25.10.1983
Sameinað þing: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í B-deild Alþingistíðinda. (185)

20. mál, hjartaskurðlækningar á Landspítalanum

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég vil fyrir hönd þingflokks BJ taka undir óskir að þessari læknisþjónustu verði komið á sem fyrst. Ég ætla ekki að gera mál mitt langt, það hafa komið fram flest þau rök sem hníga að þessari ósk. Hér er um að ræða fjárhagslega hagkvæma framkvæmd og undirbúningur er tiltölulega hægur. Hér eru mannleg sjónarmið, hér gefst okkur færi á að létta angist og þjáningar fólks sem hefur nóg af fyrir. Það er náttúrlega mælikvarði um siðmenningu þjóðar hversu fús hún er að létta þjáningar sjúkra og aldraðra og ég held að hérna ættum við að leggjast á eitt.