19.12.1983
Sameinað þing: 34. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2160 í B-deild Alþingistíðinda. (1884)

1. mál, fjárlög 1984

Frsm. meiri hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur nú lokið störfum við undirbúning fjárlaga fyrir árið 1984. Ég vil enn þakka samnefndarmönnum mínum fyrir mikil, tímafrek og erfið störf við þær aðstæður sem nú eru. Ég þakka starfsmanni nefndarinnar og starfsfólki fjárlaga- og hagsýslustofnunar fyrir ómetanlega aðstoð. Þá vil ég leyfa mér að þakka hæstv. fjmrh. fyrir sérstaklega gott samstarf svo og öðrum ráðh. og einstökum þm.

Ég hef oft vitnað til þess, að á miðju sumri 1982 skrifaði fyrrv. fjmrh. í sunnudagsblað Þjóðviljans að þjóðarskútan stefndi niður í öldudal mestu efnahagskreppu síðari áratuga. Í sömu grein talaði fyrrv. fjmrh., hv. þm. Ragnar Arnalds, um óvenjumargslungna erfiðleika og djúpa kreppulægð. Nokkrum mánuðum seinna samþykkti flokkur fyrrv. fjmrh., Alþb., að ástandið væri svo alvarlegt að gera þyrfti neyðaráætlun til margra ára til þess að kljást við vandann.

Á því djúpa kreppulægðarári 1982 drógust þjóðartekjur á mann saman um 4.5%. Í ár er talið að þjóðartekjur á mann dragist saman um 3.5%, en á næsta ári er alls ekki óraunsætt að búast við að þjóðartekjur á mann dragist saman þriðja árið í röð og þá líklega um 4–5%.

Sú djúpa kreppulægð sem fyrrv. fjmrh. talaði um í sunnudagsblaði Þjóðviljans á miðju sumri 1982 hefur því keppst við að dýpka og dýpkar enn þá meira á næsta ári en því sem nú er að líða ef svo fer fram sem nú er spáð um aflahorfur. Þetta er sú óhagganlega og atvarlega staðreynd sem við stöndum frammi fyrir við þessa fjárlagaafgreiðslu.

Þjóðin hefur fyrr orðið fyrir þungum efnahagsáföllum. Á árunum 1967 og 1968 hvarf síldin og jafnframt varð verðfall á útflutningsafurðum okkar. Á árunum 1974 og 1975 hækkaði olía á heimsmarkaði gífurlega, eins og kunnugt er, og hlutum við m.a. af því þungar búsifjar á þeim árum. Sá er hinn mikli munur á aðstöðu okkar nú og þá, að þegar þessi áföll dundu yfir skuldaði þjóðin sáralítið erlendis og ástand fiskstofna var svo gott að í lófa lagið var að stórauka aflann til þess að snúast gegn vandanum.

Árið 1966 voru erlendar skuldir þjóðarinnar aðeins 9.9% af þjóðarframleiðslu og árið 1973 17.8%. Í árslok 1981 skulduðum við miklum mun meira eða sem svarar tæplega 32% af þjóðarframleiðslu erlendis og nú er skuldastaða þessi komin í um eða yfir 60%, eins og margoft hefur verið bent á. Það verður að spyrna við fótum. Eyðsluskuldasöfnun verður að linna. Annars er fjárhagslegu sjálfstæði þjóðarinnar hreinlega hætt. Hvorug þeirra leiða; sem áður hafa verið farnar, að taka eyðslulán um stundarsakir og herða sóknina í sjávarafla, er fær nú. Nú dugir ekki annað en að láta sér nægja sírýrnandi þjóðartekjur og eyða ekki um efni fram á meðan þjóðarskútunni er siglt upp úr öldudal þessarar miklu efnahagskreppu, svo notuð séu orð fyrrv. fjmrh.

Auðvitað setja þessir gríðarlegu erfiðleikar og alvarlegu horfur mark sitt á þá fjárlagaafgreiðslu sem Alþingi er nú að leggja síðustu hönd á. Ég ræddi um það við 2. umr., að ef við tækjum jafnmikil erlend lán á næsta ári og jafnstóran hlut af þjóðartekjum í skatta og gert var árið 1982 hefðum við 5–6 milljörðum meira fé til ráðstöfunar samkv. fjárlögum og lánsfjárlögum en nú er gert ráð fyrir í fjárlagafrv. og frv. til lánsfjárlaga. Hér er ég að tala um fast verðlag, það verðlag sem við reiknum með í þessari fjárlagaafgreiðslu. Þessi fjárhæð, 5–6 milljarðar, samsvarar þreföldum framlögum til vegamála í landinu og 5–6 földum framlögum til orkumála. Á þessu geta menn séð að ekki er um neina smámuni að ræða.

Í þessu samhengi vil ég leggja áherslu á nokkur meginatriði sem einkenna þessa fjárlagaafgreiðslu:

Í fyrsta lagi næst greiðslujöfnuður á ríkissjóði með um það bil 50 millj. kr. minni lántöku til A- og B-hluta ríkissjóðs en gert er ráð fyrir í lánsfjáráætlun og frv. til lánsfjárlaga. Þetta dregur úr erlendri lánsfjárþörf. Ég tel greiðsluhallalaus fjárlög með ekki meiri lántökum en stefnt er að með þessu afar þýðingarmikil í glímunni við efnahagsvandann, verðbólgu og viðskiptahalla. Með þessari niðurstöðu tel ég því mjög mikilvægu markmiði náð.

2. Rekstrarhalli verður á fjárlögum næsta árs samkv. till. fjvn. um útgjöld og meiri hl. fjvn. um tekjur ríkissjóðs á næsta ári. Þessi rekstrarhalli mun nema um 375 millj. kr. eða mun minni upphæð en raunverulegur rekstrarhalli var á fjárlagafrv., en þá var gjaldfærsla 480 millj. kr. vegna vegagerðar ekki tekin inn í frv., eins og skýrt var tekið fram í athugasemdum við það.

