19.12.1983
Neðri deild: 33. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2150 í B-deild Alþingistíðinda. (1851)

Um þingsköp

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég verð að mótmæla þeim fullyrðingum hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar að samkomulag hafi verið gert um það við stjórnarmyndun að þetta mál yrði ekki þegar lagt fram. Þvert á móti var samkomulag um það gert að málið yrði afgreitt fyrir næstu kosningar til Alþingis. Er það ekki það sem er aðalatriði málsins? Og ef hv. þm. gerir sér vonir um að kosningar til Alþingis verði nú eftir skamman tíma er það rangt. Ríkisstj. hefur ekkert slíkt í huga. Þetta mál verður afgreitt áður en næstu kosningar til Alþingis fara fram.

Hitt er svo annað mál, að ýmsir þm. hafa tjáð mér að þeir óski eftir að fá góðan tíma til að ræða þetta mál þegar við 1. umr., enda er hér um mjög stórt og viðkvæmt mál að ræða. Ég vil einnig vekja athygli á því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði hér, að á lista ríkisstj. voru og eru mál sem ríkisstj. telur mjög æskilegt að afgreiða, ef ekki nauðsynlegt, fyrir áramót, en í því samkomutagi sem hér var gert s.l. föstudag var þeim málum frestað til að fá samkomulag um framgang fiskveiðistefnu frv. Ég verð að segja að ef á að taka ný mál fyrir nú hljótum við að endurskoða afstöðu til tekju- og eignarskatts og útsvarsstiga.

Ég vil að þetta komi hér fram, en fyrst og fremst legg ég áherslu á að það hefur enginn verið kúgaður í þessu máli. Það er fullt samkomulag um það milli stjórnarflokkanna að þetta mál verði afgreitt fyrir næstu kosningar til Alþingis.