25.10.1983
Sameinað þing: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í B-deild Alþingistíðinda. (186)

20. mál, hjartaskurðlækningar á Landspítalanum

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Mig langar eindregið til þess að hvetja hæstv. heilbr.- og trmrh. að beita sér fyrir því að hjartaskurðlækningar megi sem fyrst hefja hér á landi. Afstaða mín mótast af tveim meginsjónarmiðum. Annað er mannúðarsjónarmið og hitt er sparnaðarsjónarmið sem er vinsælt um þessar mundir.

Ég vann um 12 ára skeið á sjúkrahúsi úti í London þar sem margir Íslendingar komu í hjartaskurðlækningar. Þess vegna get ég af eigin reynstu dæmt um það að því fylgir mikið aukaálag og áhyggjuefni, ekki bara fyrir sjúkling heldur líka fyrir aðstandendur, að þurfa að gangast undir stóra skurðaðgerð á erlendri grund þar sem um er að ræða öryggisleysi og framandi umhverfi og þar að auki erfiðleika við að tjá sig á erlendu tungumáli. Og þetta getur haft afdrifaríkar afleiðingar í sambandi við bata sjúklinganna.

Síðara sjónarmiðið er sparnaðarsjónarmið. Það er rétt að þessu fylgir stofnkostnaður og hann er nokkuð hár einmitt núna, þegar verið er að reyna að spara, en hann mun skila sér mjög fljótt aftur þannig að á stuttum tíma verður þarna um sparnaðarframkvæmd að ræða.

Ég hef enga ástæðu til þess að efa það að heilbrigðisstarfsfólk á Íslandi er fullkomlega hæft til þess að sinna þessu verkefni og lýsi hér með yfir stuðningi Samtaka um kvennalista við þessa hugmynd.