Þessi rekstrarhalli er okkur, sem stöndum að þessari fjárlagaafgreiðslu, að sjálfsögðu ekkert gleðiefni. Svo mjög hafa stjórnmálamenn á undanförnum árum forðast að gera fjárlög upp með rekstrarhalla að til flestra ráða hefur verið gripið til að lækka útgjöld á pappírnum til að lækka tekjur til þess að ná rekstrarjöfnuði. Nýjasta dæmið um þetta eru fjárlögin í ár. Þá voru útgjaldaliðir stórlega vanáætlaðir, eins og ég benti á við fjárlagaafgreiðsluna um líkt leyti í fyrra.

Nú er rekstrarhallinn sýndur svart á hvítu. Hann skýrist m.a. af því, að vextir af lánum til byggðalína eru teknir inn í A-hluta ríkissjóðs. Þar er um að ræða 267 millj. kr. Miðað við sömu bókhaldsvenjur og áður hefði rekstrarhallinn því verið um 100 millj. kr. Sá halli stafar allur af versnandi horfum frá því að frv. var samið. Samkv. upplýsingum Þjóðhagsstofnunar hefðu tekjur ríkissjóðs orðið mun meiri en nú er ráð fyrir gert ef þær þjóðhagsforsendur, og m.a. sjávarafli, sem frv. var byggt á, hefðu staðist.

Í þriðja lagi vil ég taka fram, að þær brtt. sem fjvn. hefur flutt við 2. og 3. umr. þessa frv. nema einungis um það bil 330 millj. kr. eða innan við 2% af útgjöldum fjárlagafrv. Þá er undan skilin till. um lækkun á útgjöldum vegna forsendubreytinga og einnig till. um tilfærslur vegna þess að tekjur frá Alþjóðaflugmálastofnuninni eru nú færðar teknamegin samkv. brtt. frá meiri hl. fjvn. og útgjöld á móti hjá Pósti og síma, Flugmálastjórn og Veðurstofu.

Mér er til efs að mörg dæmi sé unnt að finna um jafnlitla hækkun á fjárlagafrv. einkum þegar þess er gætt að mikið af þessum till. er flutt til að gera útgjaldaliði frv. eins raunhæfa og kostur er.

Í fjórða lagi vil ég benda á, að þegar fjárlagafrv. var undirbúið og var í meðferð fjvn. var gengið út frá þeirri grundvallarreglu að meta umfang og kostnað á sem raunhæfastan hátt við þann rekstur hjá ríkinu sem ekki er beinlínis ætlað að dragist saman eða hætti með öllu. Ætlunin er að byggja á fjárlögunum sem þannig eru frá gengin greiðsluáætlanir fyrir ráðuneyti og stofnanir. Þær greiðsluáætlanir verða notaðar til þess að fylgjast með rekstri ríkisstofnana í því skyni að rekstur þeirra sé í samræmi við fjárlög. Með þessum hætti næst yfirsýn yfir ríkisbúskapinn og við verður komið nauðsynlegu aðhaldi til að ná þeim sparnaði sem stefnt er að með fjárlögunum.

5. Þau fjárlög sem hér er verið að afgreiða marka ekki síst tímamót vegna þess að forsendur þeirra eru jafnframt stefna ríkisstj. m.a. í verðlags-, launa- og gengismálum. Við 3. umr. flytur meiri hl. fjvn. brtt. um rekstur svokallaðra B-hluta stofnana. Þær eru miðaðar við óbreyttar gjaldskrár á næsta ári. Þetta þýðir að standist forsendur fjárlaga eiga Rafmagnsveitur ríkisins ekki að þurfa að hækka rafmagnið á næsta ári, gjaldskrá pósts og síma ætti einnig að haldast óbreytt og afnotagjöld af útvarpi og sjónvarpi. Þetta er stefna sem ég vona að veki verðskuldaða athygli.

Í sjötta lagi vil ég ekki síst leggja áherslu á það við þessa fjárlagaafgreiðslu að fjárlög fyrir árið 1984 ber að skoða sem áfanga. Þau eru áfangi í því að draga saman seglin í ríkiskerfinu, minnka ríkisumsvifin, þau eru áfangi í uppstokkun á ríkisbúskapnum öllum og þau eru ekki síst áfangi á þeirri leið að breyta og endurskoða tekjuöflunarkerfi ríkisins. Öllu þessu starfi verður haldið áfram, eins og hæstv. fjmrh. hefur margoft lýst yfir.

Þetta eru nokkur þau meginatriði sem ég vil leggja áherslu á við lokaafgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1984. Ég vík þá nánar að því hvað brtt. fjvn. við gjaldahlið og meiri hl. fjvn. við teknahlið munu hafa í för með sér ef þær verða samþykktar. Tölur sem ég nefni hér eru í millj. kr.

Beinar brtt. við 1. og 2. umr. hafa í för með sér hækkun útgjalda um 330 millj. kr. Gjaldfærsla vegagerðar, sem áður var ekki færð inn í frv., hefur í för með sér 437 millj. kr. hækkun. Lækkun launa vegna breyttra launaforsendna frv. hefur í för með sér lækkun útgjalda um 161 millj. kr. Hækkun tekna alls nemur 320 millj. kr. Þar af er verðjöfnunargjald af raforku 120 millj. kr. Sú breyting er gerð, eins og áður segir, að tekjur frá Alþjóðaflugmálastofnuninni eru teknar inn í teknahlið frv. Þær eru áætlaðar 140 millj. kr. Á móti hækka rekstrarútgjöld Flugmálastjórnar, Veðurstofu og Pósts og síma.

Greiðsluyfirlit ríkissjóðs samkv. 1. gr. mundi samkv. þessum tillögum líta þannig út: — Tekjur: Beinir skattar 2 milljarðar 916 millj. kr. Óbeinir skattar 14 milljarðar 524 millj. kr. Aðrar tekjur 454 millj. kr. Samtals verða tekjurnar þannig 17 milljarðar 894 millj. kr. Útgjöld eru samtals 18 milljarðar 240 millj. kr. og rekstrarhalli því um 375 millj. kr.

