19.12.1983
Neðri deild: 33. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2149 í B-deild Alþingistíðinda. (1845)

Um þingsköp

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það mun nú vera skammt eftir af þingstörfum fyrir hátíðar og gert ráð fyrir því að ljúka deildafundum fljótlega. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. forseta að því, sem ég spurði hann um aðfaranótt s.l. laugardags, hvenær frv. um breytingu á kosningalögunum verður tekið fyrir á fundi Nd. þannig að það verði afgreitt til 2. umr. og nefndar áður en þing fer heim í jólahlé. Ég gerði ráð fyrir því að ljóst væri að frv. yrði afgreitt til nefndar og 2. umr. Ég hef ítrekað tekið þetta upp á fundum forseta þingsins og formanna þingflokkanna og ég hef ekki orðið var við annað en ég hafi átt þar, og þeir sem þetta mál hafa borið fyrir brjósti, góðan stuðning. Ég hef ekki orðið var við að menn hafi neitað þeim möguleika að þetta mál yrði tekið fyrir og þætti reyndar mjög sérkennilegt að slíkt gerðist því að hér er um að ræða mál sem flutt er af formönnum fjögurra stjórnmálaflokka. Þess vegna ítreka ég þessa spurningu, herra forseti: Hvenær verður frv. formanna fjögurra flokka um breytingu á kosningalögunum tekið fyrir?