25.10.1983
Sameinað þing: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í B-deild Alþingistíðinda. (187)

20. mál, hjartaskurðlækningar á Landspítalanum

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Út af fsp. hv. 8. þm. Reykv. varðandi samþykkt Hjartasjúkdómafélagsins, þá ætla ég ekki að lýsa hvorki þá né aðra neina ósannindamenn. Það liggja ekki fyrir neinar tæmandi upplýsingar um útreikninga á kostnaði við væntanlega deild eða ekki. Þess vegna vitaskuld lýsi ég ekki neinu yfir fyrr en það liggur fyrir og það er ekki minnst á sum atriðin sem skipta miklu máli í þessu og hafa í raun og veru áhrif á aðra starfsemi. Þegar nýjar lækningar eru teknar inn í landið inn á þennan spítala, þá þrengir það vitaskuld legupláss, sem eðlilegt er og allir skilja. Það er hvergi inni í þessari mynd frá þessum áhugamönnum. Þetta þarf líka að ræða og huga að.

Við skulum líka gera okkur grein fyrir því þegar hjartaskurðlækningar verða teknar upp hér — vitaskuld verða þær teknar upp — að þá koma ekki allar hjartaskurðlækningar inn í landið á tiltölulega skömmum tíma. Ég geri ráð fyrir að það verði fyrst og fremst kransæðaskurðlækningar sem byrjað verði á og aðgerðir á börnum með meðfædda hjartagalla, en aðrar enn stærri aðgerðir verði vafalaust erlendis um hríð. Ég þekki líka af eigin reynd hvað það er að fara sjúkur til annarra landa. Það hefur sína vankanta. Það er líka búið að þróa þar upp deildir á löngum tíma. Í því felst ekkert vantraust á lækna eða sérfræðinga hér á landi. Þetta er erfitt mál, þetta er mál sem þarf að líta á frá svo mörgum hliðum og við getum ekki heldur ætt af stað í hjartaskurðlækningar, ef við getum svo ekki sinnt hjartaþræðingunni og rannsóknarstarfseminni. Eigum við kannske að senda þá til útlanda í hjartaþræðingu en svo aftur heim í skurðaðgerð? Við verðum auðvitað að byrja á réttum enda og hér hefur orðið afturför hvað þetta snertir. Það var kvartað í sumar og haust mjög undan ástandi þessarar rannsóknarstarfsemi og hjartaþræðingar. Nú er horft alveg yfir það í öllum þessum bréfum og ég sé það og heyri, að hv. þm., sem hér hafa talað, horfa allir framhjá þessu stóra atriði. Þeir nefna það ekki, ekki einn einasti þeirra. Þetta er vitaskuld það sem á að verða nr. eitt og ég lýsti því yfir hér áðan, að ég legði auðvitað höfuðáherslu á jafnhliða að fylgja þessu máli eftir. En við þurfum að huga hér að og ég vil leiðrétta það sem hefur komið fram á nokkrum stöðum að það séu jafnvel erfiðleikar á því að fá hjartalækningar hjá öðrum þjóðum. Mér er alveg fullkomlega kunnugt um að það er sóst eftir því og við gætum gert samninga við aðrar þjóðir og það þarf líka að liggja nánar fyrir. Um það er ekki deilt hér að þessi deild kemur. Það er fyrst og fremst verið að tala um það í hvaða röð það verður og ég held að það sé ekkert áhorfsmál að röðin er sú að við erum að byggja upp rannsóknarstarfsemina og sinna henni fullkomlega hér innanlands. Síðan kemur hitt á eftir stig af stigi. Og eins og ég sagði hér í upphafi míns máls og hv. 3. þm. Reykv. tók undir þá deilum við ekki um þessi atriði. Við verðum að taka þau í réttri röð og láta liggja fyrir allar upplýsingar, en látum ekki óskhyggju eða tilfinningar ráða, heldur verður skynsemi og náin athugun einnig að fylgja þó að tilfinningin sé mikils virði og hinn mannlegi þáttur og það tek ég fullkomlega undir.