Fjvn. flytur ekki tillögur um styrk til blaðanna, en mér skilst að í farvatninu sé tillaga um það frá formönnum þingflokka. Er ekki gert ráð fyrir þeirri tölu í þessu yfirliti.

Eins og ég sagði áður eru vextir af byggðalínulánum komnir inn í þetta dæmi, þannig að hallinn væri rúmar 100 millj. ef um þá bókhaldsbreytingu væri ekki að ræða hjá ríkissjóði.

Lánahreyfingar mundu líta þannig út í samræmi við þessar tillögur: Innlend útgáfa verðbréfa og happdrættisskuldabréfa 200 millj. kr. Innheimta af endurlánuðu spariskírteinafé 636 millj. kr. Önnur innlend fjáröflun 278 millj. kr. Erlend lán 1 milljarður 636 millj. kr. Þau mundu lækka, eins og ég sagði áðan, frá því sem gert er ráð fyrir í lánsfjáráætlun. Samtals nemur þetta 2 milljörðum 751 millj. kr., en frá því dregst Til innlausnar spariskírteina 170 millj. og verður þá fjáröflun til A- og B-hluta á lánahreyfingum 2 milljarðar 581 millj. kr. Þar af er ráðstafað til B-hluta 1 milljarði 48 millj. kr. og til A-hluta því 1 milljarði 533 millj. kr. Frá því dragast 110 millj. vegna afborgana af veittum lánum í A-hluta. Heildarfjárhæð á lánahreyfingum inn í ríkissjóð er því 1 milljarður 643 millj. kr. Útstreymi á lánahreyfingum er: Til hlutafjárframlaga 76 millj. kr., afborganir af byggðalínulánum 150 millj. kr. og af öðrum lánum 1 milljarður 180 millj. kr. Lánajöfnuður yrði því þannig, að innborganir umfram útgreiðslur yrðu um það bil 415 millj. kr. Greiðsluafgangur yrði samkv. þessu yfirliti nálægt 19 millj. kr.

Rétt er að geta þess í sambandi við lánahreyfingar á fjári. næsta árs að til greiðslu kemur á árinu úr ríkissjóði skyldusparnaður sem tekinn var á árinu 197$. Útstreymi úr ríkissjóði vegna þessa er áætlað tæplega 300 millj. kr. á næsta ári. Til sanns vegar má færa að önnur innlend fjáröflun á næsta ári, sem svo hefur verið kölluð og er áætluð 278 millj. kr., vegi upp á móti þessum greiðslum skyldusparnaðarins úr ríkissjóði.

Eins og ég gat um áðan eru greiðslur afborgana og vaxta af byggðalínum nú færðar á A-hluta ríkissjóðs, en þessar greiðslur voru áður í B-hluta. Þessar greiðslur eru 267 millj. kr. í vexti og 150 millj. kr. í: afborganir. samtals eru þetta 417 millj. kr. og má segja að nær allar þær erlendu lántökur sem bókfærast nú á A-hluta ríkissjóðs skýrist af þessari tilfærslu á byggðalínum úr B-hluta í A-hluta.

Í þessu sambandi er einnig fróðlegt að rifja upp að ríkissjóður mun greiða á næsta ári með Kröfluvirkjun nettó 355 millj. kr. sé einnig haft í huga að rafmagn til húshitunar á að greiða niður um 230 millj. kr. á næsta ári kemur í ljós að ríkissjóður greiðir um 900–1000 millj. kr. með raforkukerfinu í landinu. M.ö.o.: ef orkukerfið ætti að standa undir sér sjálft yrði raforkuverð það miklu hærra að nærri nálgaðist milljarð ofan á það verð sem notendur nú greiða.

Menn tala um að orkuverð á Íslandi sé hátt, en hærra væri það ef ekki væri um þessar greiðslur úr ríkissjóði að ræða. Þessum tölum er hér varpað fram til umhugsunar.

Því hefur verið slegið fram sem gagnrýni á fjárlagafrv. að í því sé ekki gert ráð fyrir vöxtum af þeirri yfirdráttarskuld sem orðin er hjá Seðlabankanum á yfirstandandi ári. Í frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1984, sem liggur nú fyrir Alþingi, er leitað heimilda fyrir fjmrh. til að semja við Seðlabanka Íslands um fjármögnun á þessum greiðsluhalla. Gert er ráð fyrir að um tvö lán verði að ræða. Áætlaðar vaxtagreiðslur vegna annars þessa láns, sem fellur á árinu 1984, nema 39 millj. kr. og er gert ráð fyrir því í fjárlagafrv. í lið sem samtals er 139 millj. kr. til greiðslu á vöxtum til Seðlabankans.

Þá vík ég að breytingum á fjárveitingu til vegagerðar og afgreiðslu meiri hl. n. á svokölluðum B-hluta fyrirtækjum.

Í fjárlagafrv. var gert ráð fyrir að heildarframlög til vegagerðar næmu 2.2% af þjóðarframleiðslu. Þá var miðað við þjóðarframleiðsluna eins og hún var áætluð á þeim tíma. Nú er gert ráð fyrir að hún verði minni og lækkar þetta heildarfjárveitingu til vegagerðar um 43 millj. kr. Sértekjur voru áætlaðar í frv.: Bensíngjald 603 millj. kr., þungaskattur 200 millj. og gúmmígjald 1 millj. kr. Samtals 804.5 millj. kr. Gúmmígjald er nú áætlað, ef ég man rétt, 1.5 millj. kr., bensíngjald er nú áætlað 663 millj. og þungaskattur 310 millj. Ríkisstj. hefur nú ákveðið að fella niður gúmmígjaldið og jafnframt að eigi minna en 50% af sköttum ríkisins af bensíni gangi til vegamála. Þetta kemur fram í vegáætlun sem samgrh. hefur nýlega lagt fram á Alþingi. Þar er gert ráð fyrir að bensíngjaldið hækki í samræmi við verðbreytingar á næsta ári. Þessi framlög þýða að 7–8% aukning verður að raungildi í vegaframkvæmdum á næsta ári.

