem stofnast þegar allt er uppgert. Og ég held að það sé nauðsynlegur hlutur að bæði fjvn. og heilbrrn. og aðrir aðilar horfist í augu við þann kostnaðarauka, sem af þessu getur hlotist, því hér er auðvitað ekki aðeins um að ræða kostnað á ríkisspítölunum sjálfum varðandi hjartaskurðlækningarnar sem slíkar, heldur er hér um að ræða kostnað við ýmiss konar þjónustu sem óhjákvæmilegt er að bæta frá því sem nú er, t.d. þjónustu blóðbankans við þessa starfsemi sem ég tel að eigi að taka inn í þessa mynd og hafi kannske ekki verið gert sem skyldi. Ég endurtek þakkir mínar til hæstv. heilbrrh. fyrir hans svör. Ég tel að hér sé um að ræða stórt og þýðingarmikið mál og það sé ástæða til að ætla eftir undirtektum hér að Atþingi sé reiðubúið til að fylgja því eftir.