Þá er þess að geta um vegagerðina að heildarfjárhæð sem gengur til vegagerðar er nú færð til gjalda, en hluti útgjaldanna, 480 millj., var ekki tekinn inn í fjárlagafrv. Þessi breyting hefur í för með sér 437 millj. kr. hækkun á útgjöldum væntanlegra fjárlaga, eins og ég sagði áðan.

Um afgreiðslu meiri hl. á B-hluta fyrirtækjunum vil ég taka þetta fram:

Gert er ráð fyrir að gjaldskrár Pósts og síma, afnotagjöld útvarps og sjónvarps, skattar Rafmagnsveitna ríkisins og farmgjöld með Skipaútgerð ríkisins verði óbreytt á næsta ári. Standist forsendur fjárlaga, launaforsendur, verðlags- og gengisforsendur, verður því ekki um neina hækkun á þessari opinberu þjónustu að ræða á næsta ári.

Þá er gert ráð fyrir að þessi fyrirtæki dragi saman seglin, lækki launaútgjöld sín um 2.5% og önnur rekstrargjöld um 5% að raungildi, eins og annars staðar hjá ríkinu. Tillit var þó tekið til þess að söluskattur er mikill hluti af öðrum rekstrargjöldum hjá Pósti og síma. Framlag úr ríkissjóði til Skipaútgerðar ríkisins er miðað við að óbreytt útgerð verði hálft árið. Eins og kunnugt er standa nú yfir viðræður milli skipafélaganna um að stofna eitt fyrirtæki sem annist allar strandsiglingar. Þess er vænst að niðurstaða verði fengin í því máli um mitt næsta ár. Ef svo verður ekki þarf að taka fjárhagsmálefni Skipaútgerðar ríkisins til endurskoðunar.

Áður en ég kem að breyttum forsendum fjári. og tekjuáætlunarinnar vil ég víkja örlítið að þeim feiknalegu sveiflum sem orðið hafa í íslenskum þjóðarbúskap á síðustu árum.

Árið 1981 var metaflaár í sögu þjóðarinnar. Þá veiddust 460 þús. tonn af þorski, 256 þús. tonn af öðrum botnfiski og 640 þús. tonn af loðnu. Á árinu 1982, kreppulægðarári sem fyrrv. fjmrh. kallaði það ár, veiddust 382 þús. tonn af þorski, 280 þús. tonn af öðrum botnfiski, en engin loðna. Í ár veiðast að líkindum um 290 þús. tonn af þorski og 150 þús. tonn af loðnu. En á næsta ári á aflamarkið að vera 220 þús. tonn af þorski og 400 þús. tonn af loðnu. Þar er um að ræða meira en helmingi minna magn af þorski, þessum aðalnytjafiski Íslendinga, en á árinu 1981 og nærri helmingi minna en á kreppulægðarárinu, sem svo var kallað, eða 160 þús. tonnum minna.

Á kreppulægðarárinu 1982 voru innheimtir hærri skattar af þjóðarframleiðslu en nokkru sinni fyrr, 30.2%. Skattarnir voru þyngdir ofan á kreppuna. Eyðslan var þá í algleymingi. Hallinn á viðskiptum þjóðarinnar var slíkur að hann nam um 10% af þjóðarframleiðslu eða 6 þús. millj. kr. á meðalgengi ársins í ár. Ríkissjóður fékk auðvitað miklar tekjur af þessari eyðslu, bæði af innflutningi og eins söluskattstekjum. Eyðslan í þjóðfélaginu var svo ofboðsleg að Þjóðviljanum, blaði þáv. fjmrh., blöskraði. Hinn 26. jan. 1982 skrifaði þáverandi ritstjóri leiðara í Þjóðviljann sem hét „Hátt er lifað“. Það segir í greindum leiðara:

„Á árinu 1981 fluttum við Íslendingar í fyrsta lagi inn álíka vörumagn af almennum varningi og inn var flutt á tveimur árum fyrr“.

Á öðrum stað í nefndum leiðara segir:

„Á árinu 1981 fluttum við inn meira af bílum en nokkru sinni fyrr í sögunni, að einu ári undanskildu“. Þannig blöskrar blaðinu eyðslan á árinu 1981. Þessi ofsalega eyðsla hélt áfram allt árið 1982, en þá minnkuðu útflutningstekjurnar. Af þessu hlaust áðurnefndur viðskiptahalli og að skuldir þjóðarinnar hækkuðu úr 36.6% af þjóðarframleiðslu í ársbyrjun 1982 í 48% af þjóðarframleiðslu á einu einasta ári. Í lok þessa árs stefnir þetta skuldahlutfall í 60%, eins og margoft hefur verið bent á.

Verðbólgan stefndi í 130% fyrir nokkrum mánuðum. Nú er verið að afgreiða fjárlög þar sem gert er ráð fyrir að mikilvæg opinber þjónusta þurfi ekki að hækka á næsta ári. Árshraði verðbólgunnar mældist hinn 1. des. s.l. um 15.8% á mælikvarða framfærsluvísitölunnar. Nú er gert ráð fyrir að minnka mjög skattheimtu ríkisins í hlutfalli við þjóðarframleiðsluna og skilja þannig meiri fjármuni eftir hjá fólkinu. Nú er gert ráð fyrir að hætta umframeyðslu, draga úr viðskiptahalla og eyða honum helst með öllu. Við horfum fram á það á næsta ári að veiða aðeins 220 þús. tonn af þorski í stað 380 þús. tonna á árinu 1982. Þetta veldur auðvitað heimilunum miklum búsifjum. Það er talið að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna hafi minnkað í ár frá því sem hann var í fyrra, þegar umframeyðslan var mest, um 12% og enn mun kaupmátturinn síga á næsta ári. En þetta veldur ríkissjóði líka búsifjum ekki síður en heimilunum. Ríkissjóður hefur miklar tekjur af eyðslu. Það hefði miklar tekjur í för með sér fyrir ríkissjóð ef kaupmátturinn væri hinn sami á næsta ári og hann var á kreppulægðarárinu 1982. En hvað hefði það í för með sér ef kaupmátturinn væri hinn sami þegar veiðast 220 þús. tonn af þorski og þegar veiddust 380 þús. tonn? Það hefði í för með sér gífurlegan viðskiptahalla, sem aftur hefði í för með sér að skuldir okkar erlendis yrðu fljótar að fara yfir 100% af þjóðarframleiðslu. Hér er því ekki margra kosta völ. Þjóðarhagur krefst þess að fast sé haldið við þá stefnu sem mörkuð hefur verið.

Ég vil þá víkja að tekjuáætlun fjárlaganna eins og hún kemur fram í brtt. meiri hl. fjvn.

Þjóðhagsstofnun hefur að venju endurskoðað tekjuáætlun fjárlaga fyrir árið 1984. Þessi áætlun er annars vegar gerð á grundvelli fyllri upplýsinga um innheimtuþróun á þessu ári, en nú liggja fyrir tölur um innheimtu tekna á fyrstu 11 mánuðum ársins. Hins vegar er í þessari áætlun tekið mið af breyttum þjóðhagsforsendum frá því sem gengið var út frá við gerð fjárlagafrv. s.l. haust. Forsendur fjárlagafrv. hafa nú breyst sem kunnugt er í veigamiklum atriðum vegna fyrirsjáanlegs samdráttar í þjóðarframleiðslu á næsta ári umfram það sem áður var reiknað með. Með hliðsjón af þessu hefur ríkisstj. ákveðið að miða fjárlagagerðina við það að kauptaxtar verði um 4% hærri að meðaltali árið 1984 en í árslok 1983 í stað 6% áður. Í þessu felst að meðalhækkun kauptaxta milli ára 1983–1984 yrði 13% í stað 15% í fjárlagafrv. og þjóðhagsáætlun. Í ljósi þessa er nú gert ráð fyrir að tekjur í heild lækki 3% minna á næsta ári en áður var reiknað með eða um 17.5%–18 í stað 21%. Skýringin er annars vegar minni kauptaxtabreyting en áður var gert ráð fyrir og hins vegar er gert ráð fyrir að úr atvinnu dragi í kjölfar verulegs framleiðslusamdráttar.

Í fjárlagafrv. var gert ráð fyrir að álagningu beinna skatta yrði þannig hagað að skattbyrði milli áranna 1983–1984 breyttist ekki og var þá gengið út frá 21% tekjubreytingu milli ára. Með hliðsjón af þeim breyttu horfum um tekjuþróun á næsta ári sem hér hafa verið raktar hefur álagning tekjuskatta verið lækkuð frá því sem áður var miðað við þannig að skattbyrði beinna skatta ríkisins verði hin sama á næsta ári og áætlað er á þessu ári. Þessar breyttu horfur fela í sér meiri samdrátt í neyslu á næsta ári en áður var reiknað með og hafa þar með áhrif á allar veltustærðir á tekjuáætlun fjárlaga. Í fjárlagafrv. var almennt gert ráð fyrir 4–5% samdrætti í veltu á næsta ári, en í endurskoðun Þjóðhagsstofnunar, sem liggur til grundvallar brtt. meiri hl., er miðað við 6–7% veltusamdrátt. Þar er gert ráð fyrir að kaupmáttur geti minnkað um 2–2.5% frá því sem hann var á síðustu mánuðum þessa árs. Ef fjárlagaforsendur hefðu haldist algerlega óbreyttar er það mat Þjóðhagsstofnunar að tekjuhlið fjárlagafrv. hefði hækkað um nálega 650 millj. kr., en vegna breytinga á þjóðhagsforsendum lækki sú tala um 250 millj. kr. og vegna breyttra forsendna í útreikningi tekjuskatts lækki tekjurnar um 90 millj. kr. Tekjuhækkunin verður því rúmlega 300 millj. kr. frá fjárlagafrv. og er þar um að ræða hækkun markaðra tekna fyrst og fremst, en tekjur ríkissjóðs sem ekki eru markaðar lækka beinlínis frá fjárlagafrv. vegna þessara breyttu þjóðhagsforsendna.

Það er athyglisvert í þessu sambandi að tekjuspá Þjóðhagsstofnunar lækkar tekjur ríkissjóðs miklum mun meira vegna breyttra þjóðhagsforsendna en gjaldahliðin lækkar um vegna 2% lækkunar launaforsendna. Lækkun útgjalda eru rúmar 160 millj. kr., en lækkun tekna 250 millj. og 90 millj. betur vegna lækkunar tekjuskattsáætlunarinnar. Svo sem áður segir má rekja hallann á rekstrarjöfnuði ríkissjóðs samkv. fjárlagafrv. og eins og hann verður eftir brtt. fjvn. til þessara breyttu þjóðhagsforsendna. Það má auðvitað segja að þegar þessi sérstaki vandi kom upp hefði þurft að beita hnífnum, skera meira niður t.d. á sviði framkvæmda til að ná jöfnuði í rekstri ríkissjóðs. Þetta þótti þó ekki fært m.a. af því hvaða áhrif slíkar aðgerðir hefðu á atvinnu. Þá er og deginum ljósara að ekkert svigrúm var til frekari skattalækkana. Ég er þeirrar skoðunar, að ef nokkurt svigrúm hefði verið til hefði verið æskilegt að koma til móts við fólk í lækkun tekjuskatta. Ég tel að lagfæra þurfi skattkerfi óbeinu skattanna. Þar eru ljót dæmi um að skattur sé lagður ofan á skatt og ríkið taki óverulega mikið til sín af verði vöru. Samt sem áður tel ég eðlilegra að skattleggja fólk þegar það er að eyða verðmætum í stað þess að skattleggja það þegar það er að afla teknanna. Þegar fólk aflar tekna er það að draga björg í bú fyrir þjóðfélagið. Þá framtakssemi á síður að skattleggja en eyðslu.

Rétt er að taka fram í sambandi við tekjuáætlunina að skattur til Framkvæmdasjóðs aldraðra er hér áætlaður samkv. frv. til l. um þann sjóð sem lagt hefur verið fram á Alþingi. Áætlað er að þessi skattur gefi 46 millj. kr., sem allar renni í þennan sjóð. Mér skilst að það sé prentvilla í þskj., að þar standi 46 þús. kr. einhvers staðar í sambandi við þennan sjóð, en það á að vera 46 millj. Ég vona að það verði leiðrétt.

Áður en ég vík að einstökum brtt. fjvn. vil ég taka fram að fjvn. flutti till. um lækkun á fjárveitingum til iðnfræðsluráðs við 2. umr. Þessi till. var ekki flutt með atbeina menntmrn. og því óviðkomandi. Þessi till. er ekki endurflutt við þessa umr., enda koma verkefni iðnfræðsluráðs til athugunar þegar lög verða undirbúin um framhaldsskóla, eins og fjölmörg önnur atriði.

Ég vík þá að einstökum brtt.

1. brtt. er við embætti forseta Íslands. Þar er tekinn upp 350 þús. kr. liður vegna embættistöku forseta, en forsetakosningar eru á næsta ári. Menntamálaráðuneyti.

Raunvísindastofnun háskólans. Þar er ekki um að ræða brtt. sem hefur í för með sér breytingu á heildarniðurstöðu gjalda. Þar er einungis um tilfærslu milli viðfangsefna að ræða.

Kennaraháskóli Íslands. Till. er um að viðhald hækki um 200 þús. kr. vegna viðhalds gamla skólahússins. Fjölbrautaskólar í Reykjavík. Liðurinn Fjölbrautaskólinn í Breiðholti hækki um 650 þús. kr., en þar er um að ræða fjárhæð sem við nánari athugun var talið þurfa til að taka hluta af nýbyggingu í notkun.

Vélskóli Íslands. Till. er um að stofnkostnaður til tækjakaupa hækki um 500 þús. kr.

Grunnskólar. Liðurinn lækki um 72 þús. kr., en það er vegna breyttra launaforsendna.

Skólar fyrir þroskaheft börn. Liðurinn hækki alls um 187 þús. kr., sem skiptist eins og hér segir: Lækkun vegna launaforsendna er 53 þús. kr. og liðurinn sameiginleg þjónusta hækki um 240 þús. kr. vegna sumardvalar fyrir þroskahefta.

Vernd barna og ungmenna. Barnaverndarráð hækki um 400 þús. kr., m.a. vegna foreldraráðgjafar. Unglingaheimili ríkisins, yfirfærsla til B-hluta 104 þús. kr. vegna launaniðurfærslu.

Lánasjóður ísl. námsmanna. Yfirfærsla til B-hluta lækki um 51 þús. vegna launaniðurfærslu, forsendubreytingar.

Náms- og fræðimenn, framlög. Liðurinn Styrkur til erlendra námsmanna í íslenskum skólum hækki um 330 þús. kr.

Ríkisútvarp, sjónvarp. Framlag til B-hluta hækki um 2.2 millj. kr. vegna afborgana af láni sem samið var um að ríkið tæki að sér að greiða á sínum tíma.

Þjóðleikhúsið, framlög. Yfirfærsla til B-hluta lækki um 805 þús. kr. vegna launaniðurfærslu. Sinfóníuhljómsveit Íslands lækki um 188 þús. kr.

Lækkunin skýrist þannig: Lækkun vegna launaniðurfærslu 488 þús. kr., en 300 þús. kr. hækkun til greiðslu á þóknun til söngkóra.

Byggingarsjóður þjóðarbókhlöðu. Liðurinn hækki um 5 millj. kr. til þess að hægt sé að ganga betur frá verkáfanga í húsinu.

Listskreytingasjóður ríkisins. Stofnkostnaður hækki um 1500 þús. kr.

Listir, framlög. Liðurinn hækki alls um 360 þús. kr., sem skiptist sem hér segir: Önnur leiklistarstarfsemi hækki um 300 þús. kr. og nýlistasafn hækki um 60 þús. kr.

Húsfriðun. Liðurinn Byggða- og minjasöfn hækki um 100 þús. kr.

Ýmislegt vegna menntamála. Liðurinn hækki samtals um 350 þús. kr. Hækkunin skiptist þannig á einstaka liði: Kvenfélagasamband Íslands hækki um 150 þús. kr. og ýmis framlög um 200 þús. kr.

Landbúnaðarráðuneyti. Áður en ég tek til við að skýra till. við landbrn. vil ég vekja athygli á því að á móti hækkunum sem þar koma kemur veruleg lækkun á niðurgreiðslum landbúnaðarvara, sem ég kem að síðar.

Búnaðarfélag Íslands. Liðurinn Sérfræðileg aðstoð við landbúnaðinn hækki um 1 millj. kr.

Landgræðslu- og landverndaráætlun. Liðurinn hækki alls um 4 millj. 641 þús. kr. og skiptist sem hér segir á viðfangsefni: Landgræðsluáætlun, Rannsóknastofnun landbúnaðarins hækki um 100 þús. kr., Landgræðsluáætlun, Skógrækt ríkisins hækki um 499 þús. kr., Landgræðsluáætlun, Landgræðsla ríkisins hækki um 4 millj. 183 þús. kr. og Landgræðsluáætlun, ýmis starfsemi, um 58 þús. kr. Hér er gerð till. um að landgræðslu- og landverndaráætlun verði hækkuð sem nemur forsendum fjárlaga þannig að fullar verðbætur hafa verið hér teknar inn í þessa áætlun, eins og samið var um að gert yrði á sínum tíma.

Jarðræktarframlög. Liðurinn hækki alls um 45 millj. 370 þús. kr. og skiptist eins og fram kemur á fskj. Hér er um að ræða greiðslur vegna framkvæmda á fyrra ári sem eru samkv. lögum. Því miður sýnist nú enn skorta á að þessi liður sé það hár sem landbrn. telur að hann þurfi að vera.

Búfjárrækt, framlag samkv. lögum nr. 31/1973. Liðurinn hækki alls um 3 millj. 410 þús. kr.

Ýmis starfsemi landbúnaðarmála. Skógræktarfélag Íslands hækki um 60 þús. kr.

Sjávarútvegsráðuneyti.

Sjávarútvegsmál, ýmis starfsemi. Liðurinn hækki alls um 14 millj. kr. Hækkunin skiptist sem hér segir: Mörkun fiskveiðistefnu hækki um 1 millj. kr. Nýir liðir: Stjórn fiskveiða 5 millj. kr. og Hafrannsóknir á djúpslóð 8 millj. kr.

Dómsmálaráðuneyti.

Almannavarnir ríkisins. Stofnkostnaður hækki um 500 þús. kr. vegna kaupa á símstöð.

Prestaköll og prófasta. Liðurinn 0101 hækki um 700 þús. kr. vegna launa prests í London sem annast sjúkraþjónustu. Tryggingastofnun ríkisins hefur greitt laun mannsins, en mun greiða á móti þessari fjárhæð til að þessi starfsemi geti haldið áfram, en mér skilst að talin sé mjög mikil þörf fyrir hana.

Ýmis kirkjuleg málefni. Liðurinn Hólar í Hjaltadal hækki um 60 þús. kr.

Félagsmálaráðuneyti.

Málefni fatlaðra. Liðurinn hækki um 750 þús. kr. og skiptist þannig: Sambýli 500 þús. kr., verndaðir vinnustaðir 250 þús. kr. Fjvn. og félmrn. munu fjalla sérstaklega síðar um þessar fjárveitingar.

Skálatún Mosfellssveit. Liðurinn hækki um 500 þús. kr. til að koma til móts við þessa stofnun vegna vistunar erlends einstaklings.

Jafnréttisráð. Önnur rekstrargjöld hækki um 100 þús. kr. vegna útgáfu á skýrslu sem ráðið hefur hug á að gefa út.

Vinnueftirlit ríkisins. Laun hækki um 300 þús. kr., önnur rekstrargjöld um 200 þús. kr. og sértekjur á móti um 500 þús. kr. Hér er ekki um að ræða samþykkt á auknum umsvifum þessarar stofnunar, heldur nánast leiðréttingu.

Félagsmál, ýmis starfsemi. Samtök aldraðra, nýr liður, komi inn með 200 þús. kr. og ýmis framlög hækki um 200 þús. kr. Mun fjvn. síðar fjalla um þann lið.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti. Aðalskrifstofur. Laun hækki um 360 þús. kr. vegna starfa læknis sem á að annast sérstakt verkefni í þrjú ár. Þessi staða kemur í stað skólayfirlæknisstöðu sem rn. hefur ekki ráðið í að undanförnu.

Tryggingastofnun ríkisins lækki um 67 millj. kr. vegna launaniðurfærslu, en hækki um 24 millj. 50 þús. kr. vegna daggjalda nýrra heilbrigðisstofnana.

Landtæknir. Liðurinn hækki um 250 þús. kr. vegna fræðslustarfsemi.

Ríkisspítalar. Liðurinn hækki alls um 17 millj. 550 þús. kr. vegna nýrrar starfsemi hjá ríkisspítölunum. Heilbrrn. og fjvn. munu fjalla nánar um skiptingu á þessum lið.

Landspítalinn. Stofnkostnaður hækki um 25.7 millj. kr. Þar af fari 16 millj. kr. til kaupa á hjartaþræðingartæki og 9.7 millj. til svonefndrar K-byggingar. Í fjárlagafrv. eru 2.3 millj. kr. til þessa verkefnis, þannig að 12 millj. eru til ráðstöfunar á þessu sviði. Með þessum tillögum er bætt aðstaða til hjartarannsókna sem skref í þá átt að taka upp hjartaskurðlækningar. Þá er staðfest stefna fjvn. að því er varðar svonefnda K-byggingu og vonandi kemst þetta nauðsynjamál á hreyfingu með þessari till.

Framkvæmdasjóður aldraðra. Liðurinn hækki um 19 millj. kr., þar af 4 millj. vegna hækkunar á sérstökum skatti og 15 millj. sem framlag úr ríkissjóði vegna framkvæmda við hjúkrunarheimili aldraðra, enda komi jafnhátt framlag á móti af sérstökum skatti sjóðsins til þeirra verkefna.

Héraðslæknar og heilsugæslustöðvar. Liðurinn hækki um 6 millj. 980 þús. kr. og er þar nánast um leiðréttingu á fjárlagafrv. að ræða, en af vangá var ekki áætlað fyrir starfsemi sem hafði verið tekin inn í fjárlög í ár.

Heilbrigðismál. Liðurinn Krabbameinsfélag Íslands hækki um 4 millj. 608 þús. kr. og eru þá til ráðstöfunar 10 millj. kr. vegna krabbameinsleitarinnar, sem eins og menn þekkja er hið brýnasta verkefni, en fjvn. telur að með þessari brtt. sé hægt að reka þá starfsemi í sama horfi og hún er nú.

Til reykingavarna hækki um 100 þús. kr. og ýmis framlög hækki um 300 þús. kr.

Bindindisstarfsemi. Stórstúka Íslands. Liðurinn hækki um 100 þús. kr.

Fjármálaráðuneyti.

Tollstjórinn í Reykjavík. Önnur rekstrargjöld hækki um 300 þús. kr. vegna tollskóla.

Uppbætur á lífeyri. Liðurinn hækki um 800 þús. kr. Styrktarfé og ýmis eftirlaun embættismanna. Þessi liður falli niður og eins liðurinn Styrktarfé og ýmis eftirlaun, ekkjur, en í staðinn komi einn liður, Styrktarfé og ýmis eftirlaun.

Ýmislegt undir fjmrn. Liðurinn hækki alls um 1 millj. 206 þús. kr. Hækkunin skiptist þannig á viðfangsefni: Milliþinganefndir hækki um 206 þús. kr. Aðgerðir gegn eiturlyfjum verði 1 millj. kr., en fjvn. taldi rétt að setja þessa fjárhæð á fjmrn. þannig að hægt verði að ákveða með hvaða hætti hún yrði best nýtt, t.d. til fræðslustarfs og einhverra annarra aðgerða í þessu máli.

Samgönguráðuneyti.

Póst- og símamálastofnun. Liðurinn verði 37 millj. 419 þús. kr., sem er nánast bókfærsluatriði. Þegar tekjur frá Alþjóðaflugmálastofnuninni eru teknar inn í tekjuhlið frv. skilast þeir fjármunir út úr A-hlutanum með þessum hætti.

Vegagerð ríkisins. Liðurinn hækki um 437 millj. 260 þús. kr. og hefur þá verið tekið mið af spá um samdrátt í þjóðarframleiðslunni. Þessi gjaldfærsla hefur áður verið skýrð.

Strandferðir, framlög. Liðurinn Skipaútgerð ríkisins hækki um 12 millj. kr. og er það miðað við, eins og ég sagði áðan, að starfsemi Skipaútgerðarinnar verði óbreytt hálft árið.

Flóabátar og vöruflutningar hækki um 13 millj. 291 þús. að till. samvn. samgm.

Vitastofnun Íslands. Liðurinn Vitabyggingar hækki um 1800 þús. kr. Hér er um að ræða hækkun á vitagjaldi sem verður notuð til nýrra vita.

Hafnamál. Viðfangsefnið ferjubryggjur hækki um 500 þús. kr.

Siglingamálastofnun ríkisins. Stofnkostnaður hækki um 400 þús. kr. á móti hækkun skipaskoðunargjalds. Flugmálastjórn. Liðurinn hækki alls um 62 millj. 151 þús. kr. Hækkunin skiptist þannig á gjaldategundir: Laun hækki um 36 millj. 837 þús. Önnur rekstrargjöld hækki um 20 millj. 938 þús. kr. Viðhald hækki um 4 millj. 376 þús. kr. Þessi mikla hækkun skýrist fyrst og fremst af því, að um er að ræða mótframlag Alþjóðaflugmálastofnunarinnar sem nú er í fyrsta sinn fært inn í fjárlög. Þessar tekjur bárust flugmálastjórn og er óhætt að segja að eins og flugmálastjórn hefur verið færð í fjárlög hafa ekki þar komið fram þau umsvif sem í raun eru. Nú er þessu breytt þannig að yfirsýn er hægt að fá yfir flugmálastjórn eins og önnur fyrirtæki. Tekjur Alþjóðaflugmálastofnunarinnar koma beint í ríkissjóð og síðan fær flugmálastjórn fjárveitingar eins og aðrar ríkisstofnanir.

Ýmis framlög. Liðurinn Tilkynningarskylda fiskiskipa hækki um 470 þús. kr.

Veðurstofa Íslands. Laun hækki um 10 millj. 765 þús. kr. og önnur rekstrargjöld hækki um 4 millj. 130 þús. kr., viðhald um 322 þús. kr. og stofnkostnaður um 1400 þús. kr. Sértekjur falli niður. Þetta er nákvæmlega af sömu ástæðum og ég rakti áðan um flugmálastjórn.

Iðnaðarráðuneyti.

Lánasjóðir iðnaðarins. Liðurinn Iðnrekstrarsjóður hækki um 10 millj. kr. Ekki er talið fært að leggja starfsemi Iðnrekstrarsjóðs niður að þessu sinni, en að málinu verður unnið áfram og þörf er talin á því að þessi fjárveiting til sjóðsins verði hækkuð með þessum hætti.

Iðja og iðnaður, framlög. Liðurinn Iðnþróun og tækninýjungar lækki um 500 þús. kr., en nýr liður bætist við, Rannsóknir á surtarbrandi, og verði 1800 þús. kr:

Orkusjóður. Liðurinn Verðjöfnunargjald hækki um 120 millj. kr., en þeir fjármunir renna til Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða eins og kunnugt er.

Ýmis orkumál. Nýr liður komi þar inn: Háhitarannsóknir og verði 1200 þús. kr. og er ætlunin að þessir fjármunir fari til yfirborðsrannsókna á háhitasvæði í Öxarfirði.

Viðskiptaráðuneyti.

Liðurinn Niðurgreiðslur lækki um 65 millj. kr. Þar er um lækkun að ræða sem skýrist af því að vextir lækka eins og kunnugt er og þarf því að greiða minna af niðurgreiðslufé í vexti en áður. Ég vil taka það fram í sambandi við þetta að inni í liðnum Niðurgreiðslur á vöruverði er auk beinna niðurgreiðsla framlag til Lífeyrissjóðs bænda og greiðsla á vaxta- og geymslukostnaði sem annars kæmi fram í hækkun vöruverðs. Í grg. með frv. er framlagið til lífeyrissjóðsins talið 46 millj. kr., en til að standa við lögbundnar greiðslur til sjóðsins mun sú tala vera nokkuð hærri og skiptingin á liðnum því vera í samræmi við það.

Fjárlaga- og hagsýslustofnun, ýmis lán ríkissjóðs. Lánahreyfingar út hækki um 9.8 millj. kr. vegna uppgjörs lána Vestmannaeyjakaupstaðar og lánahreyfingar inn hækki um 2 millj. kr.

Auk þessara tillagna, sem ég hef nú hér farið yfir, flytur fjvn. till. til breytingar á 6. gr., sem ég tel að skýri sig sjálfar.